12.2.2008 | 10:40
Íslenskir fjölmiðlar enn úti á þekju ...
Samantekt Børsen frá í morgun eru ekki nýjar fréttir. Legið hefur fyrir um nokkurt skeið að fall á verðbréfa- og fjármálamörkuðum hafi verulega skert bókfært eigið fé íslenskra fjármálafyrirtækja. Greinin er nú nokkuð færð í stílinn og fær maður næstum á tilfinningunni að einungis íslensk fyrirtæki hafi orðið fyrir skakkaföllum að undanförnu. Danskar fjármálastofnanir hafa löngum haft áhyggjur af sprikli íslenskra fjárfesta í Danmörku og hafa stofnanir á borð við den Danske bank, Nordea og fleiri imprað á þessu um all langt skeið. Í upphafi var varað við að íslenska útrásin væri blaðra sem myndi senn springa. Nokkur bið varð nú á því en nú þykjast sumir sjá spádóma sína rætast, þó seint hafi verið.
Hvort sem danskir fjármálaspekúlantar hafi nú rétt fyrir sér eða ekki er ljóst að fyrirtæki á borð við Exista eru í erfiðleikum og hafa ekki efni á frekara verðfalli á eignum sínum. Erfiðleikarnir sem steðja nú að íslenskum fjármálafyrirtækjum eru vissulega ekki einsdæmi og ef menn halda að endurskoðun Moodys boði endalokin eru menn farnir fram úr sjálfum sér. Hins vegar er það vissulega áhyggjuefni ef sú spilaborg, sem byggð er í kringum flókna og samtvinnaða eignaraðild að baki íslensku fyrirtækjunum, brestur. Hve útbreidd gætu áhrifin orðið hér á Íslandi ef eitt stórt fyrirtæki færi á hausinn? Hver yrðu áhrifin ef fyrirtæki á borð við Exista yrði gert upp?
Hér eru vissulega aðkallandi umfjöllunarefni fyrir íslenska blaðamenn, sem þeir hafa of lengi ekki sinnt sem skyldi - verðbréfagróðann hafa menn rætt góðlátlega um en viðvaranir hefur alla jafna ekki verið hlustað á. Mig grunar jafnvel að slíkt tal hafi verið afgreitt sem pólitískt froðusnakk, sbr. Baugsmálið allt, eða sett í pólitísk klæði í formi hræðsluáróðurs vinstri manna. Almenningur hefur rétt á að verða upplýstur um afleiðingar þess ef illa fer. Ekki dugar að fylla síður af milljarðakaupum á vegum íslenskra milljarðamæringa í útlöndum, sem varðar íslenskt efnahagslíf yfirleitt afar lítið, hér verður einnig að gera fulla grein fyrir áhrifum ef fjárfestingar fyrirtækja í almannaeign eru á sandi reistar.
Ef fjölmiðlarnir ætla að standa undir því að kallast fjórða valdið verða þeir að sinna einni frumskyldu sinni en það er upplýstur fréttaflutningur til almennings. Stór hluti íslenskra fjölmiðla er vissulega í eigu eins þeirra aðila sem hér um ræðir. Baugur er jú stór hluti þessa ævintýris sem kennt er við íslensku útrásina. Með þögn sinni gætu fjölmiðlar ýtt undir alls kyns gróusögur og hræðslu, sem gæti vissulega skaðað fyrirtækin og eigendur þeirra langt umfram það sem núverandi kringumstæður gefa tilefni til. En umfram allt vill almenningur fá upplýstari fréttir af stöðu mála og hvaða þýðingu núverandi þrengingar íslenskra fjármála- og útrásarfyrirtækja gætu haft í för með sér.
Óttast íslenska kollsteypu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:06 | Facebook
Athugasemdir
Það er nú heila málið. Baugur á Fréttablaðið og Björgúlfarnir Moggaræfilinn og 24 stundir. Baugur ræður Stöð 2 og Bylgjunni, Björgúlfarnir ráða í raun RúV og Exista á Skjá einn - Menn geta ekki átt von á óhlutdrægri fjölmiðlun hér eða efnislegri úttekt. En reikningsglöggur maður sagði mér, að þótt gengið á Kaupþingi - einni helstu eign Exista, sé skráð um 700 í dag á einingu, þá sé það mörgum sinnum of hátt miðað við raunveruleikann. Þessi maður er Íslendingur, ekki dani.
Nöldrari (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 11:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.