15.3.2008 | 00:53
Forsætisráðherra í viðtali á CNN
Ég sá í kvöld viðtal við forsætisráðherran á CNN, þar sem reifaðar voru m.a. áhyggjur af stöðu íslensku krónunnar og vangaveltur um stöðu íslensks efnahagslífs. Geir svaraði spurningum fréttamanns af öryggi og þekkingu en þess utan var viðtalið of stutt til þess að gefa heildstæða mynd af stöðu efnahagsmála á Íslandi. Hann líkti m.a. falli krónunnar við tímabæra gengisaðlögun, sem myndi aðstoða við að jafna viðskiptahallann og færa fjárstreymið við útlönd í betra horf. Efnahagsvöxtinn sagði hann verða lítinn á þessu ári en svo tæki hann við sér á ný á því næsta.
Vissulega afgreiddi forsætisráðherrann ekki áhyggjur af stöðu efnahagsmála út af borðinu en ef menn tóku vel eftir mátti heyra að Geir sagði stöðu ríkisstjóðs sterka og vel í stakk búinn til þess að grípa inn í ef þyrfti. Orð af því tagi eru hughreystandi fyrir fjárfesta. Hann bætti jafnframt við að íslensku fjármálafyrirtækin hefðu fundið fyrir óróanum á alþjóðamörkuðum undanfarið misseri, líkt og allir aðrir. Orðræða Geirs hljómaði sannfærandi og gæti þar með átt þátt í að efla traust manna á íslensku efnahagslífi og fjármálafyrirtækjum - en eins og menn vita er vanþekking og ekki síst vantrú einn helsti óvinurinn í heimi alþjóðlegra fjármála.
Geir heimsótti Nasdaq | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.