17.1.2008 | 21:27
Det var ju pinligt min ven ...
Ég horfði á stóran hluta leiksins með dönskum vini mínum, sem var nokkuð niðurlútur eftir tap sinna manna gegn Norðmönnum í annars hörkuleik. Við sátum að mestu þögulir yfir leik minna manna og Svía, sem minnti á köflum á slakan æfingaleik þar sem flest vantaði sem gat minnt á góðan handknattleik. Vinurinn danski dottaði á köflum í seinni hálfleik og var einungis brugðið ef ég lét vonbrigði mín í ljós með óhljóðum eða háværum andvörpum.
Sem fyrr lokuðu sænsku markmennirnir markinu sínu á köflum og Svensson hinn aldraði lék sér að íslensku sóknarmönnunum sem væru þeir unglömb. Að lokum setti mig hljóðan og við félagarnir höfðum ekki geð í okkur að horfa á síðustu mínúturnar. Vinurinn reyndi að hugga mig með þeim orðum að keppnin væri ekki yfirstaðin og fyrir lægju tveir leikir sem gætu unnist á góðri stund.
Ég ætla rétt að vona að íslensku leikmennirnir nái sér upp úr lægðinni og sýni sitt rétta andlit á komandi dögum. Ég mun hugsa til gamla vinar míns Alfreðs næstu daga og vona að hann nái að hressa upp á sálartetur leikmanna og blása í þá eldmóð - við eigum það öll skilið.
Svíar sigruðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.