30.1.2008 | 15:26
Vinur litla mannsins dregur sig í hlé
Forvitnilegt verður að fylgjast með einvígi Clinton og Obama nú, þegar Edwards hefur ákveðið að draga sig í hlé. Nokkur stjörnubragur hefur verið á framboðum Clintons og Obama og bíða menn nú spenntir eftir að sjá hvernig þeim reiðir af nú þegar þau eru ein eftir hjá Demokrötum. Edwards hefur reynt að höfða til hinna vinnandi stétta, sem afa orðið illa úti í alþjóðavæðingu síðari ára. Æ fleiri störf í ýmsum framleiðslu- og jafnvel þjónustugreinum hafa flust til landa á borð við Indland og Kína og hafa fjölmargar byggðir orðið illa úti í samkeppninni við ódýrara vinnuafl í öðrum löndum. Hann hefur og lagt mikla áherslu á endurbætur í heilbrigðiskerfinu og umhverfismálin hafa verið ofarlega á baugi hjá honum.
Edwards hefur stundum verið nefndur vinur litla mannsins en áherslur hans varðandi baráttu gegn fátækt og fleira virðist ekki hafa skilað sér inn í megin áherslupunkta Demokrataflokksins. Stjörnufansinn, sem umlykur Clinton og Obama, hefur gert það að verkum að Edwards hefur átt erfitt uppdráttar í fjölmiðlum og eftir að hafa lent í þriðja sæti í enn einum forkosningum í röð sá hann sæng sína útbreidda. Reyndar bar einn aðstoðarmanna Edwards því við að hann væri að hætta nú vegna veikinda konu sinnar, Elizabeth, en hún greindist með brjóstakrabbamein á ný á afliðnu ári. Að auki var farið að saxast verulega á kosningasjóði framboðsins.
Nú virðist ljóst að keppnin stendur á milli tveggja einstaklinga í báðum stóru flokkunum. Obama hefur hægt og bítandi sótt í sig veðrið og gerir nú harða hríð að fyrrum yfirburðum Clintons. Edwards skildi eftir sig 26 fulltrúa, sem nú verða að velja á milli hinna tveggja stóru. Þeir munu ekki skipta sköpum en vera má að sá andi sem svífur yfir vötnum Obamaframboðsins hugnist stuðningsfólki Edwards frekar. Clinton er jú eftir sem áður fulltrúi flokksveldisins en Obama er fulltrúi nýrra tíma og breyttra viðhorfa, sem margir vonast eftir þessa dagana. Hjá Repúblikönum er ljóst að baráttan stendur á milli McCain og Romney, þar sem McCain virðist klárlega hafa vinninginn.
Edwards hættur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.