Kirkjujarðir á uppboði ...

Er ekki bara hægt að leyfa syni hins fráfallna prests að bjóða í jörðina og e.t.v að jafna best boð? Hvað yrði um féð sem fengist fyrir jörðina er önnur saga, en afkomandi Laufáss getur ekki ætlast til þess að fá í hendur jörðina án þess að bjóða í jörðina markaðsverð eða eitthvað því sem næst. Ef uppboðsleiðin dygði ekki gætu kirkjuyfirvöld tekið til athugunar að greiða syninum "bætur" í ljósi þess að jörðin hefur öðlast aukið verðmæti vegna atorku hans.

Hvort kirkjan telji að Laufás geti gegnt skyldum sínum sem krikjujörð skal ósagt látið en ljóst má vera að nokkur vandi er á höndum ef klerkar landsins taka upp á því að gera kirkjujarðir að arðsömum búrekstrarjörðum. Ef til vill ætti kirkjan að selja bestu bújarðirnar, safna í sjóð og með tímanum verða óháð fjárveitingavaldi hins opinbera. Prestar gætu þá einbeitt sér að því að sinna sáluhjálp í stað þess að stunda markaðsbúskap með landbúanaðarafurðir.


mbl.is Sala Laufáss ekki útilokuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

SÆll.

Má til vegna augljóss misskilnings þíns Ólafur, sem virðist algengt meðal óvenju margra, leggja hér inn frábæra grein Jóns  Vals um eignir og afgjald eigna kirkjunnar frá ríkissjóði. Þá er vert að benda á að Jón Valur er búinn að stofna bloggflokk hjá sér þar sem hann mun safna inn öllu efni þessu tengdu sem hann hefur ritað :  http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/category/1770/

Gegn árásum á Þjóðkirkjuna

Svo hét grein mín í Mbl. 19. des. 2002 þar sem fjallað var um mál sem oft ber hér á góma: eignamál kirkjunnar og rétt Þjóðkirkjunnar til framlags úr ríkissjóði til rekstrar síns. Afar harðar hafa þær árásir oft verið, sem trúleysingjar og afbrýðisamir veraldarhyggjumenn ýmissa flokka hafa haldið uppi, einkum frá og með Kristnihátíðarárinu 2000 og nú enn og aftur, þegar örfámennur hópur virkra trúleysisboðenda hellir sér yfir dagblöð og bloggsíður nánast daglega.

Margir láta sem Þjóðkirkjan eigi hér engan rétt – sniðganga þar með þinglýstar og skráðar eignarheimildir hennar í margar aldir, unz ákveðið var, að ríkið tæki alfarið við jarðeignum þessum gegn endurnýjun þess lagaákvæðis, að ríkið borgi laun presta og Biskupsstofu. Sumir (og raunar fáir) hávaðasamir veitast að kirkjunni fyrir ýmist meinta ágirnd eða sníkjulífi, á meðan aðrir (sjá t.d. umræðuna á þessari síðustu vefsíðu minni) virðast aldrei geta áttað sig á því, að við erum hér hluti af réttarríki, þar sem arfhelg réttindi, m.a. eignarréttur, eru síður en svo eitthvað sem brýtur gegn almennum mannréttindum, heldur eru þau einmitt einn undirstöðuþáttur þeirra.

Já, það er óumflýjanleg grunnforsenda þessa máls, að "kirkjan fer ekki fram á ölmusu, einungis að ríkið standi við gerða samninga," eins og ég sagði í greininni gömlu, en ófyrndu, sem ég endurbirti nú hér á eftir.

Gegn árásum á Þjóðkirkjuna

FORMAÐUR Siðmenntar, Hope Knútsson, ritar grein í Mbl. 30.10. 2002: 'Hvað felst í aðskilnaði ríkis og kirkju?' Þar sker í augu alger vöntun á umfjöllun um eignir kirkjunnar, eins og þær skipti engu í sambandi við þann "styrk" frá ríkinu sem Hope segir Þjóðkirkjuna fá og vill láta afnema. "Þjóðkirkjan nýtur hundraða milljóna króna styrks [svo!] árlega umfram önnur trúfélög," segir hún. Það er einfaldlega rangt. Ríkisvaldið tók kirkjujarðir (fyrir utan prestssetur) í sína umsjá 1907, innheimtir af þeim tekjur og greiðir í staðinn laun til presta.

Hvaðan komu þessar jarðir, 16% jarðeigna landsins 1907? Stór hluti tilheyrði kaþólskri kirkju á sínum tíma. Eins og sjá má af gjafabréfum eignafólks til kirkna og klaustra, áttu þær gjafir að styðja við Guðs kristni, helgast þjónustu við söfnuði hans. Eftir siðaskipti var ekki öðrum til að dreifa til kristnihalds en lútherskum klerkum sem framfleyttu sér, önnuðust viðhald kirkna og önnur útgjöld með þeim eigna- og tekjustofnum sem konungur lét óhreyfða þegar hann hrifsaði undir sig klaustra- og stólseignir. Var hitt þó ærinn skellur að sú menningar- og þjóðþrifastarfsemi sem fram fór í klaustrunum var í einu vetfangi aflögð, er konungur gerði eignir þeirra upptækar.

Kirkjan var á 14. öld langauðugasti landeigandi hérlendis og auðgaðist enn til 1550. Þá áttu biskupsstólarnir 14.119 hundruð í jarðeignum, sjöttung alls jarðnæðis. Síðar hafa margir býsnazt yfir auðsöfnun kirkjunnar, en eins og Björn Þorsteinsson sagnfræðiprófessor fræddi okkur nemendur sína um, var kirkjan leiguliðum sínum léttari í álögum en aðrir landsdrottnar. Að auki veitti hún fátækum og sjúkum ómetanlega hjálp. Um 1650 var þriðjungur jarðeigna í eigu kirkna, biskupsstóla, Kristfjárjarða og spítala, sjöttungur eign konungs og helmingur bændaeign.

