21.2.2009 | 01:25
Efnahagsplástrar í stað raunverulegra bjargráða
Ég er á því að ýmis efnahagsúrræði sem hafa verið sett fram í vestrænum löndum muni ekki gera tilskilið gagn. Til þess að úrræði af þessu tagi eigi að virka verða menn að þekkja vandann, skilgreina hann og velta fyrir sér mögulegum ráðum. Annars vegar er horft til hlutverks ríkisins í viðleitni til þess að örva markaðshagkerfið og hins vegar er tekist á um skilvirkni hins kapitalíska hagkerfis og þær hagfræðikenningar, sem hafa ráðið för við stjórn efnahagsmála um langt skeið; ekki bara á vesturlöndum, heldur í nær öllum hinum alþjóðavædda efnahag heimsins.
Margir vilja kenna nýfrjálshyggjunni um ófarir fjármálakerfis heimsins og kreppunnar sem skollin er á. Um það verður ekki villst að á sumum sviðum hefur verið losað um hömlur í regluverkinu, sem kann að hafa átt sinn þátt í því hvernig fór. Hins vegar geta menn ekki horft framhjá því að hlutverk hins opinbera hefur alla tíð verið stærra en sumir vilja viðurkenna í hinu kapitaliska efnahagskerfi. Á þetta ekki síst við um frjálshyggjumenn eða hagfræðinga sem vilja kenna sig við kenningar þeim megin í litrófinu.
En þetta á einnig við um fræðimenn sem aðhyllast kenningar sem kalla á aukið hlutverk ríkisins í markaðsbúskapnum, telja hann ekki jafn vel smurða vél og fjrálshyggjumenn vilja halda fram. Halda jafnvel fram "helgispjöllum" á borð við það, að hin ósýnilega hönd markaðarins sé í raun ekki til. Markaðurinn eigi í stökustu vandræðum með að leiðrétta sig, eins og stundum er sagt, ávallt þurfi að koma "honum" til aðstoðar.
Þessi gagnrýni á markaðhagkerfið er um sumt réttmæt. Hið opinbera er vissulega stór hluti af gangverkinu og svo hefur það verið um langt skeið. Inngrip ríkisins eru víðtæk, ekki einungis við stjórn peningamála, heldur einnig í gegnum skattakerfið, opinberar framkvæmdir, kostun velferðarkerfisins o.s.frv. Hið opinbera hlutast til um velferð og innihald lífs okkar á svo mörgum sviðum að allt tal um frjálsan markaðsbúskap hljómar jafnvel ankannalega.
Samt hafa frjálshyggjumenn reynt að hleypa eða halda lífi í þá mýtu að efnahagskerfið gangi á öllum sínum frjálsu, kapitalísku sylindrum, í raun vitandi það að ríkið ræður yfir stórum hluta gangverksins. Að sama skapi ættu gagnrýnendur frjálshyggjunnar að varast að dæma of hart. Með því dæma þeir sjálfa sig, því þeir trúa af miklum mætti á hlutverk hins opinbera til þess að halda aftur af hinu mikla kapitalíska skrímsli. Þeim hefur því í raun mistekist ætlunarverk sitt.
Sé horft til aðdraganda þeirrar efnahagsniðursveiflu sem heimurinn gengur í gegnum um þessar mundir er ljóst að sú leið er vörðuð mistökum á mörgum sviðum, hugmyndafræðilegum og af ýmsu öðru tagi, og ekki síst mögnuð af þeim væntingum sem leiddu heimsbyggðina á græðgiseyrunum. Vegna þess hve kreppa af því tagi, sem skekur heimsbyggðina nú, kemur, að því er virðist, eingungis einu sinni á mannsaldri, virðist hagfræðin, að ekki sé nú talað um stjórnmálamenn, ekki reiðubúin til þess að geta komið í veg fyrir hana.
Alræðisríki fjórða áratugar síðustu aldar leystu sumpart kreppuna með sínum alræðisráðum. Ríkið tók yfir efnahagslíf fólksins og reyndar nær flest annað er varðaða tilveru þegnanna. Í lýðræðisríkjum var reynt að fara leið ríkisafskipta, án þess að ganga á stjórnarskrárbundin réttindi borgaranna. Vestur í Bandaríkjunum reyndi Franklin D. Roosevelt að kveikja líf í efnahag landsins með efnahagsaðgerðum, sem gengu undir nafninu New Deal. Ljóst er að þær aðgerðir voru í besta falli plástur á efnahagslífið og gerðu lítið til þess að bæta ástandið. Svipaða sögu var að segja annars staðar.
