26.1.2008 | 16:39
Króatar höfðu það á síðustu blóðdropunum.
Það var ótrúlegt að fylgjast með lemstruðu liði Króata í dag. Plástraðir, og enn sárþreyttir, leikmenn Króatíu gáfu allt sem þeir áttu í varnarleik sinn og fengu einungis 23 mörk á sig á móti annars geysi öflugu liði Frakka. Varnarleikurinn var hafður í hávegum í leiknum en gæðin hafa verið meiri hjá báðum liðum. Eins og ég gat um í upphafi móts saknar franska liðið vinstri handar skyttu og kom það berlega í ljós í þessum leik. Fyrir vikið varð að treysta um of á leikmann á borð við Narcisse og sóknina vinstra megin. Hann hélt Frökkum á floti í fyrri hálfleik, þegar Króatarnir sýndu einn besta varnarleik sem sést hefur í mótinu til þessa. Frakkarnir komu vart skoti í gegn, sem sést best á því að króatíski markvörðurinn varði ekki nema örfá skot á meðan Frakkar skoruðu ekki nema 9 mörk.
Í síðari hálfleik batnaði sóknarleikur Frakka en bæði lið skiptust á að halda forystunni. Afar erfitt var að dæma þennan leik og dómararnir á tímabili í aðalhlutverki. Greinilegt var að leikmenn beggja liða voru þreyttir og aðdáunarvert að sjá Króatana neita að gefast upp. Úthaldið var í raun þrotið hjá þeim. Balic hélt sínum mönnum á floti á köflum, sárþjáður, og svitinn lak af mönnum. Frakkarnir virtust og þjakaðir af áreynslunni og þrátt fyrir að sóknin gengi betur í seinni hálfleik náðu þeir sér aldrei verulega á strik. Á síðustu sekúndum leiksins komust þeir nálægt því að jafna og kreista fram framlengingu en síðasta skot Frakkanna lenti á innanverðri stönginni og aftur út. Króatarnir náðu boltanum, leiktíminn rann út og og örþreyttir leikmenn Króata fögnuðu úrslitunum.
Króatar í úrslitaleikinn á EM | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:46 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.