Fyrir þá, sem líta ekki á eign sem þjófnað eins og stjórnleysinginn Proudhon, ætti að vera sjálfsagt að skoða þessi mál af jafnaðargeði og réttsýni. Eðlilegri kröfu kirkjunnar að fá að halda tekjustofnum sínum verður ekki mótmælt í nafni trúfrelsis.

Ekki tilheyri ég Þjóðkirkjunni, er ekki þess vegna að verja hana ásælni. En vegna þrákelkni Hope í atsókninni finnst mér rétt að hún upplýsi okkur um fáein atriði:

  1. Heldur hún að kristnir Íslendingar láti höggva undan sér þær efnalegu stoðir sem forfeður okkar reistu til að halda uppi kirkjum, helgihaldi og þjónustu í þágu safnaðanna?
  2. Telur hún kristið fólk svo auðblekkt og geðlaust, að það standi ekki á eignarrétti sínum og eftirkomenda sinna?
  3. Trúir hún í alvöru að hún geti biðlað til ríkisstjórnarflokkanna um stuðning við að ræna kirkjuna eignum sínum og/eða samningsbundinni réttarstöðu? M.ö.o.: Með hliðsjón af því, að ríkisstjórnin segir í stefnuskrá sinni að kristin trú og gildi hafi "mótað mannlíf í landinu og verið þjóðinni ómetanlegur styrkur," auk þess sem báðir flokkarnir eru því andvígir "að löggjafinn gangi of nærri friðhelgi eignarréttarins" eða "taki sér nokkurt vald sem stríðir gegn grundvallarréttindum," trúir Hope því, að flokkarnir gangi á bak þeirra orða? Hefur hún svo lágt álit á þeim að hún ímyndi sér að þeir fáist til þess í bráðræði að hafna þannig kjörfylgi fjölda kristinna manna?
  4. Álítur hún mín lúthersku systkini þvílíkar gungur að þau láti rifta einhliða þeim samningi sem gildir milli ríkis og Þjóðkirkju um árlegt framlag til hennar úr ríkissjóði (sem er metið sem eðlilegt endurgjald fyrir þau 16% jarðeigna í landinu sem kirkjan lét af hendi við ríkið)?
  5. Kæmi það henni á óvart að Þjóðkirkjan fengi (í Hæstarétti eða með því að leita til æðsta dómstigs í Evrópu) þann samning staðfestan eða jarðeignir sínar afhentar aftur, ef ríkið fremdi þau samningsrof að hætta að greiða þetta árlega afgjaldsígildi úr ríkissjóði?
  6. Ef Hope ánafnaði Siðmennt eignir sínar, fyndist henni þá réttlætismál að einhver ríkisstjórn þjóðnýtti þær með einu pennastriki?
  7. Af því að henni er tíðrætt um réttlæti, jafnrétti og trúfrelsi, er að lokum spurt: Yrði það í þágu réttaröryggis ef magnaðasta valdið, ríkisbáknið, gæti sölsað undir sig sameign frjálsra félagasamtaka?

Kirkjan fer ekki fram á ölmusu, einungis að ríkið standi við gerða samninga. Ef ekki væri samstaða á Alþingi um lögin frá 1907 og 1997, ætti Þjóðkirkjan að taka við eignum sínum aftur og ávaxta þær á arðsaman hátt með nútímalegri fjármálastjórn til að tryggja, að hún geti staðið undir helgihaldi, viðhaldi kirkjuhúsa, hjálparstarfi og þjónustu til frambúðar. Ef hún hlypist undan þeirri ábyrgð (t.d. af hræðslugæðum eða í viðleitni til að þókknast öllum, umfram allt einhverri tízkuhugsun), væru það svik við köllun kirkjunnar, þá sem hafa stutt hana og við sjálfan þann sem sendi hana. Til þess hefur kirkjan þegið þennan arf að vinna úr honum til heilla fyrir íslenzka þjóð.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 10.2.2008 kl. 21:01

2 Smámynd: Ólafur Als

Sæll Predikari,

ekki átta ég mig alveg á leiðréttingu þinni, en vera má að ég hafi sett málið í vitlaust samhengi, eða ekki orðað hlutina nógu vel - sem aftur olli misskilningi hjá þér, Predikari, eða hvað?

Ég er ekki á meðal þeirra sem telja að kirkjan standi í skuld við hið opinbera - samningur var gerður á sínum um eignaupptöku kirkjueigna gegn gjaldi. Þessi samningur tryggir hins vegar órjúfanleg fjárhagstengl sem ég tel að kirkjan ætti að koma sér undan. Aðskilnaður kirkju og ríkis ætti að vera meiri en er í dag en ekki hef ég tillögur um hvernig tryggja mætti slíkt. Efast samt ekki um að finna mætti lausn. Ein hlið slíkrar lausnar fæli í sér að kirkjuyfirvöld sætu á digrum sjóðum, til þess að fjármagna helgihald og laun presta, byggingu og viðhald kirkna auk annars kostnaðar. Hve digur sá sjóður þyrfti að vera veit ég ekki en væntanlega myndi hann velta einhverjum milljörðum. Ekki veit ég hvort mögulegt sé að skila aftur upprunalegu jörðunum en vissulega kæmi einhver slík lausn einnig til greina.

Til viðbótar get ég sagt að ég hef lítillega fylgst með skrifum Jóns Vals um þessi mál og er að mörgu leyti honum sammála. Svo er nú það.

Ólafur Als, 10.2.2008 kl. 22:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband