27.2.2008 | 07:19
Örríkið Ísland vill vera á meðal smáríkja heims
Ég er ekki alveg viss um hvort Íslendingar viti af þessum áherslum sem utanríkisráðherra segir okkur hafa. Reyndar er það svo að utanríkisstefnan er sjaldnast rædd núorðið, hvað þá þær áherslur sem Íslendingar vinna eftir í aðstoð sinni við s.k. þróunarríki. Undir hatti umhverfismála og ofbeldis sem konur eru beittar hljóta að rúmast mörg baráttumál ef okkar starfi í Malawi, Uganda o.s.frv. fellur undir það. Ég stóð í þeirri trú að við værum að vinna að m.a. sjálfsbjargarverkefnum og fræðslu, t.d. til kvenna. En vissulega er hægt að gefa slíku starfi margvíslegar yfirskriftir og fátækt og fáviska er að sínu leyti ofbeldi og uppbyggingarverkefnin taka mið af sjálfbærum búskap vatns og lands, sem er jú umhverfismál.
Á góðum degi má e.t.v. segja að Ísland nái upp í flokkinn smáríki. Danir eru vissulega smáríki og fjölmargar aðrar þjóðir fylla flokk smáríkja. Útfrá þeirri stærðarskilgreiningu er Ísland í flokki örríkja sem af ástæðum sem ég hef enn ekki áttað mig á, ákvað að falast eftir sæti í Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Utanríkisráðherra erfði smáríkisdraum fyrri ríkisstjórnar og heldur áfram að eyða skattfé borgaranna í verkefnið. Um daginn hýsti forseti lýðveldisins ráðstefnu um umhverfismál í New York til þess m.a. að efla framboð okkar - ráðstefnan var fremur smá og sagt var að búast megi við fleiri "smáráðstefnum" í framtíðinni. Væntanlega verður reikningurinn fyrir þeim ekki smár.
Hvað Íslendingar ætla sér að gera í Öryggisráðinu er mér hulin ráðgáta. Er á dagskrá að beita okkur í umhverfis-málum eða munum við berjast gegn beitingu hvers kyns ofbeldis? Hefur nokkur gert sér grein fyrir því hvers vegna við viljum láta rödd okkar heyrast og hvort Öryggisráðið sé rétti vettvangurinn í þeim efnum? Eins og gefur að skilja bíður umheimurinn ekki í ofvæni yfir því að fá að heyra rödd Íslands þó svo að í einstaka málum við gætum lagt sitthvað á vogarskálar skynsamlegrar framvindu mála. Helst hefur það nú verið í hafréttarmálum í gegnum tíðina grunar mig en einhverju gætum við eflaust bætt við hvað varðar sjálfbæran sjávarútveg og nýtingu sjálfbærrar orku.
Ræddi við Ban Ki-moon | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.