10.1.2008 | 07:02
Ábyrgð ráðherra
Fjölmargir hafa kveðið sér hljóðs í umræðunni um stöðuveitingu ráðherra í embætti héraðsdómara og er það vel. Hér er um viðkvæmt efni að ræða á stundum og afar persónulegt og nefndinni, sem ætlað er að skila áliti til ráðherra, er alla jafna erfitt verk á höndum. Í því ljósi, og að því gefnu að nefndin vinni sitt verk vel, er ljóst að ráðherra er allt að því skylt að velja á meðal hæfustu umsækjenda, sérstaklega ef hann hefur val á milli allra hæfustu.
Eins og gefur að skilja er þessi aðferð ekki gallalaus og ekki þarf snilling til þess að setja fram dæmi sem gæti sett ráðherra í afar erfiða stöðu. Hins vegar var ekki um slíkt að ræða nú að mínu mati og því vaknar spurningin um ábyrgð ráðherra. í slíkri umræðu verður m.a. að koma fram hvað ráðherraábyrgð feli í sér. Ég man t.d. ekki eftir að ráðherra hafi sætt ábyrgð vegna stöðuveitingar af nokkru tagi, miklu fremur ríkissjóður sem hefur þurft að punga út ef leikreglur hafa verið sniðgengnar.
Vitanlega hefði ráðherra átt að velja á meðal hinna hæfustu, nema hann hafi séð eitthvað eða vitað af einhverju sem nefndinni var ókunnugt um. Svo var ekki, enda hafa margir orðið til þess að finna að rökstuðningi ráðherra fyrir vali sínu. Allt málið er heldur neyðarlegt fyrir ráðherrann og afar óheppilegt fyrir umsækjandann sem var valinn, sem ég vil taka fram var talinn hæfur, bara ekki hæfastur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.