Nú vantar McCain einungis strangtrúaða kristna á sitt band

Undir venjulegur kringumstæðum ættu Demókratar að sigra í næstu forsetakosningum. Óvinsældir Bush yngri og velgengni Demókrata í síðustu þingkosninum ættu að sjá til þess að þeir ættu greiða leið inn í Hvíta húsið. McCain virðist hins vegar vera sá frambjóðandi Repúblikana sem gæti hugsanlega sigrað hvort heldur Clinton eða Obama.
Nú hefur vöðvabúntið frá Kaliforníu bæst í hóp stuðningsmanna McCains og verður vandséð hvernig Romney eða Huckabee fái rönd við reist. Að vísu eru fjárráð McCains ekki sem best og það verður geysilega dýrt að fylgja eftir framboðinu næstu daga, allt fram til forkosninganna þann 5. feb. næstkomandi. Eitt verður McCain að hafa í huga: ef að líkum lætur munu evangelistarnir ráða úrslitum þessara kosninga, líkt og þeir hafa gert síðustu tvö skiptin. Ef frjálslyndi hægri stefnunnar, sem McCain fylgir, verður þeim ekki að skapi má búast við forseta úr röðum Demókrata að ári liðnu.

mbl.is Schwarzenegger styður McCain
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Heill og sæll, Ólafur. Ólíkt fýsilegri kostur en McCain fyrir meðvitaða kristna menn, 'siðgóða meirihlutann' (eða hvað menn vilja kalla þá – ekki bara 'evangelicals', heldur trúa kaþólikka líka) virðist Mitt Romney. Svolítill samanburður var á helztu frambjóðendum í 24 stundum í dag (fimmtudag 31. jan., bls. 12), og þar blasir þetta við augum lesandans. Í sumu tilliti nálgast McCain miðjumoðið, þótt skárri kostur sé en Obana, hvað þá Clinton. En í skoðanakönnun Útvarps Sögu kom í ljós, að af 435 svarendum vildu heil 63,45% sjá Hilary Cinton sem næsta forseta Bandaríkjanna, 30,34% Barack Hussein Obama, en aðeins rúm 6% annan hvorn frambjóðenda Repúblikana: 3,22% McCain og 2,99% Mitt Romney – sem endurspeglar, hve lítt menn þekkja til hinna síðastnefndu, en bezt held ég þetta spegli það, hve stöðugur áróður Fréttastofu Rúv hefur náð að móta bláeyga landa okkar.

Jón Valur Jensson, 1.2.2008 kl. 00:18

2 Smámynd: Ólafur Als

Sæll Jón Valur,

ágætis innlegg - hef sjálfur átt í vandræðum með nafngiftina - faðir minn og ég höfum stundum nefnt hópinn hvítasunnukristna, með e.k. vísan í "born-again Christians" - einhver gæti nú kallað þig, Jón Valur, evangelista í ljósti þess að orðræðu þína má á köflum líkja við trúboð. Veit hins vegar ekki hvort þú fallir í hóp hinna endurfæddu kristnu. Annars myndi ég gjarnan vilja spjalla við þig á vinsamlegum nótum um Rómarkirkjuna, sögu hennar og boðskap í gegnum aldirnar. Ekki svo að skilja að ég ætli mér að hlífa páfadómi, ef svo ber undir, heldur langar mig að sjá þína hlið á málinu og bera saman við sumt sem maður telur sig hafa kynnst í gegnum árin.

Sjálfur styð ég McCain af afar einfaldri ástæðu. Hann er frjálslyndur hægri maður og hann var eini frambjóðandi Repúblikana sem afneitaði algerlega réttinum til pyntinga. Hann ætti að kannast við málið sem fyrrum stríðsfangi í N-Víetnam, þar sem hann var fangelsaður og pyntaður við aðstæður sem fær Guantanamó vistina til þess að líta nokkuð vel út. Ég hef margítrekað að ég vil halda trúarbrögðum sem mest utan við stjórnmálin. Ég hlít að vona að ritningin taki undir þetta viðhorf mitt enda er það sérhverjum manni hættulegt að höndla í senn valdið og sannleikann.

Romney þykir mér koma vel fyrir en ekki er ég viss um að hann gæti sigrað frambjóðanda Demókrata, ætla ég McCain einum þann möguleika. Ef McCain sigrar ekki vonast ég til sigurs Obama, hann er nú nálægt miðjumoðinu sem þú nefnir svo en er að mörgu leyti frjálslyndur hægri maður einnig. Um áróður RÚV og annarra miðla nenni ég ekki að tjá mig að svo stöddu, hann er og verður afar einskorðaður.

Ólafur Als, 1.2.2008 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband