Syrtir í álinn fyrir Clinton

Í ljósi þess hve kapphlaupið um útnefningu Demókrata er svo jafnt er baráttan um sérhvern fulltrúa hörð og jafnvel óvægin. Síðustu vikur hefur fjölmörgum brögðum verið beitt, allt frá skítkast yfir í silkimjúkar yfirlýsingar. Í síðustu viku ræddi Clinton m.a. um að hún gæti séð fyrir sér samstarf þeirra Obama að loknu flokksþinginu í Denver í lok ágúst. Margir bloggarar heima á Íslandi féllu fyrir fagurgala New York senatorsins en ljóst má vera að samstarf bíður þeirra ekki eftir ágúst næstkomandi.

Clinton hefur sýnt að hún er ekki að baki dottin. Henni hefur jafnvel verið líkt við karlinn sinn, sem fékk á tímabili viðurnefnið "comeback kid". Sumum hefur fundist sem Clinton og hennar fólk hafi seilst full langt í baráttuaðferðum sínum og brosandi tilboð Clintons um sameiginlegt framboð í síðustu viku var ekki trúverðugt. Ætlar hún að sætta sig við að spila aðra fiðlu í haust ef úrslitin verða þannig? Ekki telja sérfræðingar að miklar líkur séu til þess.

Obama hefur ef að líkum lætur engan áhuga á samstarfi við hina reyndari frú Clinton. Herrann frá Illinois er aftur kominn á beinu brautina og hefur nú að því er mér telst til unnið í 26 ríkjum á móti 15 ríkjum Clintons. Hann hefur fengið 1.328 fulltrúa á móti 1.190 hjá andstæðingnum (12% fleiri) en þar eð Clinton hefur laðað til sínu nokkru fleiri super-fulltrúa, 238 á móti 199, er hún einungis um 100 fulltrúum að baki í heildarkapphlaupinu.

Á þriðjudaginn verður kosið í Mississippi en kannanir sýna að Obama er þar í þægilegri forystu. Hins vegar er ekki það sama upp á teningnum í Pennsylvania, þar sem forval fer fram eftir rúmar sex vikur. Sem stendur leiðir Clinton í því stóra ríki en nægur tími er til stefnu fyrir Obama að hafa áhrif á það. Eins og málin standa nú verður ekki séð hvernig Clinton á að brúa bilið á milli sín og Obama í kjörnum fulltrúum. Til þess eru of fá ríki og of fáir fulltrúar eftir. Ef að líkum lætur munu super-fulltrúarnir hafa úrslitaáhrif í ágúst en ekki eru margir hrifnir af þeirri tilhugsun - nema ef vera skyldi frú Clinton.


mbl.is Obama sigraði í Wyoming
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Als

Ef þér líka skrifin, Kristinn, er allt eins líklegt að ég verði að endurskoða þau ...

Ólafur Als, 9.3.2008 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband