28.1.2009 | 10:06
Hækkun lífsnauðsynja heldur uppi hækkun fasteignalána
Það er að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um áhrif vísitölu neysluverðs á húsnæðislán heimilanna. Þau þekkja flestir Íslendingar á eigin skinni. Sumir hafa farið fram á að aftengja með öllu þessi áhrif, sem í mínum huga er enn meira glapræði en það hvernig verðbólgan hækkar lánin. Það yrði óðs manns æði að búa svo um hnútana að lánveitendur sæju ekki hag í því að lána til húsnæðiskaupa. Slíkt fyrirkomulag var m.a. við lýði á Íslandi fyrir tíma vísitölutenginga og stuðlaði að þjófnaði á sparnaði landsmanna og beinlínis hefti fjárfestingu.
Yfirvöld horfa nú fram á að fjölmörg heimili sjái ekki hag í því að greiða af fasteignalánum sínum. Þetta á aðallega við um heimili sem hafa s.k. myntkörfulán. Hins vegar er nokkur fjöldi heimila sem hefur séð lán sín í íslenskum krónum hækka umfram lækkað verðgildi fasteigna sinna. Flestir geta enn greitt af þessum lánum en vegna þess hve margir hafa spennt bogann hátt stefnir í óefni hjá sömu aðilum. Með auknu atvinnuleysi og minnkandi tekjum heimila mun sá hópur stækka sem einfaldlega getur ekki greitt af fasteignalánum sínum.
Til þess að koma til móts við þennan alvarlega vanda þurfa yfirvöld að taka tillit til ólíkra og andstæðra sjónarmiða. Ljóst er að tímabundin aftenging vísitölu og fasteignalána hlýtur að vera valkostur. Tjón, sem lánveitendur yrðu fyrir, vegna þessa, yrði mögulega minna en ef handhafar fasteignalána þyrftu að leysa til sín fjölda fasteigna - hvers verðmæti stefndi niður á við. Efnahagsreikningur lánastofnana gæti allt eins skaðast meira með því móti - þar með ríkið (skattgreiðendur) og lífeyrissjóðirnir.
Að auki má huga að breytingu kerfisins til langframa. Sumir hafa t.d. bent á vísitölu fasteignaverðs, sem ætti að stýra vísitölu fasteignalána. Ég skal ekki dæma um ágæti slíks en víst er að eitthvað þarf að gera til þess að afstýra afleiðingum núverandi ástands. Hvað fráfarandi ríkisstjórn hafði í burðarliðnum um þessi atriði mun ekki koma í ljós en verðandi ríkisstjórn getur ekki beðið lengi eftir að takast á við þennan bráðavanda fjölmargra heimila í landinu.
Verðbólgan 18,6% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það sem verra er, að verðbreytingarfærslan sem kemur núna um mánaðarmótin er samkvæmt verðbólgumælingunni í desember. Við þurfum því enn að bíða í mánuð áður en janúarmælingin kemur fram.
Marinó G. Njálsson, 28.1.2009 kl. 10:34
Rétt hjá þér Marinó - en hvað er til ráða? Hvað getum við gert til þess að ýta undir alvarlega umræðu um úrbætur í þessum efnum? Er hægt að stuðla að vettvangi til þess, sem yfirvöld gætu tekið mark á? Ekki hefur heyrst mikið frá verkalýðshreyfingunni né ýmsum öðrum hagsmunasamtökum um þessi mál. Fjölmiðlar eru uppfullir af hráskinnaleik stjórnmálanna og sinna þessu lítið og ráðuneyti félags- og fjármála hafa ekkert látið uppi.
Ólafur Als, 28.1.2009 kl. 11:19
Það þarf náttúrulega að taka verðtrygginguna úr umferð. Ég hef lagt til að sett verði þak á verðtrygginguna við t.d. 4% fyrir 2008 og 2009, þá verði þakið fært niður í 2,5% á ári til 2012 og eftir það verði hún afnumin. Einnig þarf að setja þak á vexti húsnæðislána, þ.e. fara dönsku leiðina. Loks þarf að setja þak á alla vexti af lánum, en ekki verði settar neinar hömlur á vexti innlána enda reikna ég með að fjármálafyrirtækin ráði við það sjálf.
Marinó G. Njálsson, 28.1.2009 kl. 12:10
Hver á svo að vilja lána við þessi skilyrði?
Í mínum huga er verðtryggingin sjálf ekki vandamálið, ekki frekar en hitamælir sem mælir hitastig. Það er beyting vísitalna í innbyrðis útreikningum, sem ég tel þurfa að skoða á nýjan leik. Danska leið kannast ég ekki við en þar hafa vextir á húsnæðislánum t.d. ekki verið lægri en í Noregi og reyndar nokkuð hærri en í Svíþjóð.
Hvað um það, hér þarf að takast á við tvenns konar vanda: annars vegar til bráðabirgða, sem bjargar heimilum úr bráðavanda en skerðir ekki hag lánveitenda um of og hins vegar að huga að fyrirkomulagi til frambúðar.
Ólafur Als, 28.1.2009 kl. 13:08
Jú, verðtryggingin er vandamálið vegna þess að hún er jú ekkert annað en öruggar vaxtatekjur fjármagnseigandans. Auk þess hefur komið í ljós að verðbætur hafa verið ofreiknaðar um 0,5 - 2% samkvæmt útreikningum Seðlabankans. Það þýðir ofteknar verðbætur um allt af 50% á 20 árum!
Annað vandamál við verðtrygginguna er ógagnsæjið og óvissan. Fólk sem tekur lán hefur ekki hugmynd um hvað það þarf að greiða eftir 2 ár, 5 ár eða 20 ár.
Marinó G. Njálsson, 28.1.2009 kl. 14:54
Marinó, nú er ég hissa. Verðtrygging er ekki vaxtatekjur. Þetta átt þú að vita.
Þú reyndar kemur inn á það sem skiptir máli - og ég hef minnst á áður - en það er hvernig vísitalan er reiknuð og hvernig henni er beitt. Vísitalan er hitamælir á verðgildi peninganna og ef verðbætur hafa verið ofreiknaðar, eins og þú segir, er nauðsynlegt að bæta mælinguna. Laga hitamælinn.
Víða erlendis, þar sem vextir eru fastsettir á hverjum tíma, eru þeir jafnframt breytilegir. Hins vegar buðust m.a. í Danmörku í fyrsta sinn, að ég held, frá og með 2007/2008 að verja sig gegn vaxtahækkunum húsnæðislána með sérstöku vaxtaálagi. Það kostar því sitt að eyða slíkri óvissu - lánveitandi og lántakandi deila áhættunni að einhverju leyti. Ætli lánastofnanir, danskar, hafi þó ekki reiknað sér litla sem enga áhættu, að vaxtaálaginu gefnu.
Eftir stendur að smíða kerfi sem tryggir lánveitendum hag sinn - öðrum kosti bjóðast engin lán. Allir halda að sér höndum. Svo einfalt er það. Við núverandi ástand kann það að vera í hag lánveitenda að taka á sig tap, til þess að forðast enn stærra áfalli í formi gjaldþrotahrinu heimilanna. Að því loknu - gefum okkur að einhvers konar lausn fáist á því bráðavandamáli sem mörg heilmili glíma við nú - þarf að smíða kerfi til frambúðar sem tryggir hag lánveitenda og lánþega í opnum viðskiptum.
Ólafur Als, 28.1.2009 kl. 15:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.