Furðusögur af Íslandi

Það er tímanna tákn að erlendir fréttamiðlar segi furðusögur af íslensku efnahagslífi. Í miðjum uppgangi síðustu ára kom það mörgum í opna skjöldu að svo lítið land gæti staðið að baki útrás upp á hundruðir milljarða króna. Af veikum mætti reyndu Íslendingar sjálfir að skilja stöðuna, bent var á inneignir lífeyrissjóða, gamla peninga sem lágu óhreyfðir í fyrrum ríkisbönkum og svo vitanlega áræðni íslenskra kaupahéðna. Í fyrstu þótti mörgum erlendis það góð saga að Íslendingar gerðu það gott í útlöndum en fljótlega var efasemdum stráð um uppruna þess fjár sem Íslendingar virtust hafa nóg af. Hér er vitanlega átt við hina s.k. frændur okkar í Skandinavíu, sem finnst sem eyjaskeggjar hafi skipt sér af hlutum sem þeir hafa ekki mikið vit á.

Í miðju efnahagsumróti þessa dagana hafa fjölmiðlar erlendis enn áhuga á stöðu mála en svo virðist sem tónninn breytist dag frá degi. Einn daginn er allt á leið í hundana, fjármálafyrirtækin rúin trausti, bankarnir á hausnum o.s.frv. Nú eru undirstöður íslensks efnahagslífs sagðar góðar, eins og reyndar hefur verið vikið að hér, bankarnir greinilega ekki lengur að hruni komnir og þrátt fyrir samdrátt sé óþarfi að óttast. Útlendingar eru ekki einir um að átta sig ekki á stöðunni. Hin leifturhraða aðlögun krónunnar kom mörgum á óvart og nú bíða menn spenntir eftir að sjá hvort um yfirskot hafi verið að ræða. Hins vegar er tilraun Seðlabankans nú til þess að hemja verðbólguna of dýru verði keypt. Hið háa vaxtastig mun ekki koma í veg fyrir skriðu verðlagshækkana, sem þegar er hafin.

Furðusögum af Íslandi mun ekki ljúka í bráð. Sérfræðingar hér heima virðast ekki átta sig á heildarmynd efnahagsmálanna, hver spáin á fætur annarri virðist út í bláinn, en flestir afar vitrir eftir á. Reyndar er þetta um margt skiljanlegt, íslenskt efnahagslíf hefur tekið miklum breytingum á ekki löngum tíma, tengingin við hið opna hagkerfi umheimsins reynir á smæð íslenska hagkerfisins og samspil ólíkra efnahagsþátta hefur ekki verið sem skyldi. Þensla undanfarinna ára hefur Seðlabankinn reynt að hemja með vaxtahækkunum sem hafa jafnhliða stuðlað að of hátt skráðu gengi, eða svo er sagt. Samfara auknum kaupmætti og um tíma afar góðu aðgegni að lánsfé hefur þorri landsmanna lifað um efni fram, í vissu um að gullkálfurinn myndi áfram færa þeim auknar bjargir.

Íslendingar standa frammi fyrir erfiðum kostum í efnahagsstjórninni. Mér hefur fundist að við ættum að láta verðbólguskot yfir okkur ganga til tess að koma mætti á stöðugleika á ný - nota sterka stöðu ríkissjóðs til þess að vernda þá sem fyrirsjáanlega yrðu illa úti og umfram allt sjá til þess að fasteignalánin hækkuðu ekki samhliða. Aðgerð af þessu tagi gæti ekki orðið árangursrík án þátttöku hagsmunaaðila vinnumarkaðarins og samvinnu á mörgum sviðum en með samhentu átaki væri hægt að leggja núverandi umrót að baki á skömmum tíma í stað þess að draga vandræðin á langinn og sá óvissu til margra ára, s.s. með skammtalækningum Seðlabankans.


mbl.is Fjármálakreppa ekki endilega fylgifiskur samdráttar á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband