Er hægt að efast um heilindi varaformannsins?

Minnihlutinn í Reykjavík hefur mikilvægu hlutverki að gegna sem aðhald fyrir meirihlutinn. Hins vegar er þetta útspil varaformanns samfylkingarinnar hluti af stærra máli en varðar beinlínis hag Reykjavíkur og íbúa hennar. Ræða varaformannsins verður ekki undanskilin hinni almennu pólitísku umræðu en á þeim vettvangi hafa vinstri menn misst nokkuð af vopnum sínum. Vera má að sjálfstæðisflokkurinn þurfi að gera mun betur í uppgjöri sínu við fortíðina, afhroðið sem flokkurinn beið í vor síðastliðnu kann ekki að hafa verið nóg á þeim bænum.

Hins vegar er það með ólíkindum hvernig krötum tekst að sannfæra sjálfa sig um að hafa hvergi komið að landsmálunum í aðdraganda hrunsins. Hin algera afneitun þeirra má einna helst líkja við að þeir hafi verið meðvitundarlausir í ríkisstjórn Geirs Hilmars eða þá það sem líklegra var, þeir höfðu ekki hugmynd um það hvað þeir voru að gera, fremur en samstafsklokkurinn. Er hér um að kenna almennum greindarskorti eða er það eitthvað annað?

Vandinn sem við er að etja hjá landsstjórninni er óumdeildur og síður en svo öfundsverður. Einn flokkur er í ríkisstjórn nú sem einnig var við stjórnvölinn fyrir hrun. Talsmenn þessa flokks hafa eilítinn hnút í maganum yfir því að hafa verið þátttakendur í endaspretti þeirra atburða sem leiddu til þess að allt fór hér á annan endann. Ein leiðin út úr þeim ógöngum er að hamast á sjálfstæðisflokknum og stundum einnig framsókn, uppnefna þá og minnast ekki orði á aðild þeirra sjálfra. Það skal ekki koma fram að kratar hafi verið tæp 6 ár í stjórn með sjálfstæðisflokknum frá árinu 1991.

Dagur er ekkert annað en peð í þessari viðleitni krata til þess að endurskrifa söguna. Hann tekur því feginshendi að geta orðið að liði í þeirri baráttu enda tilheyrði hann stjórnmálaafli, Reykjavíkurlistanum sáluga, sem skilur ekki eftir sig slóð velgengni. Reyndar var Reykjavíkurborg þátttakandi á þeim árum í þeirri fasteignabólu sem reið yfir landsmenn og fulltrúar vinstri aflanna gerðu hvað mest í að réttlæta, sbr. ummæli núverandi formanns VG um að það væri í lagi að græða á háu lóðaverði, þar væru markaðsöflin að skila krónum í kassann.

Reykjavíkurborg brást við skjótum hætti í aðdraganda hrunsins og hefur reynt að aðlaga starfsemi borgarinnar að gjörbreyttum aðstæðum. Henni hefur tekist það furðuvel, m.a. með dyggri aðkomu fjölda embættismanna borgarinnar. Borgarfulltrúar eru þeir sem þurfa að skrifa upp á hlutina en það eru starfsmenn í hinum ýmsu deildum sem þurfa að sinna hinni eiginlegu vinnu. Þeirra er að koma fram með hugmyndir til sparnaðar, niðurskurðar og aðhalds.

Á vettvangi landsmálanna hefur verið brugðist við með allt öðrum hætti. Ríkisstjórn Geirs Hilmars, blessuð sé minning hennar, var þrátt fyrir allt með í burðarliðnum sparnaðar- og aðhaldsaðgerðir en þær voru nánast þurrkaðar út af borðinu þegar núverandi valdhafar tóku við, fyrst í minnihluta og svo síðar í meirihluta. Ein ástæða þess hve skattahækkanir og aðhaldsaðgerðir yfirvalda virðast vera harkalegar nú er hve lítið hefur verið gert á þessu ári til þess að takast á við fjárlagahallann. Hver veit nema Degi sárni þetta þegar hann sér hve mönnum hefur þó orðið ágengt í borginni. Í stað þess að fagna þó þeim áfanga er allur kraftur settur í áróðurs- og blekkingarherferð samfylkingarinnar.


mbl.is Dagur gagnrýnir borgarstjóra harðlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Því má ekki gleyma að íhaldið hafði innleitt vissa tegund af foringjaeinræði og framkvæmdavaldsyfirgangi. Þannig var það þríeykið Árni Matt sem fjármálaráðherra, Geir sem forsætisráðherra og Davíð sem seðlabankastjóri sem létu eins og þeir væru einir í brúnni. Þeir lofuðu AGS og þjóðum Evrópu að Ísland myndi borga ICESAVE í okt/nóv í fyrra.

Þú tekur undir að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki búin að gera upp 18 ára setu sína í forystu landsmála og hefur þannig óumdeilanlega höfundarrétt á græðgisvæðingunni sem leiddi til hrunsins. Hvað finnst þér sem duglegum trúboða, hvaða kennisetningum þarf að breyta? Hver voru mistökin?

Vilhjálmur Egilsson vann að endurskoðun og uppgjöri, þar sem gerðar voru mikilvægar athugasemdir við flokkssstarfið. Síðan var hlaupið frá þeirri vinnu og Davíð Oddsson labbaði utandagskrár inn á landsfund flokksins og boðaði framhald hrokans og sjálfumgleðinnar.

Gunnlaugur B Ólafsson, 3.12.2009 kl. 15:49

2 Smámynd: Ólafur Als

Sæll Gunnlaugur,

það má margt segja um sjálfstæðisflokkin og aðkomu hans að hruninu. Það er hins vegar ótækt þegar kratar vilja ekkert kannast við að hafa haldið um hluta stjórnartaumanna - það er næstum því rannsóknarverkefni hvernig þeim (ykkur?) tekst að skauta framhjá því. Þó svo að ég geri stundargrín að þessu viðhorfi samfylkingarfólks og væni þá jafnvel um greindarskort, þá þykist ég viss um að í bakherbergjum séu ígrundaðri (laun)ráð brugguð - þannig var því farið á sínum tíma þegar ráðist var sem harðast gegn Davíð Oddssyni og nú er svipað upp á teningnum í tilraun til þess að stimpla inn hjá þjóðinni að sjálfstæðisflokknum sé nær einum um að kenna - þetta hjálpar líka dindlunum að takast á við vonbrigðin gagnvart Icesave og mögulega fleiri málum.

Þetta með að telja einn flokk hafa höfundarrétt á græðgisvæðingunni er lipurleg tilraun til þess að horfa framhjá tilteknum sannindum um eðli fólks. Ég trúi því, m.a. að fólk beri að mestu ábyrgð á sínu lífi og alla vega sínum hugsunum og afstöðu. Hins vegar er það rétt, ef það er þá hið raunverulega innihald orða þinna, að stjórnvöld geta haft áhrif. En ábyrgðin hvílir hjá okkur einstaklingunum.

Mistök sjálfstæðisflokksins (míns flokks?) liggja, að ég tel, í því m.a. að þekkja ekki nægilega eðli fjármálamarkaða og þess markaðskerfis sem umlykur þá. Frjálshyggjumenn nítjándu aldar gerðu sér vel grein fyrir þessu og hver á fætur öðrum boðuðu frelsi á nær öllum sviðum mannlífsins en jafnframt vöruðu þeir við ásælni fjármálamanna/bankamanna. Þetta kristallast m.a. í viðleitni forseta Bandaríkjanna um alllangt skeið eftir tilurð þeirra. Andrew Jackson, Benjamin Franklin og fleiri góðir menn vöruðu við ásælni peningamanna og þeir gerðu sér grein fyrir að allt of sterkir peningamenn geta ógnað lýðræðinu og völdum kjörinna fulltrúa.

Þær viðvaranir hafa ekki endurómað í eyru "minna" manna og ekki var hin atgervislausa samfylking sér meðvituð um hætturnar í fjármálakerfinu. Hafði hún þó hugmyndakerfi sér til aðstoðar, sem gat að einhverju leyti hjálpað henni til þess að takast á við fésýslumenn þessa lands. Nei, það tókst henni ekki frekar en öðrum, hún varð leiksoppur örlaganna enda var ánægjan yfir því að komast að kjötkötlunum skynseminni yfirsterkari.

Gunnlaugur, mér sýnist við báðir vera duglegir trúboðar. Orðaval þitt segir sögu; t.d. þetta með foringjaeinræðið - hvaðan koma orð af þessu tagi? Er þessi sýn þín á sterkri stöðu D.O. sönn? Það var t.d. eftir því tekið á sínum tíma að kratar báru D.O. vel söguna í samstarfinu 1991-1995. Sögðu hann sanngjarnar og röggsaman verkstjóra. Sumir láta sér nægja að notast við orð á borð við foringjavald - á maður e.t.v. að vera þakklátur fyrir að þú notir ekki orðið foringjaalræði? Myndi það betur henta þínum áróðri?

Já, hrokinn á sér margar myndir og marga tilverustaði. Það væri aumt hlutskipti, ef sjálfstæðisflokkurinn hefði einkarétt á því fyrirbæri. Það er nefnilega svo að hvers kyns hroki leitar þangað sem helst er þörf fyrir hann. Mig grunar að hrokinn muni dafna vel í samviskubiti stjórnarflokkanna nú, hann mun koma til hjálpar þegar efinn nagar og vinstri vopnin hafa misst stitt bit.

Góðar stundir,

Ólafur Als, 3.12.2009 kl. 16:26

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Hvað er það sem nagar samvisku Árna, Geirs og Davíðs þegar þeir hugsa til loforðana um að Ísland myndi borga ICESAVE? Eru þeir samviskulausir?

Vinkona mín var á alþjóðlegri ráðstefnu í síðustu viku og þar var norski fulltrúinn hneykslaður á sjónvarpsviðtali við Geir Haarde sem reyndar var sagt frá og sýnt í íslensku sjónvarpi. Í þessu viðtali lýsti Geir því yfir að samviska hans væri alveg hrein og hann gæti ekki séð að hann eða flokkurinn hafi gert nein mistök.

Svona hrokafull framkoma er auðvitað ekki í lagi og er stærsta meinsemdin. Það er alveg rétt hjá þér að við berum ábyrgð á gjörðum okkar hvert og eitt, en jarðvegurinn og tónninn í samfélaginu á þessum árum var íhaldsins. Við vorum stæst og best. Höfum ekkert til annarra þjóða að sækja. 

Gunnlaugur B Ólafsson, 3.12.2009 kl. 16:47

4 Smámynd: Ólafur Als

Sæll enn og aftur Gunnlaugur,

jæja, það ætlar að sannast upp á þig að þér ferst það illa úr hendi að líta í eigin barm. Ætli það falli nokkuð undir sjálfhverfni, hvað heldur þú? Eru það virkilega þínar ær og kýr að elta ólar við fallna hofðingja? Hjálpar það þér í þínu áróðursstríði, sem ég gat um og þú minnist ekki á? Væntanlega, því þú telur að hroki tiltekinna einstaklinga hafi verið stærsta einsemdin. Það tel ég vera mikla einföldun, en aftek ekki með öllu. Helstu meinsemdina tel ég að hafi verið kerfislæg, jafnvel hugmydafræðileg, eins og ég vék m.a. að í spjallinu um að setja bönd á fjármálalífið.

Sástu ekki viðtalið, Gunnlaugur? Geir Hilmar viðurkenndi að mistök hefðu verið gerð - en kannaðist ekki við slæma samvisku. Þar skorti hann að sýna af sér auðmýkt, blessaður maðurinn. En mistök kannaðist hann við. Eilífar áhyggjur af því hvað erlendir aðilar hugsa um Íslands mál er hluti af smáborgarahætti sem ég nenni ekki að taka þátt í. Mig varðar hvað samlandar mínir hugsa, fyrst og fremst. Það ættu núverandi stjórnvöld einnig að gera, hafa trú á þjóðinni og þeim krafti sem í henni býr.

Það verður að segjast eins og er að þú stendur dindlavaktina af atorku. Sá eitraði kaleikur, sem Icesave málið allt er, er nú í höndum annarra en þú vilt gera samviskulausa. Það er mér algerlega að sársaukalausu að uppnefna þá, enda hófst vitleysan hjá þeim en nú á að reiða náðarhöggið af öðrum. Reyndar er þitt fólk þátttakendur í aðdraganda og tilurð Icesave reikninganna, og allri meðferð þriggja ríkisstjórna í að reyna að klára það vonda mál. Það er nú afrek, skal ég þér segja, að hafa verið svo nátengdur því máli.

En blessaður, Gunnlaugur minn, viltu nú ekki líta í eigin barm og hver veit nema þú finnir pólitíska meinsemd, eina eða tvær? Deildu þeim svo með okkur hinum og svo þú, ég og allir hinir getum átt spjall saman, að ekki sé nú talað um að reyna af þessu öllu saman læra. Reyndar tel ég það vonlítið á meðan kratar eru uppteknir af sínu áróðursstríði og þú virðist dindlast aftan í þeim vagni. Ef til vill er því ætlað að vera þannig og ekki öðruvísi. En fyrst og síðast hvet ég þig til þess að fara inn á www.indefence.is og skrá þar nafn þitt.

Kveðja,

Ólafur Als, 3.12.2009 kl. 17:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband