30.11.2009 | 15:46
Hið kratíska upplag lætur ekki að sér hæða
Má ekki ljóst vera að hin kratíska velferðarstjórn á eftir að leggja stein í götu fleiri fyrirtækja? Er það svo, að þegar rætt er um slæma stöðu margra fyrirtækja (NB. ekki allra) að þá haldi menn að hægt sé að leggja fleiri álögur á starfsemi þeirra? Fyrirtæki, sem starfa öðru hvoru megin við núllið þurfa ekki einasta að glíma við viðvarandi hávaxtastefnu, lækkað gengi og almennan samdrátt, heldur á að þoka fyrirtækjunum yfir í enn meiri samdrátt, frekari lækkun launa starfsmanna þeirra og auknar uppsagnir á starfsfólki. Það þarf ekki að búa yfir djúpum skilningi á efnahagsmálum til þess að átta sig á slæmum afleiðingum vanhugsaðra skattaálagna.
Hinn kratíski draumur um velferð og efnahag að norrænni fyrirmynd telja sumir að henti Íslendingum. Því er ég allsendis ósammála, svo því sé nú haldið til haga. Það er ekki þar með sagt að sumt gott megi ekki læra af grannþjóðum í norðri enda tel ég það ekki til eftirbreytni að fylgja málum eftir í blindni. Hvernig væri nú að íslenskir kratar kölluðu eftir velferðarríki sniðið að menningu og upplagi sjálfra Íslandinga. Þá væri nú gaman að eiga við þá spjall. En þeir sjá fyrirmyndarríkin í norðri og sæluríkið á meginlandi í hyllingum, og vilja að blýantsyddararnir í Brussel leiði íslenska þjóð til frambúðar.
Og VG er búið að kaupa til fylgilags við Evrópudrauminn með loforðum um kratíska velferðarlausn í skattamálum og fleiri málum, hvar öfundin leiðir menn áfram. Þeir vita ekki sem er að kratarnir í Skandinavíu hafa fyrir nokkru gert sér grein fyrir að efnahagslífið, í sinni markaðsvæddu mynd, þarf að blómstra til þess að borga hinn háleita draum um jöfnuð. Þeir fóru nefnilega illa að ráði sínu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar þegar vinstri sinnaður kratismi lagði því sem næst efnahagskerfi lands á borð við Svíþjóð í rúst. Í áttina að kratískri útopíu stefnir þessi ríkisstjórn án þess að hafa spurt þjóðina um leyfi.
Ein leið til þess að mótmæli þessari leið er að fara inn á indefence.is og skrá hug sinn.
Uppsagnir hjá Ölgerðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Eru þessar uppsagnir draum um norrænt velferðakerfi um að kenna?
Þetta fyrirtæki hefur verið enn ein tikkandi tímasprengjan. Á fullu í innfluttning á sérvöru, fjárfest eins og ofvirkur útrása víkingur og er skuldsett upp í rjáfur. Sama viðskiptamódelið og sömu örlög. Hefur ekkert með annað að gera.
Banjó (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 21:39
Þessi draumur, sem ég kalla jafnvel martröð, byggir m.a. á hugmyndafræði öfundarinnar. Þó svo að öfundin sé öflugur farþegi í lífi margra, e.t.v. flestra, er ekki þar með sagt að menn eigi að gera hana að ástkærum lífsförunaut eða haldreipi í pólitískri baráttu.
Eins og gefur að skilja hafa auknar skattaálögur, sem beinast að sumum vörum, fremur en öðrum, áhrif á afkomu fyrirtækja sem versla með einmitt slíkar vörur. Einstaklingar sem geta ekki komið fram undir nafni átta sig vonandi á slíku.
Skuldsetning Ölgerðarinnar er vissulega mikil en það réttlætir síður en svo að steinn verði lagður í götu þess fyrirtækis, né nokkurs annars. Það ríður á að íslensk fyrirtæki geti eflt sinn hag og vanhugsuð skattlagning, sem á endanum skilar litlu í ríkiskassan en tryggir hækkun lána og gerir sumum fyrirtækjum erfitt fyrir og þar með starfrsmönnum þeirra, er vítaverð og verður ekki skýrð nema í ljósi pólitískrar þröngsýni.
Ég skora á þig sem ekki þorir að koma fram undir nafni að fara nú inn á indefence.is og skrá nafn þitt þar - á þeim vettvangi hafa margir sameinast sem annars ekki deila sannfæringu á öðrum sviðum en þeim að vilja ekki skuldsetja framtíðina upp í rjáfur.
Ólafur Als, 30.11.2009 kl. 23:48
Þetta er nú ekki nógu gott hjá fólki, að draga svona úr sykur og gosdrykkja neyslunni einmitt þegar það ætti að auka við neysluna og styðja þannig við framleiðsluna og atvinnulífið. Svo skapar þetta fleiri störf í heilbrigðisgeiranum, svona til lengri tíma litið :)
Hvað ætli fólk sé þá að leggja sér til munns í staðinn, hmm? Þoli þetta ekki lengur, farinn að fá mér kók!!
Toni (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 05:47
Ha, ha, kæri Toni - en taktu eftir því að aukin skattlagning leggst einnig á ósykraða gosdrykki en ekki á t.d. kókómjólk og aðra sykraða mjólkurdrykki - er það ekki hin indæla sósíalíska sýn á veruleikann?
Ólafur Als, 1.12.2009 kl. 12:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.