21.2.2009 | 12:42
Handsal gagnkvæmra hagsmuna
Uppkaup Kínverja á bandarískum ríkisskuldabréfum hafa sumpart haldið uppi kaupmætti í Bandaríkjunum og stuðlað að neyslu umfram efni. Kínverjar eru orðnir helstu framleiðendur heims á alls kyns neysluvöru og því hafa skuldabréfakaupin ýtt undir uppbyggingu á þeirra heimavelli. Bandarísk stjórnvöld hafa í gegnum skuldabréfasölu fjármagnað fjárlagahalla ríkissjóðs, sem ekki á sér fordæmi í bandarískri sögu - stríðsreksturinn í Írak og Afghanistan hefur því verið fjármagnaður af skuldabréfakaupum Kínverja, en einnig Saudi-Araba, Japana og annarra, sem hafa haft fjármuni aflögu á seinni árum.
Það má líkja við vatnaskilum í stjórnmálum heimsins þegar utanríkisráðherra Bandaríkjanna telur samvinnu á sviði efnahags og umhverfismála setja baráttuna fyrir mannréttindum til hliðar. Kínverjar sjá fram á það innan ekki mjög margra ára að verða leiðandi þátttakandi á sviði alþjóðamála. Sú þróun mun eðlilega leiða til aukins núnings við Bandaríkin á komandi árum. Hvað sem segja má um hlutskipti Bandaríkjanna í hinu flókna alþjóða samskipta- og valdatafli er næsta víst að Kínverjar munu vart þrýsta á lýðræðisþróun, hvað þá aukin mannréttindi í heiminum.
Reyndar ætti Clinton að fara varlega í að þakka Kínverjum skuldabréfakaupin, því ljóst er að þau hafa um margt veikt stöðu Bandaríkjanna á sviði efnahags og gert þeim erfitt fyrir að takast á við þann efnahagsvanda sem steðjar að þeim og heiminum öllum. Þó svo að Kínverjar hafi um sumt ráð Bandaríkjamanna í hendi sér, í ljósi skuldabréfaeignar upp á þúsundir milljarða dollara, er það jafnframt hagur Kínverja að Bandaríkin nái sér á strik, þó ekki væri fyrir annað en að verja þessa eign sína og til framtíðar tryggja að Bandaríkjamenn haldi áfram að kaupa kínverskar neysluvörur.
Þakkar Kínverjum skuldabréfakaupin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.