Skynsöm uppbygging stóriðju lífsnauðsyn fyrir efnahag landsins

Í einfaldri yfirreið Indriða var ekki minnst á þær þúsundir starfsmanna, sem starfa í stóriðjuverum - sem alla jafna eru vel launuð störf, sem skila góðum arði í ríkiskassann. Eins minntist hann ekki á þau afleiddu störf, sem skapast í þjónustuiðnaði, tengdum m.a. álverum. En fyrst og fremst leiðir hann ekki hugann að því að hluta af arði verksmiðjunnar rennur til orkukaupa. Skýrasta dæmið er jú að orkusala Búrfellsvirkjunar hefur fyrir löngu greitt allan kostnað sem hlaust af byggingu virkjunarinnar og malar nú gull. Eins mun verða um önnur orkuver, sem selja orku til stóriðju. Að auki hefur verið bent á að ef ekki hefði verið hægt að virkja til stóriðjunnar væri orkuverð til fyrirtækja og heimila í landinu hærra en ella - getur verið að fyrrverandi ríkisskattstjóri hafi gleymt því í sínu annars ágæta spjalli?

Enn til viðbótar má minnast þess að uppbygging virkjana hefur skapað þúsundum fjölskyldna gott lífsviðurværi, eflt þekkingu í landinu á sviði verkfræði, verktakastarfsemi og annars sem tengist slíkri uppbyggingu, að ekki sé nú talað um rekstur og viðhald alls kerfisins æ síðan. Nýting jarðvarmans hefur eflt sérhæfða þekkingu, sem nú hefur þegar aflað verkfræðistofum og öðrum ýmis verkefni á erlendri grund. Eins hefur rekstur álvera eflt þekkingariðnað í landinu og hátæknistörf verið mönnuð af Íslendingum þar. Enn hefur enginn misst vinnuna þar í núverandi efnahagsþrenginum.

Að endingu mætti telja upp þau áhrif sem starfsemin hefur á utanríkisverslunina en það er einmitt á því sviði sem auðvelt er að gera sér grein fyrir mikilvægi þessa iðnaðar á þjóðarbúið. Sé horft til vöru-, þjónustu- og fjárstreymis til og frá álverum í landinu sést að túlkanir hans Indriða eru svo fjarri lagi að maður gæti haldið að hann væri e.k. málafylgjumaður Steingríms J. þegar kemur að uppbyggingu stóriðju í landinu.


mbl.is Tókust á um arðsemi álveranna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hekla Sól Ásdóttir

Sæll.

Búrfellsvirkjun malar gull fyrir eigendur sína, mörg þúsund milljónir á ári hverju í svo til hreinan hagnað, enda upphaflegar fjárfestingar í mannvirkinu að fullu afskrifaðar .

Indriði H. Þorláksson birti nýverið grein á vef sínum – sem talsvert var fjallað um í fjölmiðlum – um efnahagsleg áhrif álvera á Íslandi. Hann segir þar að efnahagslegur ávinningur landsmanna af slíkri starfsemi sé lítill. Sem er rangt Indriði lét hér fagmennskuna liggja á milli hluta en pólutísksjónarmið ráð ferðinni.

Tölur segja okkur að meðalvelta á starfsmann í þjónustufyrirtækjum sé um 12 milljónir á ári og um 65 milljónir á ári hjá orkufyrirtækjum. Uppreiknað með launavísitölu eru þessar tölur 13 milljónir og 73 milljónir á ári.

Á síðasta ári greiddi Norðurál um 25 milljarða til þjónustufyrirtækja, orkufyrirtækja og í laun og launatengd gjöld.

Um 40% af veltu Alcan á Íslandi hf. er kostnaður sem fellur til á Íslandi, eða tæplega 19 milljarðar króna árið 2008

Samahlutfall er hjá Alcoa eða 38 milljarðar séu þessar gjaldeyristekjur teknar saman skilar það þjóðarbúinu, um 82 til 85 milljörðum árlega.

Menn geta ekki litið fram hjá þeirri staðreynd hversu stóran þátt uppbyggingin í Straumsvík átti í atvinnubyltingunni á Íslandi og þá nýju stefnu sem mörkuð var með henni í atvinnubyggingunni á Íslandi.

Menntun landsmanna hefur aukist í skjóli aukinna tækifæra vegna þeirra ruðningsáhrifa  sem þessi nýja atvinnugrein hefur haft í för með sér undanfarin 40 ár af þeirri einföldu ástæðu að tækifærin fyrir háskólamenntaða eru fleiri, t.d. verk- og tæknifræðingar ISAL.

Árið 1969 voru um eitthundrað verkfræðimenntaðir menn á landinu og áttu í erfiðleikum að fá sé vinnu við sitt hæfi á Íslandi. Nú eru um 3.500 verk- og tæknifræðingar og fjölgar ört, þrátt fyrir það er gríðarlegur skortur á fólki í þessari grein.

UM 22.500 manns eiga nú afkomu sína undir orkugeiranum og stóriðju á Íslandi. Tuttugu og tvö þúsund og fimm hundruð manns sem Vinstri Grænir vilja svipta lífsviðurværinu og tryggja að þeirra hagur og framtíð sé í lausu lofti.

Hvar skyldi allur þessi hópur 22.500 manna starfa? Hópurinn er í Ál geiranum Járn-blendinu, Landsvirkjun, Rei, Geysi Green, Orkuveitu Suðurnesja, Orkuveitu Reykjavíkur, Orkustofnum og fleiri fyrirtækjum og stofnunum sem öll fengu vítamínsprautu í kjölfar byggingar Álversins í Straumsvík.

Hekla Sól Ásdóttir, 12.2.2009 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband