14.1.2008 | 08:31
Hatursgleraugu sósíalista
Eitt af því sem gerir málstað sósíalista ósannfærandi í gagnrýni sinni á Bush og Bandaríkin er að þeir sjá ekki brestina annars staðar. Fyrirlytningin á Bandaríkjunum er svo megn að jafnvel þeir, sem teljast til sérstakra vina Bandaríkjanna, og þiggja af þeim aðstoð, sleppa ekki undan eitri sósíalistanna. Hér nægir að nefna Ísraelsríki og samskipti Gyðinga og Araba. Ég kynntist þessu m.a. í menntaskóla þegar fáeinir menntaskóladrengir höfðu uppi ákafa og heiftarlega gagnrýni á Síonismann og þótti mér eftirtektarvert hve lærðir frasarnir þeirra voru. Jafnvel þá, á áttunda áratugnum, var áróðursvél sósíalista á fullu við að smíða retórík fyrir ungliðana sem beindi spjótum sínum að Ísrael. Eins og menn muna voru Bandaríkin og vinir þeirra stimpluð hinir alvondu heimsvaldasinnar og frovitnilegt að sjá hve margt líkt er með áróðri sósíalistanna og hatursræpunni sem streymir úr munni öfgaislamistanna nú.
Sé litið yfir heimsmálin og það ófriðar- og ósættisbál sem víða logar um heimsbyggðina er af mörgu að taka. Mannréttindi eru víða fótum troðin og hundruðir milljóna manna búa við ótrygg kjör eða verra. Hundruðir þúsunda, jafnvel milljónir manna, eru fangelsaðir fyrir litlar sem engar sakir, pyntaðir og drepnir án dóms og laga og heilu löndin eru í herkví ofbeldis eða hersetin. Við þessar aðstæður sjá sósíalistar á Íslandi einungis framferði Bandaríkjamanna og þannig hefur það verið lengi. Einnig á tímum kalda stríðsins, þegar sósíalistar báru blak af Sovétríkjunum með því að beina sjónum sínum að framferði stórveldisins í vestri. Í besta falli, og það þótti manni ávallt afar tragíkómískt, lögðu þeir að jöfnu voðaverk þessara höfuðandstæðinga kalda stríðsins. Og aldrei var "Moggalýginni" afneitað, jafnvel í dag hiksta þeir á henni!
Menn skyldu ekki halda að hugsanagangur sósíalista frá dögum kalda stríðsins sé horfinn. Hann lifir vel í hatrinu á Bush og þeirri hörðu utanríkisstefnu sem forsetinn hefur fylgt og hann lifir vel í fyrirbæri eins og Ísland-Palestína og langt út fyrir raðir þeirra. Á sínum tíma var Ísraelsríki í uppáhaldi hjá kaffihúsasósíalistum Evrópu og blaðamönnum víða um heim. Samyrkjubúin voru vitnisburður um fegurð sósíalismans og Gyðingar nutu enn samúðar frá heimsstyrjöldinni síðari. En svo breyttist það eftir sex daga stríðið. Kínverjar höfðu m.a. snúist gegn Ísraelum og Sovétstjórnin sömuleiðis. Og viti menn, sósíalistar um heim allan tóku fjörkipp og hafa æ síðan barist með einum eða öðrum hætti gegn málstað Ísraels.
Nú skyldu menn varast að draga þá ályktun að ég styðji allt það sem bandarísk stjórnvöld standa fyrir. Ég hef ekki verið samstíga Bush í mörgum málum, ekki frekar en ég var ávallt sammála hr. Clinton á sínum tíma. Ég hefði t.d. viljað sjá Clinton-stjórnina taka af skarið í Rúanda enda trúi ég ekki því að ekki megi grípa inn í málefni annars lands. Reyndar tel ég nauðsynlegt að gagnrýna Bandaríkin, enda ekki annað eðlilegt í ljósi áhrifa þeirra og stöðu. En þá verða menn að sjá út fyrir hatursgleraugu sín og átta sig á, að milljónir fanga um heim allan býr við margfalt verri kost en fangarnir í Guantanamo, ríki og landsvæði hafa verið innlimuð í önnur ríki (Tíbet o.fl.) og þarlendir íbúar beittir harðræði, langt umfram það sem þekkist t.d. á vesturbakka Jórdanárinnar, sum ríki veigra sér ekki við að ofsækja, pynta, fangelsa og drepa eigin borgara í stórum stíl. Hvar eru málsvarar þeirra? Vilja sósíalistarnir gefa þessum landsvæðum og ríkjum frekari gaum?
Stundum reyna sósíalistarnir að reyna að telja manni trú um að þeir beini sjónum sínum líka að öðru. Jú, jú, þó það nú væri, en það er bara ekki jafn "gaman" eins og að henda skít í Bandaríkin. Sú þörf ristir djúpt hjá sumum og nær reglulega upp á yfirborðið, við raunveruleg eða upphugsuð tilefni. Heimurinn á betra skilið en að vera séður með gleraugum sósíalista.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:59 | Facebook
Athugasemdir
Gæti ekki verið meira sammála öllu sem þú skrifar. Það virðist allt annað fara í skuggann af gerðum kanana.
Ingibjörg, 18.1.2008 kl. 18:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.