Hvort sem inngrip ríkisins vestur í henni ameríku urðu til þess að gera kreppuna dýpri en ella, m.a. með því að minnka peningamagn í umferð skömmu eftir hrunið á Wall Street, eða ekki, er ljóst að strax þá voru uppi hagfræðikenningar sem reyndu að takast á við kreppuvandann. Kreppan varði nær heilan áratug og leystist í raun ekki fyrr en með tilkomu heimsstyrjaldarinnar síðari - eða svo er nú sagt. En hvers vegna gátu styrjaldarátök leyst heiminn úr viðjum kreppunnar? Um það snýst m.a. einn sá lærdómur, sem menn hafa síðan dregið af ófullkomleika hins markaðsvædda hagkerfis.
Í niðursveiflu í hinu kapitalíska hagkerfi er fólgin hætta, sem kann að leiða af sér enn meiri niðursveiflu. Vegna þess hve kerfið er bundið tilfinnasveiflum um traust, væntingar o.s.frv., getur samdráttur á einu sviði haft kerfislæg áhrif og valdið því að verulegur og allt að því óafturkræfur efnahagslegur samdráttur á sér stað. Því hafa fræðingar bent á nauðsyn þess að ríkið komi að málum og dæli m.a. fjármagni inn í kerfið til þess að efla með fólki trú á markaðnum; komi hjólum markaðshagkerfisins í gang á ný.
Í hinni fræðilegu úttekt má eflaust benda á að markaðshagkerfið hefur í raun aldrei verið alveg frjálst, hið opinbera hefur alla vega í hundrað ár verið mikilvægur þáttur í innviðum þess og sífellt aukist þrýstingur á að efla þetta hlutverk. Hvað má þá segja um misheppnað hlutverk þess í ljósi núvernadi ástands. Eftir stendur vitanlega sú mótsögn, að sífellt er reynt að halda í, eins og hörðustu andstæðinarnir vilja halda fram; spillt auðvaldskerfi, sem þjóni fáum, gangi á náttúruauðlindir jarðar, viðhaldi ríkidæmi vesturlanda á kostnað vanþróaðra ríkja o.m.fl.
Þessi sýn gefur vitanlega ekki rétta mynd af ástandi mála, þó svo að í öfgatilvikum megi finna sannleikstón í andáróðri gegn markaðshagkerfinu. Það er nefnilega svo að fyrirkomulag, sem byggist á frjálsum og ábyrgum viðskiptum, varið og vaktað af því stjórnkerfi sem stjórnarskrár okkar vilja vernda og siðferðið kallar eftir, er með stuðningi lýðræðisins það sem flestir frjálsir og vel hugsandi menn kjósa sér. Að þessu leytinu erum við nær öll frjálslyndir borgarar. Þess utan getum við rifist um kosti þeirra reglna sem varða þessa braut, kallað okkur frjálshyggjumenn, félagshyggjumenn eða eitthvað annað.
Sé horft til efnahagsaðgerða Obama-stjórnarinnar tel ég næsta víst að þær muni vart skila tilætluðum árangri, alla vega ekki á efnahagssviðinu. Hins vegar kunna þessar aðgerðir að vera nauðsynlegar út frá öðrum sjónarmiðum enda er vart til sá stjórnmálamaður sem þyrði að benda á verulega sársaukafullar stjórnvalds- og efnahagsaðgerðir, til þess að laga vandann. Sársaukinn mun hvort sem er sýna andlit sitt og hættan er sú að kreppan dragist á langinn á meðan stjórnvöld sýna vilja til þess að setja efnahagsplástra á ástandið, í stað þess að skera sum efnahagsmeinin í burtu.
Obama byrjar vel | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:26 | Facebook
Athugasemdir
Mjög áhugaverð lesning eins og alltaf hjá þér Ólafur
Sigurður Þórðarson, 21.2.2009 kl. 01:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.