Hræðsluáróður heimsborgara og málþóf stjórnarandstöðu

Stjórnarandstaðan mun væntanlega áfram tala við sjálfa sig um þetta mál í sölum Alþingis. Stjórnarliðar virðast önnum kafnir við önnur störf, nær allir með tölu, og geta með engu móti tekið þátt í umræðunni á Alþingi. Enda varaði fjármálaráðherra við að umræður um Icesave, hvort sem menn vilja kalla það málþóf eða eitthvað annað, séu lýðræðinu hættulegar. Ef ekki verði gengið frá Icesave hið fyrsta muni vondir hlutir gerast.

Um þessa vondu hluti getur ráðherrann ekki tjáð sig, það geri menn bara ekki. Auk þess hefur hann tjáð forkólfum stjórnarandstöðunnar allt leyndóið þar að baki en þeir virðast ekkert skilja og koma af fjöllum þegar þeir eru inntir um allt leyndóið. Þessu til viðbótar setti fjármálaráðherra gamlan vínyl á fóninn og tónarnir um að endurskoðun AGS sé í hættu hljómuðu enn einu sinni í eyrum landsmanna.

Forkólfar ríkisstjórnarinnar hafa um nokkurt skeið reynt að telja okkur trú um að undirskirft samninga ryðji alls kyns ógnum úr vegi - sem hefur svo ekki reynst rétt. Bent hefur verið á ógn sem staðið hefur af tilteknum dagsetningum, nú síðast 1.desember. Enn hafa himnarnir ekki hrunið ofan á okkur. Hollendingum og Bretum dettur nefnilega ekki til hugar að fara með málið fyrir dómstóla.

Hvort sem menn vilja stimpla umræðuna um Icesave-frumvarpið málþóf eða málefnalega rökræðu breytir það ekki þeirri staðreynd að stjórnarliðar hætta sér ekki inn í sali Alþingis. Lummurnar sem þó hafa komið úr þeirra munni fá mann til þess að hugsa. Stjórnarliðar virðist nefnilega hræðast hvað öðrum þjóðum finnst en ekki hvað samlandar þeirra hugsa. Þegar menn eru orðnir heimsborgarar af því tagi að láta sig þetta mestu varða er ekki nema von að almenningur á íslandi spyrji hvenær þeirra jól komi.


mbl.is Umræða um Icesave hafin aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður og sannur pistill.

Fréttastofa Ríkissjónvarpsins og Samfylkingarinnar gerði sérstaka frétt í gærkvöldi um að umræður um Icesave-málið hefði staðið í 60 klukkustundir.

Frekar en stjórnarflokkarnir, Samfylkingarmiðlarnir og bloggarar á vegum stjórnarflokkanna láðist fréttastofunni að setja ræðutímann í samhengi við umræður annarra þekktra mála á Alþingi á undanförnum árum. Afar gagnlegt og heiðarlegt að segja alla söguna en ekki bara hálfa. En tilgangurinn helgar meðalið.

Hér verða nokkur dæmi nefnd um einstök mál og tímalengd umræðna um þau:

Vatnalög 57 klukkustundir og 40 mínútur.

Fjölmiðlafrumvarp 92 klukkustundir og 59 mínútur.

EES-samningurinn 100 klukkustundir og 37 mínútur.

Ríkisútvarpið 119 klukkustundir og 46 mínútur.

Umræðurnar eiga það sameiginlegt að þáverandi stjórnarandstæðingur Steingrímur J. Sigfússon var afar virkur þátttakandi. Sami Steingrímur kvartar nú sáran undan því að núverandi stjórnarandstæðingar hafi ýmislegt við Icesave-málið að athuga. Mál sem varðar miklu meiri hagsmuni en öll þau frumvörpin að ofan til samans.

Í hádeginu í gær var kallað á 4 stjórnlagasérfræðinga á fund stjórnar fjárlaganefndar vegna möguleikans á að Icesave samningurinn er brot á stjórnarskrá eins og margir sérfróðustu aðilar í þeim málum hafa bent á í langan tíma.  Til öryggis þá voru 2 þeirra sérfræðinga þeir sömu og bera ábyrgð á lagahlið Icesave samningsgerð stjórnvalda.  Líkurnar að þeir myndu telja sig hafa brugðist í þeirri vinnu hefur örugglega haldið vöku fyrir fjölfræðingnum Indriða Þorlákssyni og kennaranum Guðbjarti Hannessyni Icesave fræðingum.

Seint er um rassinn gripið………….

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.12.2009 kl. 13:26

2 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Á meðan sífellt eru að koma ný atriði upp á borðið í umræðum á Alþingi er ekkert málþóf í gangi.

Stjórnin er EKKI að standa sig og ótrúlegt að margir frábærir þingmenn í stuðningsliði hennar láti þetta yfir sig ganga.

Það verður að fara ofan í saumana á þessu máli öllu og það eru þingmenn stjórnarandstöðunnar sem standa vaktina.

legg til að þú breytir orðinu ÞAGA í kynningunni á þér í þegja.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 2.12.2009 kl. 13:29

3 Smámynd: Ólafur Als

Þakka þér fyrir athugasemdina þína, nafni, hún er vitanlega hárrétt.

Ólafur Als, 2.12.2009 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband