10.1.2008 | 12:13
Bandaríkjamenn axla ábyrgð í Afganistan
Síðustu vikur og jafnvel mánuði hefur dregið verulega úr blóðugum sjálfsmorðsárásum og öðrum átökum í Írak og sumir hafa þakkað það árangursríku starfi Bandaríkjahers og samstarfsaðila þeirra. Hver veit nema íraskri þjóð gefist tækifæri til þess að huga að uppbyggingu og eflingu síns lands án blóðugra átaka - ég er þó ekki vongóður nema fleiri jákvæðar fréttir berist frá þessu svæði. Sem dæmi má nefna hefur ófriður farið vaxandi í Afganistan að undanförnu, sérstaklega í suðurhluta landsins.
Á meðan athyglin hefur beinst að Írak á undanförnum misserum hafa málin þróast misvel í Afganistan. Talibanar og önnur uppreisnaröfl eru óupprætt og nú á vordögum er búist við enn einni hrinu ofbeldis af hálfu þeirra. Áætlað er að nokkuð vanti á þann fjölda aðsendra hermanna sem þarf til þess að takast á við ofbeldisöflin. Auk Bandaríkjamanna hefur NATO borið þunga af þessum átökum - og þá sérstaklega í suðurhlutanum, þar sem Bretar, Kanadamenn og Hollendingar hafa verið í eldlínunni.
En fjölmargar þjóðir NATO hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar og nú telja Bandaríkjamenn sig knúna til þess að bæta við liðssafnað sinn; úr 27.000 hermönnum í 30.000. Fjölmargir samstarfsaðilar Bandaríkjamanna innan NATO sitja hjá og sinna ekki lágmarksskyldum. Hér er ekki verið að horfa til réttmæti stríðsátaka af nokkru tagi, heldur þeirri staðreynd að Sameinuðu Þjóðirnar og stærstur hluti heimsbyggðarinnar hefur lagt blessun sína á að uppræta Talibana og reyna að koma á friði í Afganistan. Sú viðleitni kostar mannslíf og enn og aftur eru Bandaríkjamenn látnir bera þyngstu byrðarnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.