Allt virðist stefna í öfuga átt

Í efnahagsumróti síðustu daga og vikna hefur ekki skort á fyrirsagnir í fjölmiðlum, alla vega ekki hér á mbl.is. Vísitölur hafa verið á hreyfingu, verdbréfavísitalan niður á við og aðrar upp á við, og gengið hefur fallið ört. Fyrirsagnirnar einar minna einna helst á stríðsástand og ekki að furða nema almenningi sé brugðið. Afkoma heimilinna er að veði, velgengni innflutningsfyrirtækja er ógnað og skuldsetningar í erlendri mynt gætu gert það að verkum að verðmæti sumra eigna dygðu ekki fyrir lánunum.

Verðbréf margra íslenskra fyrirtækja munu halda áfram að lækka, eins og ég vék að í pistli fyrr í vikunni en hvenær botninum verður náð veit enginn. Nú mun reyna á hvort fyrirtækin séu einhvers virði, hvort þau muni skila arði og hvert stefnir. Uppkaup verðbréfakónga á hlutabréfum til hækkunar tilheyra væntanlega sögunni til. Nú er eins gott að menn sýni fram á raunverulegan rekstur og haldbæran arð, sem felur m.a. ekki í sér gengishagnað eða annan tímabundinn pappírshagnað, eins og mál hafa þróast.

Fasteignalán í erlendri mynt hafa hækkað gríðarlega í íslenskum krónum síðustu vikurnar. Lán sem tekin voru seinni hluta ársins 2005 og stóran hluta ársins 2007 hafa hækkað um meira en helming. 12 milljóna króna lán í erlendri mynt frá þessum tíma er nú hærra en 18 milljónir íslenskar. Samsvarandi lán í íslenskri mynt frá árinu 2005 er nú um 14,5 milljónir og frá í fyrra um 13 milljónar. Erlend myntlán tekin fyrir 4 eða 5 árum síðan hafa hækkað minna eða um 25-35%, ekki ósvipað eða litlu meira en lán í íslenskum krónum.

Vitanlega hefur átt sér stað gríðarleg kaupmáttaraukning á sama tíma, sumpart vegna ofmetinnar krónu, sem hefur gert það að verkum að þjóðin hefur verið á eyðslufylleríi og látið alla skynsemi í peningamálum lönd og leið. Nú blasir við kjaraskerðing sem mun skekja fjárhagsgrunn margra heimila. Reyndar munu innflutningsaðilar einnig finna fyrir hinni gríðarlega hröðu gengisaðlögun, sem er jú líkari hruni, á meðan útflutningsgreinar munu hafa hag af. Væntanlega munu margir benda á að þær greinar hafi átt það inni, sérstaklega sjávarútvegurinn, sem hefur gengið í gegnum skerðingar. En almenningur mun finna fyrir kaupmáttarskerðingu á árinu, þrátt fyrir kauphækkanir, og ríkissjóður mun lenda í vandræðum með að slá á þá þróun.


mbl.is Heldur dró úr lækkun hlutabréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband