Enn á eftir að sannfæra mig.

Það verður vart sagt að kosning formanns hafi verið sterk eða afgerandi. Mótframboð Péturs þótti mér óvænt en e.t.v. þarft. Forysta flokksins verður að átta sig á breyttum tímum - eflaust gerir hún það en e.t.v. hefur hún ekki rýnt nægilega í eigin barm. Þær hugsjónir, sem lifa með flokknum njóta enn fylgis á meðal þjóðarinnar en margir vantreysta forystunni og ýmsum þingmönnum. Rætt er um að uppgjör hafi ekki enn átt sér stað, alla vega ekki í þeim mæli að almenningur geti á ný horft með trausti til þessa fyrrum hryggjarstykkis íslenskra stjórnmála.

Það er vond og mannskemmandi umræðu sem einkennir stjórnmálaumræðuna og margir víla ekki fyrir sér að níða skóinn af náunganum, ata stjórnmálamenn auri, bera á þá ósannaðar ávirðingar - taktík sem sækir hefð til isma-stjórnmála síðustu aldar, sbr. áróður kommúnista og fasista þess tíma. Sumir íslenskir róttæklingar sóttu m.a. í smiðju áróðursdeilda Sovétsins ýmsan fróðleik, lærðu þar ekki einasta að halda uppi falsskoðunum, heldur ýmsa aðferðafræði sem hefur dugað þeim vel á Íslandi síðan þá.

Þó verður ekki sagt að róttæklingar hafi einkarétt á óhróðrinum þessa dagana. Hann sér víða merki enda virðist sem núverandi ástand hafi kallað fram sumt það versta í fari okkar mannanna. Hjarðmennskuhegðunin er áberandi og mannorðsmorðin daglegt brauð. Og sumir kunna ekki að skammast sín.

Ekki veit ég hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé þess umkominn að sækja nýtt umboð til þjóðarinnar. Hugsjónirnar og gildin standa fyrir sínu  en það á eftir að koma í ljós hvort þjóðin treysti núverandi forystu að vinna að hag þjóðarinnar í anda sjálfstæðisstefnunnar. Enn á eftir að sannfæra mig.


mbl.is Bjarni kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Hafir þú ekki sannfærst ( eftir að ýmsir spáðu klofningi flokksins á Landsfundinum ) við  niðurstöðu kosninanna til formanns og varaformanns - og við þá einingu sem ríkti á fundinum - þá held ég að þú hafir ekki áhuga á því sem rétt er né því að láta sannfærast.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 26.6.2010 kl. 16:32

2 Smámynd: Ólafur Als

Ólafur,

ekki veit ég hvað þú ert að reyna að segja hér í þessari athugasemd þinni. Ég hef fylgt þessum flokki að málum um lengra skeið en núverandi formaður, svo nokkuð sé tínt til, hef um árabil barist fyrir hugsjónum borgaralegra viðhorfa, í ræðu og riti. Það er þessa fólks, sem nú starfar í forystunni að sannfæra mig um sitt ágæti, að það sé verðugir boðberar þeirra hugsjóna sem flokkurinn er stofnaður utanum. Það felur m.a. í sér að afneita hagsmunagæslu, nema þeirri er varðar að vinna að hag einstaklingsins - lítilmagnans. Það felur m.a. í sér að leggja persónulega hagi til hliðar og vinna að góðu gengi góðra hugsjóna. Það tel ég t.d. ekki hafa verið gert nægilega sannfærandi innan flokksins. Því er ég enn ekki sannfærður og ég er ekki einn í þeim flokki.

Að öðru leyti óska ég þér góðs gengis á fundinum og látir vel í þér heyra um það er snertir þín hjartans mál.

Ólafur Als, 26.6.2010 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband