29.2.2008 | 21:27
Maður siglir gegn straumnum ... !
Jæja, þá er það endanlega staðfest að maður tilheyri afar litlum minnihluta. Mér kemur ekki á óvart að Demókratar skuli vera vinsælir á Íslandi en þessi munur er helst til mikill. Ætli margir hafi kynnt sér stefnumál þessa fólks að nokkru ráði? Víst er að í mörgum málaflokkum eru þau á svipaðri línu, nema ef vera skyldi um stríðsreksturinn í Írak, sem Hillary Clinton samþykkti reyndar á þingi á sínum tíma en Barack Obama hefur alla tíð verið andmæltur.
Sumir íhaldsmenn þar vestra, hinir sömu sem gagnrýna John McCain sem mest, hafa haldið því fram að "þeirra" maður sé allt of frjálslyndur í viðhorfum og því munu þeir kjósa frú Clinton, sem sögð er vera íhaldssöm á sviðum sem þeim líkar betur. Frægasti íhaldsmaðurinn til þessa, sem hefur um leið sagst ætla að kjósa Clinton, er Ann Coulter en fleiri hafa bæst í hópinn úr röðum íhaldsmanna.
En sem sagt, ég styð karlinn hann John McCain, þar til annað kemur í ljós en gæti þess utan hugsað mér Barack Obama. Einst og staðan er nú hefur McCain möguleika gegn Clinton en næsta víst að Obama myndi sigra minn mann ef þeir berðust um embætti forsetans.
Íslendingar kjósa demókrata | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Afstöðu McCains til fjölmargra mála má m.a. sjá hér:
http://www.ontheissues.org/John_McCain.htm
Hann "trúir" á þróunarkenninguna en er opinn fyrir hugmyndinni um að Guð, eða æðra vald hafi komið að sköpunarverkinu - ekki ósvipað og er um marga vísindamenn. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur áréttað að sköpunarkenninguna megi ekki kenna sem væri hún vísindi, en leyfir vitanlega að hún sé kynnt, t.d. innan ramma trúfræðanna. John McCain hefur svipaða afstöðu.
Ergo = hann er betur að sér en Kristinn Haukur Guðnason.
Ólafur Als, 1.3.2008 kl. 00:20
Kristinn, er þér ekki við bjargandi, eða hvað? Að þér detti í hug að nefna orðið víðsýni í sömu andrá og þú viðrar þínar öfgar er ekki einleikið. Það er næstum eftirtektarvert hvernig þér tekst að snúa raunveruleikanum á hvolf, eða snúa útúr, í einstaka málum.
Nefni nokkur dæmi:
Innan vísindasamfélagsins eru fjölmargir vísindamenn, sem taka undir afstöðu McCains. Reyndar endurómar hann orð manna á borð við Albert Einstein, Carl Sagan og margra fleiri, sem hafa ekki útilokað að einhvers konar æðra vald hafi komið að sköpuninni. Það hafa sumir þessara vísindamanna m.a. byggt á, að hið flókna samspil tilviljana í náttúrunni sé ekki nóg til þess að stýra svo flóknu gangverki sem sköpun lífsins er. Hér er vitanlega um spekúlasjónir að ræða, alls ekki vísindi. Sjálfum er mér það ekki kappsmál að sýna fram á tilvist æðra valds, eða afsanna það - enda mér um megn. Að öðru leyti vísa ég til svars mín frá kl. 00:20.
Afstaða McCains verður ekki skýrð með að hann sé á móti giftingum samkynhneigðra. Hann kaus t.d. í júni, árið 2006, að alríkið skyldi ekki fá að banna slíkt. Hann er á því að sérhvert ríki skuli ákveða sína stefnu í málefnum sem þessum (nóv. 2006) en er reiðubúinn til þess að segja sem svo að orðið "gifting" feli einungis í sér hjónaband karls og konu. Ég er honum sammála enda á ekki að neyða kirkjuna til einhvers sem hún er á móti. Hins vegar er hann ekki á móti lagalegri sambúð samkynhneigðra, hefur meira að segja sagt að hann gæti lifað við það ef forsetinn væri samkynhneigður.
Hugmyndafræðin að baki réttinum til þess að fá að bera vopn er okkur Íslendingum framandi og mörg okkar líta svo á að þessi réttur hafi leitt til ofbeldis og dauða fjölda fólks. Ég þekki ekki nema sæmilega til þessarar umræðu þar vestra, en hef aldrei verið sérstakur aðdáandi þess að bera vopn. Ég skil hvoru tveggja sjónarmiðanna en það er erfitt að fást við vopnaeign fólks, þar eð hún er svo vel tryggð í stjórnarskránni.
Ekki er rétt að tengja McCain við evangelistana, þeir eru margir hverjir ekki sáttir við karlinn. Andúð þín á kristnu fólki er eitthvað sem þú verður að gera upp við sjálfan þig eða jábræður þína en ekki við mig. Fölskvalaus andúð þín í þessum efnum þykir mér ekki bera merki um víðsýni né umburðarlyndi, sem þú sakar strangtrúaða um að skorta. Ykkur er líkt með farið, þykir mér.
Eflaust væri hægt að impra á fleiri málum en víst er að ég er sjálfur ekki sammála öllum hans stefnumálum en nægilega mörgum til þess að líka vel við hann. Hann hefur sagt að hann sé alfarið á móti pyntingum, enda var hann sjálfur stríðsfangi hjá N-Víetnömu í sex eða sjö ár, þar sem hann var pyntaður um árabil og olli m.a. líkamlegum örkumlum. Mér þykir hann geðþekkur og umfram allt er hann reiðubúinn að fá fólk til samstarfs um málefnin, sem hefur m.a. gert það að verkum að harðir íhaldsmenn þola hann ekki. Ekki ósvipað og margir þola ekki Hillary Clinton, sem bent hefur verið á að sé ein ástæða þess að McCain hafi möguleika á móti henni, en síður á móti Obama.
