Helgin hefst núna ... nei, núna ... ok, núna!

Helgin er framundan. Hitastigið hefur stigið og sólin reynir af fremsta megni að ylja manni. Allt útlit fyrir að veðrið haldist gott næstu daga á Fjóni en samt þorir maður ekki að boða vorkomu. Fór flatt á því fyrir rúmri viku. Í kvöld ætla ég að gera mér dagamun, hitta nokkra vini og fá mér einn kaldan eða tvo. Jafnvel Bourbon í kók ef vel liggur á stráknum.

Áform kvöldsins eru ekki geirnegld en ég ætla að stinga upp á heimsókn á billjardstofu í bænum. Á enn eftir að sanna fyrir einum vina minna að hann er ekki betri en ég í pool en allt eins víst að hann hafi það á svörtu kúlunni ... sem gerist óþolandi oft! Að endingu verður væntanlega haldið á Katten og musen, sem ég kalla stundum Tomma og Jenna en Danir skilja nú ekki alveg þann brandara.

Ef horft er framhjá mörgum ágætum kaffihúsum og veitingastöðum er skemmtanalífið hér í Odense fremur fátæklegt ef maður er kominn af gelgjualdri eða kominn með grátt í vöngum. Tommi og Jenni getur þó verið fjörugur á köflum og ekki ónýtt að henda dönsku blómarósunum um dansgólfið. Best að æfa nokkur spor fyrir kvöldið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband