25.3.2008 | 09:15
Demókratar sjálfum sér verstir
Þær hafa verið ófáar fjaðrirnar, sem Hillary hefur reynt að skreyta sig með, og enn eitt skiptið verður hún uppvís að ýkjum og hálfum sannleik. Clinton hefur lagt ofuráherslu á að hún sé reyndari en Obama, sem eigi að vera henni í hag. Hins vegar þykir mörgum hún vera hluti þess stofnanaveldis, þeirrar valdamaskínu, sem margir vilja breyta í Washington. Um nokkurt skeið hefur Clinton verið óspör á að vísa í fundi og ráðagerðir, sem hún hafi tekið þátt í á meðan maðurinn hennar gegndi forsetaembættinu. Án þess að vilja gera lítið úr hennar hlutverki finnst mörgum sem forsetafrúin fyrrverandi sé farin að hrósa sér einum of sterklega.
Kannski er það í samræmi við það sem sumir hafa sagt, að Clinton þyki sem henni beri þessi titill, og Richardson staðfesti í ummælum sínum. Stuðningur ríkisstjórans frá New Mexico við Obama hefur farið fyrir brjóstið á mörgum stuðningsmönnum Clintons, þ.á.m. fréttaskýrandanum Carville, sem hefur ekki dregið í land með samlíkingu Richardson við Júdas. Baráttan harðnar á milli frambjóðandanna og margir eru uggandi yfir ímynd og velferð flokksins. Ætla Demókratar nú að uppfylla spádóminn um að eyðileggja fyrir sér möguleikana á sigri í haust með innbyrðis átökum? Alla vega er ljóst að McCain nýtur útsýnisins yfir til andstæðingsins þessa dagana.
Clinton sökuð um ýkjur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.