15.3.2008 | 10:50
Matvælaverð mun hækka enn frekar ... og lánin með
ASÍ gerir rétt í því að hafa áhyggjur af þróun verðlagsmála á Íslandi og eins og innflutningsaðilar benda á er gengisaðlögunin enn ekki komin fram í verðlagi. Ekki sér fyrir endann á henni og hafa sérfræðingar ekki treyst sér til þess að gefa út áræðanlegar tölur um hvert stefnir. Svo virðist sem enginn átti sig á hvert sé "eðlilegt" gengi íslensku krónunnar. Að vísu ríkir óvissuástand í alþjóðaviðskiptum, sem setur mark sitt á okkar litla hagkerfi. Þegar harðnar á dalnum snúa kaupendur sér í auknum mæli að tryggari viðskiptum, s.s. skuldabréfum, gulli og hráefnismörkuðum. Ísland verður að nokkru útundan í þeirri orrahríð, alla vega um sinn.
Gengisaðlögunin gæti því gengið lengra en að jafna út óvenju sterka stöðu íslensku krónunnar um nokkurra ára skeið. Danska krónan gæti farið yfir 15 IKR, evran nokkuð yfir 110 IKR og dollarinn vel yfir 70 krónurnar. Hvort við náum stöðu krónunnar eins og hún var í gengisfallinu árið 2001 er óvíst en kæmi ekki á óvart. Þá fór gengisvísitalan yfir 150 stigin um tíma, áður en hún á árunum 2002 til 2005 fór alveg niður í um 100. Árin 2006 og 2007 hefur gengið sveiflast mikið og er nú á uppleið með tilheyrandi veikingu krónunnar, fyrirséðum hækkunum á vöruverði og alkunnri víxlverkun vísitalna og þar með hækkunum á lánavísitölu.
Matvælaverð hefur verið á uppleið um skeið, sem ræðst af nokkrum einföldum þáttum. Olíuverð hefur hækkað, eins og allir þekkja. Það hefur haft í för með sér hækkun á verði aðfanga, flutningum og almennt þrýst verðlagi upp á við í heiminum. Í ofanálag hafa orðið miklir uppskerubrestir í löndum á borð við Pakistan og víðar í Asíu, sem reiða sig á framleiðslu hrísgrjóna. Afleiðingin hefur m.a. orðið að hrísgrjón hafa tvöfaldast í verði á 3-4 árum. Á Vesturlöndum og víðar er æ stærri hluti kornuppskerunnar settur í framleiðslu eldsneytis, sem hefur stuðlað að aukinni eftirspurn og miklum hækkunum á verði hveitis og annarra kornvara.
Svona er hægt að fara yfir línuna, hráefnisverð hefur hækkað gríðarlega á mörgum sviðum matvælaframleiðslunnar í heiminum. Þessar hækkanir hafa ekki enn dunið á neytendum af fullum krafti og því má enn búast við hækkunum á alls kyns unninni matvöru, auk ófyrirséðra hækkana annarra þátta framleiðslunnar. Að þessu sögðu er ljóst að matvælaverð á enn eftir að hækka í verði á Íslandi. Erlend aðföng munu hækka í verði og einungis von til þess að hlutir á borð við rafmagn, heita vatnið og framleiðsla sem byggir á íslensku hráefni nái að halda aftur af skriðu hækkana á næstunni. Að vísu er íslenskur landbúnaður ekki ónæmur fyrir hækkunum á erlendum aðföngum, hann reiðir sig m.a. á erlendan áburð, sem hefur margfaldast í verði á skömmum tíma.
Í ljósi ofangreindra staðreynda mun kólnun á fasteignamarkaði ekki halda aftur af hækkunum á lánavísitölunni og þar með lánunum. Á meðan fasteignir munu jafnvel lækka í verði er við búið að lánin hækki vegna hækkunar á hráefnisverði í heiminum og gengisaðlögunar íslensku krónunnar. Verði okkur öllum að góðu.
Matvæli hafa hækkað um 7 til 8% frá febrúar 2007 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.