9.4.2009 | 10:59
Sjálfstæðisflokkur og Bjarni Benediktsson í vanda
Styrkirnir til Sjálfstæðisflokksins taka á sig æ verri mynd fyrir þá endurreisn sem flokknum er nauðsynleg, til þess að endurvinna traust hjá kjósendum. Nýi formaðurinn reynir hvað hann getur til þess að lágmarka skaðann en eftir því sem fram vindur tekur málið allt á sig sorglegri mynd. Ekki einasta er fyrrum formaðurinn, Geir H. Haarde, flæktur í málið, heldur er leiðtogi flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæmanna og fyrrum borgarfulltrúi einnig á bólakafi í því.
Menn þurfa ekki að vera andstæðingar Sjálfstæðisflokksins til þess að hvá við og setja málið í búning spillingar og samsæra. Hins vegar er það ábyrgðarhlutur að ætla mönnum beinlínis að þeir hafi verið keyptir til atkvæða. Varðandi REI málið þá vissi ég ekki betur en að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi verið á meðal þeirra sem stöðvuðu það mál. Fram að því voru allir flokkar þátttakendur, á einn eða annan máta. Var ekki t.d. bent á að Framsóknarflokkurinn væri á kafi í því máli?
Guðlaugur Þór er sagður fylginn sér í pólitík og hér sannast að maðurinn er duglegur í fjáröfluninni. Hann hefur væntanlega þurft að treysta á fjölmarga til þess að kosta sína baráttu upp hinn pólitíska metorðalista. Reyndar fannst mér hann standa sig afar vel sem heilbrigðisráðherra í tíð fyrri ríkisstjórnar - hann virtist hafa það þor sem nauðsynlegt er til þess að takast á við heilbrigðiskerfið og þau hagsmunaöfl sem ráða þar för og teygir anga sína um allt.
Bjarni Benediktsson þarf síst á þessu að halda í þeirri erfiðu vegferð sem hann og flokkurinn eru í. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fram að bjóða pólitík sem vert er að taka eftir við núverandi aðstæður. Sú heilbrigða skynsemi og trú á einstaklinginn sem einkennir hugarfar margra sjálfstæðismanna er öllum nauðsynleg til þess að á ný skapa nýjan atvinnugrundvöll. Uppbyggingin mun ekki verða reist á skattheimtu, þó svo að um stundarsakir verði nauðsynlegt að grípa til sterkra félagslegra aðgerða.
Til frambúðar mun einungis heilbrigð frjálshyggja byggja þetta land upp á ný og skapa grundvöll til þess að vinna gegn pólitískri rétthugsun og yfirtöku sérfræðinganna ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:10 | Facebook
Athugasemdir
Stefán, kynntu þér hvað felst í frjálshyggju, áður en þú lepur upp vitleysuna sem er í gangi.Myndirðu til dæmis afneita félagshyggju, vegna þess að á sviði sósíalisma eða fasisma (félagshyggju) hafa verið gerðar tilraunir til þess að stofna fyrirmyndarríki, sem hafa kostað tugi milljóna manna lífið? Nei, hér þarf hugsandi fólk að gera betur áður en það breiðir út eigin fáfræði.
Ólafur Als, 9.4.2009 kl. 18:24
Þær eru margar pólitísku óspjölluðu meyjarnar nú um stundir. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins beinlínis á innsoginu af vandlætingu og hneykslun. Vill kannski einhver fjölmiðlamaðurinn beina þeirri spurningu til hinna stjórnmálaflokkanna, hvesu háa styrki þeir fengu frá FL-group og Landsbankanum á síðustu árum. Furðulegt að enginn skuli spyrja?
Gústaf Níelsson, 9.4.2009 kl. 18:25
Rétt athugað, Gústi - hins vegar á það ekki að duga okkur hægri mönnum að vera mögulega í liði með öðrum í spillingu, hvað þá að vera þar fremstir í flokki. Það hefur sannast það sem við frjálshyggjumenn sögðum svo lengi, að valdið spillir. Verst að klaufagangurinn í forkólfum Sjálfstæðisflokksins á seinustu árum hefur gert vinstri mönnum kleift að ná hér völdum með afgerandi hætti.
Aumast er að horfa á Samfylkinguna kasta sinni frjálslyndu jafnaðarmennsku út um gluggann fyrir félagshyggjuáherslur - það er ekki eðlilegt hvað krataeðlið getur skipt um ham eftir kringumstæðum og verst að Sjálfstæðisflokkurinn geri þeim þetta svona auðvelt fyrir.
Ólafur Als, 9.4.2009 kl. 19:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.