Getur Framsókn rétt úr kútnum?

Eftir slakt gengi Framsóknarflokksins í síðustu kosningum er ekki að undra þó maður velti fyrir sér framtíð þess flokks. Mun hann eiga afturkvæmt í íslensk stjórnmál sem það vogarafl sem ráðið hefur úrslitum við myndun ríkisstjórna, líkt og verið hefur um áratugaskeið? Mun flokkurinn nokkurn tíma geta náð fyrri styrk og þar með náð áhrifum í landstjórninni á ný? Verður það hlutverk Framsóknar að vera smáflokkur sem sækir fylgi sitt í sértæk og afmörkuð mál, ekki ósvipað og gildir um Frjálslynda flokkinn?

Eins og gefur að skilja geta hæfileikaríkir forystumenn borið uppi fylgi stjórnmálahreyfinga, eða alla vega haft veruleg áhrif. Framsókn glímir nú við vissan vanda á þeim vettvangi og upphlaupin í Reykjavík gera ekki annað en að skaða flokkinn enn frekar. Forystumaður flokksins í Reykjavík, Björn Ingi, virðist ekki fá mikla samúð þessa dagana enda full málglaður á köflum um innri mál síns flokks. Hin breiðu spjót flokksmanna eru dregin fram í sviðsljós fjölmiðlanna og eftir situr flokkurinn rúinn trausti.

Framsóknarflokkurinn á sér vitanlega marga stuðningsmenn enn og hver veit nema þeir sjái ástæðu til þess að styðja sinn gamla flokk aftur - áður en þeir halda á elliheimilið. Er nokkur von til þess að Framsókn verði sú fjöldahreyfing sem hún var, með skírskotun til fólks um allt land, jafnvel ungs fólks? Heldur er það ólíklegt, enda fæ ég ekki séð í hvaða hugmyndafræði flokkurinn á að sækja fylgi sitt. Ef hann vill vera félagshyggjuflokkur inn á miðjuna, er auðna hans að verða smáflokkur með sértæk mál. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking rúma innan sinna vébanda þau miðlægu stjórnmálaviðhorf sem gera Framsókn óþarfa þar. Eina ráðið væri því að finna sérstöðu á meðal félagshyggjumanna sem Samfylkingin eða Vinstri-Græn rúma ekki.

Gæti Framsókn sótt til hægri og jafnvel orðið Íhaldsflokkur með sérstæða fortíð? Einhvers konar fortíðarflokkur með skírskotun í þjóðlegar dyggðir og kristilegan bakgrunn? Eða bara eitthvað allt annað, sem annars fjársterkir bakhjarlar gætu lagt eyra við? Eitt er víst, Framsókn mun ekki sækja í fimmtung atkvæða í bráð, jafnvel þó allt gangi á afturfótunum hjá núverandi stjórnarflokkum. Jafnvel þó flokkurinn hefði upp á einhverju sjarmatrölli, kvenkyns eða karlkyns, verður ekki séð að vegir Framsóknar séu órannsakaðir og þeir nái fyrri styrk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband