17.2.2009 | 23:02
Bandaríkin munu ná sér á strik, þrátt fyrir þessar aðgerðir!
Góð ráð eru dýr þessa dagana. Í hverju vestrænu ríki á fætur öðru er tekist á við kreppuna með sértækum og kostnaðarsömum ráðum hins opinbera. Björgunaraðgerðir Bush stjórnarinnar beindust aðallega að björgun fjármálakerfisins, m.a. með yfirtöku slæmra húsnæðislána. Með komu nýs forseta hefur nú verið sett saman ný áætlun, sem ætlað er að blása lífi í bandarískan efnahag. Ef menn kjósa, er hægt að líkja þessari áætlun við New Deal Roosevelts forseta á fjórða áratugnum, en flestir hagfræðingar eru sammála um að sú áætlun hafði lítil sem engin áhrif á kreppuna þá. Hættan nú er sú að áætlun Obama stjórnarinnar muni litlu skila en á endanum auka á skattbyrðina. Ríkisskuldir Bandaríkjanna eru nú þegar orðnar stjarnfræðilega háar.
Margir hagfræðingar benda á nauðsyn þess að láta illa rekin fyrirtæki fara á hausinn, til þess að rýma fyrir betur reknum fyrirtækjum. Slík hugsun er hins vegar stjórnmálamönnum óásættanleg. Aðgerðir alríkisstjórnarinnar í Washington munu alveg örugglega hægja á því sem kalla mætti "eðlilega" og nauðsynlega endurnýjun til framtíðar. Hún festir peninga í efnahagslegar plástursaðgerðir í stað þess að opna leiðir til endurnýjunar og nýs vaxtar. Í raun má segja að þessi áætlun hefti það að þau öfl markaðarins sem þó eru á hreyfingu geti fundið nýjar leiðir og nýjan vettvang til þess að byggja upp ný fyrirtæki og skapað ný störf.
Aðgerðirnar í Evrópu gætu skilað betri árangri. Evrópa hefur heldur ekki efni á mistökum í ljósi þess hve kreppan mun leika hana illa. Efnahagur Evrópu er mun verr staddur en í Bandaríkjunum og grunnþættir efnahagsins í miklu verra standi. Áform ESB frá árinu 2000 um að sambandið yrði orðið fremsta efnahagssvæði heimsins árið 2010 eru á þessari stundu enn fjarlægari en við aldamótin. Bandarískt efnahagslíf er dínamískara en það evrópska og því mun efnahagurinn taka fyrr við sér þar, þrátt fyrir bjargráðaáætlun Obama-stjórnarinnar. Það mun reyna verulega á hina feysknu efnahagslegu innviði Evrópu á næstu árum. Það getur varla talist ráðlegt að Ísland fari í ástarsamband við Evrópusambandið við þessar aðstæður.
Obama staðfestir aðgerðaráætlun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góð grein hjá þér..
TARA, 17.2.2009 kl. 23:56
Well thought out 'Olafur.......Makes sense......
Fair Play (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 00:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.