Danir landa verðskulduðum sigri á síðustu sekúndum leiksins

Eftir slakan kafla í fyrri hálfleik, sem minnti um margt á slæma kaflann á móti Rússum um daginn, var á brattann að sækja fyrir Dani í fyrri hálfleik og nokkuð inn í þann síðari. Danir gáfust alls ekki upp og hægt og bítandi söxuðu þeir á forskot Þjóðverja og um miðjan síðari hálfleik voru þeir búnir að jafna. Bitter hafði varið mark Þjóðverja meistaralega í fyrri hálfleik, sem tryggði Þjóðverjum forystu í hálfleik, en hann var með yfir 40% skráða markvörslu í leiknum öllum.

Í síðari hálfleik fór m.a. Hvidt í gang og sýndi að hann, ásamt e.t.v. Ege og Omeyer, hefur varið markmanna best. Danska liðið bætti sóknarleikinn sinn og leikfléttur sóknarmannanna gengu betur upp en í fyrri hálfleik. Danska liðið sýndi góðan karakter og komst yfir er dró nær leikslokum. Í liði Þjóðverja brenndi Henz af í of mörgum færum og skömmu fyrir leikslok voru Þjóðverjarnir tveimur mörkum undir. Þeir gáfust þó ekki upp og náðu að jafna leikinn í 25:25 tegar tæp hálf mínúta var eftir. En Danir héldu áfram að sækja á vörn Þjóðverja sem fyrr og sending inn á línuna færði þeim vítakast þegar 3 sekúndur voru eftir. Christiansen, vítaskytta Dana, sýndi mikið öryggi og innsiglaði sigur Dana með marki.

Eins og gefur að skilja voru Danir kátir í leikslok, Krogh grét af gleði og allt liðið fagnaði innilega að vera komnir í úrslit á stórmóti í fyrsta sinn í afar langan tíma. Þar munu þeir mæta reynslumiklu en lemstruðu liði Króata, sem þeir sigruðu með tíu marka mun í milliriðli. Danir eru vel að sigrinum komnir, þeir hafa sýnt einna bestan leik allra liða og Wilbek þjálfari hefur enn einu sinni sýnt hvers hann er megnugur. Upp úr stendur sigur sterkrar liðsheildar með besta markvörð keppninnar, Kasper Hvidt. Danir hafa komist í gegnum keppnina áfallalaust og álagið hefur dreifst á milli leikmanna. Þeir eru óþreyttir, að því er virðist, og andinn góður. Forvitnilegt verður að sjá hvort Króatar hafi nægan tíma til þess að fylla á tankana fyrir úrslitaleikinn á morgun.


mbl.is Danir komnir í úrslitin á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Als

Maður ætlar þeim jú sigur - en barátta Króata í dag var heldur ekki af verri endanum og ef þeir eru ekki alveg búnir á því grey karlarnir getur allt gerst. Tilburðirnir hjá Balic og Metlecic, ásamt sterkri vörn, gefa Króötum smá von. En markvarslan gæti verið betri hjá þeim. Ég tippa á danskan sigur.

Ólafur Als, 26.1.2008 kl. 20:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband