10.4.2009 | 12:25
Getur það versnað mikið meira hjá Sjálfstæðisflokknum?
Á undanförnum misserum hafa forystumenn í Sjálfstæðisflokknum sýnt skort á dómgreind í ýmsum málum. Á pólitíska sviðinu hafa þeir sumir slegið feilnótur, svo eftir hefur verið tekið. Nægir þar að nefna hvernig fyrrum fjármálaráðherra, Árni Matthíessen, hélt á málum gagnvart ljósmæðrum og eins aðkoma fyrrum dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, að málefnum sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli. Þessi mál sýndu berlega hve illa þeir voru í stakk búnir til þess að vinna málstað sínum fylgis.
Fleiri mál varða þessa tvo fyrrum ráðherra og e.t.v. alvarlegri, t.d. embættisveitingar í dómarasæti. Vera má að fjölmiðlar hafi sýnt óbilgirni, t.d. í tilfelli sonar Davíðs, en maður spyr sig hvort þessir menn hafi ekki séð það fyrir. Var stjórnmálavitund þeirra svo blinduð að þeir áttuðu sig ekki á hve málið var eldfimt? Var eintaklingurinn, sem dómaraveitingin snerist um, svo miklu fremri hinum, að það réttlætti að takast á við pólitískt moldviðri? Þóttust menn svo öruggir í sínum háu stólum, að það tók því varla að taka mark á gagnrýni?
Hin langa valdaseta Sjálfstæðisflokksins sannaði það sem frjálshyggjumenn hafa löngum bent á, þ.e. að valdið spillir, en um það þarf ekki að efast. Hins vegar má segja að stjórnarseta flokksins hafi um langt skeið einkennst af því að losa um þær krumlur sem ríkið hafði á atvinnulífi landsmanna. Það fól m.a. í sér sölu alls kyns ríkisfyrirtækja og ekki síst sölu ríkisbankanna. Þessi stefna naut fylgis langt út fyrir raðir Sjálfstæðismanna enda vel studd af Framsókn og Samfylkingu, með einhverjum smávægilegum undantekningum þó.
Það hefur verið sótt að Sjálfstæðisflokknum á seinustu misserum úr fleiri áttum en hann hefur þurft að glíma við áður. Undir forystu Davíðs Oddssonar var lagður grunnur að langri stjórnarsetu með sterkan leiðtoga. Andstæðingar flokksins reyndu lengi vel að veitast að hinum sterka foringja, persónu hans og stjórnarstíl og fengu til liðs við sig öflugasta fjármálaveldi Íslands undir forystu Jóns Ásgeirs. Segja má að Sjálfstæðisflokkurinn hafi komist sæmilega frá þeim átökum, eftir að Davíð var horfinn úr brúnni og við tekinn einstaklingur með mildari og vinalegri ásjónu. Þjóðinni líkaði það vel og nýi skipstjórinn fiskaði vel í næstu kosningum.
Velgengni Sjálfstæðisflokksins hefur kennt forystumönnum hans ýmsa ósiði. Þeir eru að vísu all margir að hverfa að sjónarsviðinu en þeir hafa skilið eftir sig syndir sem hinn nýi formaður erfir og mun verða honum og flokknum til trafala í kosningunum. Eftir uppgjörið á landsþinginu vonuðust sumir til þess að hægt væri að snúa vörn í sókn. Nú hefur komið á daginn að sú von var reist á sandi. Siðleysið sem hefur viðgengist í Valhöll mun endanlega tryggja það að flokkurinn bíði afhroð í kosningum 25. apríl næstkomandi.
Fjölmörgum stuðningsmönnum er brugðið. Það hefur löngum verið vitað að Sjálfstæðisflokkurinn eigi velvildarmenn í atvinnulífinu en fæstir hafa ímyndað sér styrkveitingar af því tagi sem nú er komið í ljós að hafi viðgengist fyrir ekki löngu síðan. Þessu sama fólki er lítil þægð í því að vita af óeðlilegum styrkveitingum til annarra flokka, sem næsta víst er að hafi einnig átt sér stað, en e.t.v. ekki í sömu upphæðum. Þessi stóri hópur manna lætur ekki bjóða sér hvað sem er.
Ef hinum nýja formanni tekst ekki að hreinsa til innanbúðar er hætta á að skörð verði höggvin í kjarna Sjálfstæðisflokksins. Hver veit nema hugur margra muni standa til þess að stofna nýjan hægri flokk. Um daginn hélt Styrmir Gunnarsson því fram að Sjálfstæðisflokkurinn væri miðjuflokkur. Er þá ekki kominn tími til að stofna hægri flokk? Í því hugmyndafræðilega moldviðri sem félagshyggjuöflin nærast nú á þarf að rísa öflugur málsvari þeirra hugmynda sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið vörð um lengst af í sinni sögu. Mun forysta flokksins standa undir þeim væntingum?
Landsbankinn veitti 2 styrki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:22 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er hörð ræða, Óli, en raunsæ. Ég skil ekki annað en að flokkurinn taki dýfu í næstu könnunum, en hvort það haldi fram yfir kosningar veit ég ekki. Höndin ratar einhvern veginn alltaf á sama stað.
Marinó G. Njálsson, 10.4.2009 kl. 12:41
Seint hélt ég mig lenda í þeiri stöðu að hálfpartinn vorkenna Sjálfstæðisflokknum. Enda er það ekki beint þannig, ég vorkenni fjölmörgu heiðarlegu sjálfstæðisfólki sem þarf að horfast í augu við að hafa alið nöðrur við brjóst sér.
Bjarni blessaður tekur við hrörlegu búi. Niðurlæging flokksins er alger og afhroð í næstu kosningum blasir við. Ja, annars erum við sem þjóð verr haldin en ég hélt. Sé fyrir mér að mér að Auður slái atkvæðamet. xD mun tæplega gera mikið út á lausafylgið, næg eru verkefnin við að halda aftur af "sínum nánustu" að hoppa frá borði.
Sem yfirlýstur pólitískur andstæðingur xD vil ég í lokin benda fólki sérstaklega á að lesa bloggfærzlur Lofts Altice Þorsteinssonar.
Kveðja,
-þ
Þorsteinn Egilson, 10.4.2009 kl. 14:57
Loftur er á köflum góður, enda exaði ég við hann í prófkjörinu. Er þó ekki sammála öllu sem hann segir, enda er það eins og gengur. Það er reyndar ekki öll nótt úti enn, þó svo að óveðursskýin hrannist upp í kringum Valhöll.
Hugsjónir sjálfstæðismanna munu lifa áfram enda getur þessi þjóð ekki lifað á skattheimtu einni saman eða fjallagrasahagfræði. Hægri menn munu ná vopnum sínum á ný - með eða án Sjálfstæðisflokksins.
Ólafur Als, 10.4.2009 kl. 15:20
Þú ætlar að gleyma því hvaðan "nýi" formaðurinn er ættaður Ólafur. Kemur ferskur úr olíusamráðinu. Einnig er skondið að heyra um "nýja" forystu Sjálfstæðisflokksins sem er allt annað en ný og því miður alltof tengd auðvaldinu til að geta nokkurn tíma unnið sér traust.
Það sem kemur þó mér mest á óvart er að fólk skuli ætla að kjósa þetta ónýta lið af gömlum vana, ekki vegna trausts til verka eða viðurkenningar á ráðdeild þeirra og sómatilfinningu, heldur vegna þess að þetta er í rauninni blindur öfgatrúarsöfnuður þegar á reynir.Haukur Nikulásson, 10.4.2009 kl. 17:24
Haukur, enn og aftur ferðu offari í sýn þinni og túlkun á, sérstaklega, Sjálfstæðisflokknum. Ég er sem betur fer ekki haldinn þeirri áráttu að gefa mér fyrirfram að menn á borð við Bjarna Benediktsson séu siðspilltir og keyptir. Það, að vera tengdur auði er ekki einasta sér slæmt, ekki frekar en að vera tengdur á ýmsan annan máta. Hér verða menn að tengja betur til þess að eiga fyrir stóru orðunum.
Flest það fólk sem er í framboði til þings fyrir Sjálfstæðisflokkinn er hvorki betra né verra fólk en þú og ég, Haukur - það skaltu hafa í huga. Að öðru leyti vísa ég í skrif mín í textanum.
Ólafur Als, 10.4.2009 kl. 22:18
Afleit stefna ??
Þorsteinn Ingimarsson (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 00:23
Sjálfstæðisstefnan?
Ólafur Als, 11.4.2009 kl. 16:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.