Enn og aftur fellur maður um sleggjudómana og orðbragðið hjá þér, Kristinn, að ekki sé nú talað um brenglaða vitneskju þína og greiningu. Ekki ætla ég að gerast talsmaður Bush-stjórnarinnar en vert er að geta þess að framlög til vísindarannsókna hafa ALDREI verið meiri á mörgum sviðum en undir hans stjórn; má þar nefna AIDS rannsóknir, orkurannsóknir (ethanol o.fl) og fleira. Hins vegar hefur hann lagt óheppilegan trúarstimpil á sumt, en annað er í höndum ríkjanna sjálfra að ákveða (sbr. fræðslu af alls kyns tagi).
Bandaríkin eru vissulega óvinsæl um þessar mundir og er það slæmt. Ekki er ég viss um að þeir hafi beinlínis valdið átökum á milli stríðandi afla í Írak, ekki nema að þú teljir að Bandaríkjamenn sjálfir hafi valdið þvi að ráðist var á turnana fyrir rúmum 6 árum síðan. Vissulega hafa aðgerðir þeirra gefið hatursöflum tækifæri og tilefni til þess að bresta fram en stríðandi fylkingar nú hafa eldað grátt silfur saman um aldir og hafa ekki þurft afskipti Bandaríkjanna til þess að drepa hver annan.
Ég er sammála að horfur í efnahagsmálum eru ekki nógu góðar sem stendur, enda búist við minni hagvexti en vonast var eftir. Hins vegar er efnahagurinn ekki í rúst, eins og þú heldur fram og sýnir hve lítt þú þekkir til mála þar vestra.
Ef Obama heldur ótrauður áfram á sinni braut er vandséð hvað geti stöðvað hann í nóvember næstkomandi. Hins vegar verður forvitnilegt að sjá Obama, ef hann verður útnefndur, kljást við reynsluboltann McCain. Mun honum takast að sigra hug og hjörtu Bandaríkjamann með útgeislun sinni og orðsnilld eða munu þeir halla sér að góðlátlegu fasi gamla mannsins, reynslu hans og velvilja?
Ólafur Als, 1.3.2008 kl. 12:27
Kristinn, mér dettur ekki í hug að afsaka orð mín fyrir þér enda misskilur þú fjöldamargt í skrifum mínum og reyndar einnig í afstöðu McCains til sumra mála. Ég er t.d. á móti GIFTINGUM samkynhneigðra en tel sjálfsagt að færa í lög réttindi til sambúðar (McCain einnig) - varla teljast það mannréttindi að þvinga trúarfélög að vinna gegn sannfæringu sinni.
Um trúmál McCains nenni ég vart að ræða frekar við þig, því það er sama hvað sagt er, þú lætur það þig engu varða. Ekki einu sinni þó hann segist sjálfur vera Baptisti. Sumir Evangelistar berjast hatrammlega gegn McCain, ásamt með hörðustu íhaldsmönnum - ekki bara á sviði skattamála!
Hvernig væri að þú sannaðir þitt mál um lítinn stuðning til vísindarannsókna - vísindasamfélagið hefur aðrar ástæður til að vera á móti Bush en þær snerta aðallega forgangsröðun, ekki endilega upphæðir.
Úr því að Bandaríkjamenn hafa skólafög á borð við trúarfræði (hér í Danmörku eru kennd kristinfræði, svo nokkuð sé nefnt) þykir sumum eðlilegt að sköpunarsagan fái að eiga þar inni. Baráttan, sem þú nefnir, er af öðrum toga og ef þú hefðir nennt að fylgjast betur með hefðir þú tekið eftir því í skrifum mínum, auk þess að hafa nefnt að hæstiréttur Bandaríkjanna hefur úrskurðað um málið. Sem sagt, McCain vill ekki kenna sköpunarsöguna sem væri hún vísindi.
Ef heitfengnir kristnir vilja troða sínum hugmyndum inn í skólana, sem væru þau vísindi, er sjálfsagt og eðlilegt að berjast gegn því í samfélagi sem trúir og treystir á aðskilnað ríkis og kirkju. Sem frjálshyggjumaður vil ég ekki blanda þessu tvennu um of saman.
Eins og mig grunaði fórstu í útleggingar um einstaka svæði, sem hafa farið illa. En það er ekki hið sama og að segja að efnahagur landsins sé í rúst, né að segja að stjórnvöld beri stærsta ábyrgð. Reagan karlinn er reyndar fallinn frá en ekki megin hugsun hans efnahagsstefnu - sem betur fer, væri nær lagi að segja.
Ég geri þá kröfu til þín að þú misskiljir ekki tilvísunina í tvíburaturnana, þar var vísað í orsök og afleiðingu, þ.e. hvort Bandaríkin hafi með framferði sínu framkallað árás á sig - svona mega menn ekki klikka á ef vel á að vera í samræðu. Sjálft stríðið í Írak er tilefni í aðra umræðu en vil þó taka fram að fjölmörg mistök voru þar gerð sem réttilega má saka Bush-stjórnina um en vil þó ekki ganga svo langt að segja hana hatursstjórn.
Að lokum þetta, Kristinn: Hvernig væri nú að leita að sameiginlegum flötum okkar á milli í stað þess að hanga á því roði ósættis, sem þér virðist líka svo vel við? Um spekúlasjónir varðandi forsetakosningarnar er í sjálfu sér litlu við að bæta, nema að ekki er smekklegt að grínast með örkumlun fólks - þetta lærði maður nú snemma í uppeldinu.
Ólafur Als, 1.3.2008 kl. 20:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.