14.1.2010 | 16:32
Hví skyldu ráðamenn norrænna ríkja vilja leika við okkur?
Væri ekki alveg upplagt að afstaða sænska forsætisráðherrans og ríkisstjórnar hans kenndi íslenskri þjóð að hætta að nefna norrænar þjóðir frændur okkar í sífellu? Þessi árátta margra að frændgera íbúa Skandinavíu er hvimleitt fyrirbæri. Eftir að hafa búið í bæði Svíþjóð og Danmörku kannast ég ekki við að þar væri sífellt tönglast á meintri frændsemi, þjóða á milli. Ef til vill á þessi árátta eitthvað skylt við þá framsetningu mála að á Íslandi eigi menn langt í land með að ná "hinum norðurlöndunum"? Ef til vill á þetta rætur að rekja til þess að við búum á eyju, langt úti í ballarhafi?
Það er skiljanlegt að Íslendingar horfi nokkuð til nágranna í Skandinavíu, þangað leita margir til náms og þar búa þúsundir Íslendinga. En Íslendingar leita víðar fanga í leit að menntun og störfum. Það er og skiljanlegt að eyþjóð vilji tengjast vina- og tryggðarböndum við þær þjóðir sem hún vill samsamast mest. En sjá menn ekki hve mærðarleg þessi árátta er að sífellt kalla ýmsar þjóðir frændur okkar? Hve þurfandi við hljótum að hljóma? Hve sérkennilega þetta lætur í eyrum þeirra þjóða sem byggja Skandinavíu?
Sumir láta ekki staðar numið við að nudda sér upp við norrænu þjóðirnar með þessum hætti, enn einn vinkillinn er að kalla Íra okkar frændur - þó reynir, sem betur fer, mun minna á þetta í samskiptum okkar við Íra því þau samskipti eru ekki svo mikil. Um daginn heyrði ég meira að segja að nú væru Kanadamenn orðnir frændur okkar. Á þetta eitthvað skylt við spurninguna; "How do you like Iceland?" og þeirri áráttu að fá útlendinga til þess að bera á land og þjóð lof?
Fjölmargir Skandinavar hugsa með hlýhug til lands og þjóðar en þeir eru fleiri sem láta sig sérhagsmuni okkar lítið varða. Eins og eðlilegt má telja, enda hafa þessar þjóðir nóg með sig og sitt. Norðurlandaþjóðirnar nenna ekki að leika við okkur öllum stundum, þeim finnst á köflum að við séum heldur þurfandi - og þau hafa að auki ýmsa aðra leikfélaga, sem þær tengjast ýmsum böndum. Þegar við bönkum á dyr ráðamanna í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn eða Osló eru þessir "frændur" stundum uppteknir. Þegar það gerist verða sumir sárir hér á landi og skilja ekki af hverju hinir meintu fræntur vilja ekki leika við sig.
Ef menn gera sér grein fyrir því að samskipti þjóða byggja á gagnkvæmum hagsmunum léttist verkið sem því nemur. Ef menn mæta með betlistaf í hendi, fullir af sektarkennd, þá er ekki von á góðu. Þó svo að imprað sé á frændsemi setur það engar skyldur á herðar þessara ráðamanna. Eftir sem áður verður að bera upp mál með upplýsingu og sannfæringu að vopni, en eins og mörgum er nú orðið ljóst, hafa íslensk stjórnvöld ekki flutt mál sitt með þeim hætti.
Reinfeldt: Ákvörðun AGS forsenda fyrir láni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.