Steingrímur Hermannsson genginn í Framsókn á ný

Ég leit snögglega yfir greinina hans Steingríms Hermannssonar í kosningableðli Framsóknarflokksins. Mér þótti merkilegt að hann væri farinn að tjá sig fyrir hönd síns gamla flokks, grunaði á tímabili að hann væri jafnvel genginn úr honum. Sonur hans er nýlega uppáskrifaður í flokknum, eftir að hafa ratað inn á lista hjá Samfylkingunni á tímabili. Feðgarnir eru sem sagt komnir heim í heiða dalinn, komnir heim til mömmu.

Framsókn bar á brjóstum sér samvinnuhreyfinguna, eða var það e.t.v. öfugt? Hugsjónir þær sem ýttu þeirri hreyfingu úr vör voru löngu gleymdar og grafnar þegar Steingrímur réði ríkjum í flokknum en ég man ekki eftir að hann eða aðrir framsóknarmenn á þeim tíma hefðu mikið út á fyrirtæki samvinnuhreyfingarinnar að athuga, né arftökum þeirra sem þar réðu ríkjum og náðu fótfestu síðar í íslensku viðskiptalífi í gegnum kaupin á Búnaðarbankanum og fleiri fyrirtækjum.

Steingrímur Hermannsson var ófeiminn við vegtyllur í formi embætta, en hann varðaði áralanga röð framsóknarmanna í Seðlabankann. Þegar menn fara mikinn og saka sjálfstæðismenn um þaulsetningu embætta þá er ekki úr vegi að opna augu sömu manna fyrir því að framsóknarmenn voru á árum áður sagðir manna duglegastir við að koma sínu fólki til valda.  Í ofanálag er vert að geta þess að kratar og aðrir gæðingar félagshyggjunnar sitja að feitum embættum vítt og breytt um kerfið - og þykir ekki leiðinlegt. Og ef ekki vill betur eru þeir geymdir í ýmsum deildum háskólanna og ávallt til reiðu þegar þarf að gefa "óháð og fagmannleg" sérfræðiálit.

Það kann að vekja litla eftirtekt hjá mörgum að Steingrímur afneitar frjálshyggjunni, eins og nú er vinsælt. Reyndar hefur Steingrímur ávallt viljað kenna sig við félagshyggju.  Hann hefur verið sjálfum sér samkvæmur í því. Hins vegar kann það að skjóta skökku við þegar hann og sumir aðrir tala um hina blönduðu leið hagstjórnarinnar. Með því eiga þeir væntanlega við að atvinnulífið helgist sumpart eða all nokkuð af markaðsöflum, til þess m.a. að kosta velferðarkerfið. Hann vill sem sagt einhvers konar samvinnu á milli félagshyggju og frjálshyggju.

Þannig er það nú með stjórnmálaskoðanir okkar flestra. Þær eru sambland af þessu tvennu. Þegar argast er sem mest út í frjálshyggjuna hafa menn ekki einasta greint sumar orsakir hrunsins alrangt, heldur opinbera þeir fákunnáttu sína um þá hyggju sem lagði grunninn að stjórnarskrám Vesturlanda. Ef menn ætla að dæma frjálshyggjuna dauða vegna þess að í mannheimi þurfa að gilda reglur, en ekki frumskógarlögmál, gætu þeir allt eins dauðadæmt félagshyggjuna, vegna kommúnisma eða sósíalisma (eða fasisma og þjóðernissósíalisma).

Steingrímur veit sem er, að án frjálshyggju væri samfélag okkar dæmt til afturhalds. Hann veit, líkt og frjálst hugsandi menn, sem hann agnúast út í, að almennar, opnar og sanngjarnar leikreglur um samskipti manna og félaga eru grundvöllur að farsælu samfélagi - þessa hugsun frjálshyggjunnar reynir hann að eigna sér og hann talar fjálglega um frelsi og velferð, líkt og það séu samheiti félagshyggju. Hann telur sig geta haldið á lofti þessari ambögu í ljósi þess andrúmslofts sem skekur nú stjórnmálin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband