11.4.2007 | 14:30
Sótt að forsetaframbjóðanda
Nicolas Sarkozy heitir réttu nafni Nicolas Paul Stéphane Sarközy de Nagy-Bocsa, fæddur í París 1955. Hann er forsetaframbjóðandi UMP bandalagsins sem núverandi forseti, Jacques René Chirac, er einnig meðlimur að. Sarkozy á rætur að rekja til Ungverjalands og grískættaðra gyðinga og þykir vinnusamur og fylginn sér. Hann var um árabil bæjarstjóri Neuilly hverfisins í París áður en Chirac, sem reyndar hefur verið honum andsnúinn, gerði hann að innanríkisráðherra, en sú staða hefur alla jafna ekki þótt feitur biti í Frakklandi. Hann gegndi og tímabundið stöðu fjármálaráðherra. Sarkozy er sagður vera pragmatiskur og hrífst mjög af Tony Blair.
Ummæli Sarkozy, sem birtust í aprílhefti tímaritsins "Philosophie Magazine", vekja upp aldagamla umræðu um hvort glæpahneigð megi rekja til erfða eða umhverfis. Tímaritið sérhæfir sig í heimspekilegri umræðu en Sarkozy segist sækja hugmyndir sínar almennt til heimspekinga á borð við Rousseau, Schopenhauer og Seneca, með áherslu á hinn síðastnefnda. Reyndar hafði tímaritið einnig boðið frambjóðenda sósíalista, Segoline Royal, að birta við hana viðtal á sömu nótum.
Sarkozy er þekktur fyrir einarða afstöðu gagnvart glæpamönnum og óeirðaseggjum. Hann tók harða og umdeilda afstöðu gagnvart uppþotunum í París og fleiri borgum árið 2005 og lét m.a. falla þau orð um þátttakendur óeirðanna að þeir væru "racaille" eða hyski. Nú gagnrýna margir hann fyrir að taka heimspekilega afstöðu um glæpahneigð og lýsa yfir að fjöldi manna væru fæddir barnaníðingar og glæpamenn og gætu ekki komist undan erfðafræðilegum örlögum.
Sem stendur leiðir Sarkozy aðra frambjóðendur með tæpan þriðjung í skoðanakönnunum en Royal nær tæpum fjórðungi og frambjóðandi miðjumanna, Bayrou, með tæpan fimmtung. Le Pen, frambjóðandi þjóðernissinna (últra-hægri), rekur lestina með tæp 14%.
Endursagt úr netmiðlum Financial Times og BBC World
Hart deilt á Sarkozy vegna ummæla hans um barnaníðinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.