Verkefni næstu ára snúast um að nýta auðlindir manns og náttúru.

Orsakir hrunsins liggja að nokkru fyrir. Ljóst er að ráðamenn og embættismenn sinntu ekki þeim varnaðarorðum sem uppi voru höfð, hvort sem litið er til höfunda þessarar skýrslu eða úr öðrum áttum. Hið sama á við um allan heim. Sama hvert litið er voru ráðamenn og ekki síst fjölmiðlar tregir til þess að hætta dansinum í kringum gullkálfinn. Ef sérfræðingar voru fengnir til þess að segja aðra sögu en þá sem flestir vildu hlusta á, var annað hvort hlegið að þeim eða þeir afgreiddir sem úrtölumenn og sérvitringar. Við þekkjum þetta einnig hér heima. Segja má að greiningardeildir bankanna hafi verið sá viskubrunnur sem fjölmiðlarnir sóttu hvað mest í og þjóðin var leidd áfram á asnaeyrunum í trú sinni á ævintýrið.

Stjórnvöldum var að nokkru vorkunn. Þau treystu á embættismenn og regluverk sem brást. Mannlegt eðli sá um það sem upp á vantaði til þess að ekkert skyggði á þá glansmynd, sem teiknuð var af ástandinu. Íslenska þjóðin tók vissulega þátt í gleðinni en henni verður ekki kennt um stærð hrunsins. Þar liggur sökin hjá afvegaleiddum auðmönnum og því regluverki (eða skorti þar á) sem gerði þeim kleift að steypa þjóðina í stærri skuld en þekkist á byggðu bóli. Það er sá reikningur sem hvílir á skattborgunum þessa lands um ókomin ár. Sú skuld verður ekki umflúin, hvað sem allri umræðu um ESB aðild líður, eða leit að sökudólgum á vettvangi stjórnsýslunnar eða viðskiptanna.

Verkefni næstu ára mun snúast um að greiða niður skuldir þjóðarbúsins. Í ofanálag kallar þjóðin eftir uppstokkun á fjölmörgum sviðum og suma dreymir jafnvel um betra Ísland. Sá draumur er í sjálfu sér ágætur og þarfur en hvað sem líður því markmiði er ljóst að álögur á allan almenning munu stóraukast á næstu árum, samfara samdrætti í velferðarþjónustunni. Hinir tekjuhærri munu bera stærstu skattbyrðarnar en sérhver byrði, þó lítil sé, mun einnig snerta hina tekjuminni. Þeir hafa jú úr minnu að moða. Fyrst og fremst mun reyna á að auka hér þjóðartekjur, sem eins og öllum má ljóst vera gerist ekki nema í gegnum auknar útflutningstekjur. Án þess mun þjóðin horfa framan í erfiðari tíma en hún getur ef til vill þolað. Öðrum kosti mun stór hluti þjóðarinnar sjá sæng sína útbreidda og flytja af landi brott.

Hvað umheiminn varðar er allt útlit fyrir að heimskreppa sé skollin á. Lengd hennar og dýpt er óráðin enn og hagur Íslands mun taka mið af þessu umhverfi. Íslendingar selja dýrar vörur og bjóða upp á dýra þjónustu. Þess sjást nú þegar merki að okkar dýru fiskafurðir seljist ekki jafn vel og áður. Samdráttur á alþjóðavísu mun og minnka orkueftirspurn, sem fækkar kostum okkar til orkusölu til m.a. iðnaðar. Það mun því reyna enn meir á okkur að finna not fyrir náttúruauðlindir okkar svo þær haldi áfram að færa björg í bú. Hugvitið er sú uppspretta sem við munum þurfa að sækja meira í í náinni framtíð. Leita verður allra leiða til þess að hagnýta þá auðlind til þess að áfram megi verða fýsilegt að búa í þessu landi, ásamt því að efla viðskipti við allan umheiminn, ekki einungis hina öldnu Evrópu.


mbl.is Seðlabankinn varaður við í júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband