Mun stríðsöxin verða grafin í samskiptum þjóðanna?

Þetta veit vonandi á gott. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að Bandaríkin ættu að losa um viðskiptahömlur gagnvart Kúbu og opna fyrir stjórnmálasamband á ný. Ekki svo að skilja að með því ættu menn að leggja blessun sína yfir alræðisstjórnina í Havana. Um langan aldur hafa stjórnvöld í Washington séð yfirvöld þar í réttara ljósi en margir í V-Evrópu. Hér rómantísera menn enn byltinguna og ganga um í Che Guevara bolum, með myndir af manninum sem skipulagði fangabúðir fyrir grunaða andstæðinga byltingarinnar á sínum tíma.

Aukin viðskipti og velmegun munu kalla eftir umbótum á stjórnmálasviðinu. Þetta hefur sagan sýnt okkur víðast hvar. Þegar almenningur á Kúbu kemst í nánara samband við umheiminn mun hann gera kröfu um aukin lýð- og mannréttindi. Fidel Castro getur ekki að eilífu haldið þjóð sinni við kúgun, heilaþvott og sjálfsupphafningu hins mikla byltingarforingja. Breytir þar engu þó svo að bróðirinn, Raul, sé tekinn við völdum. Byltingin hefur fyrir löngu étið börnin sín og það er kominn tími til þess að Kúbumenn og Bandaríkjamenn efli með sér viðskipti og samvinnu til framtíðar, báðum til hagsbóta.


mbl.is Kúbustefnan verði endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Ætla það sé ekki bara svo að menn almennt sjá hlutina í réttara ljósi ef þeir eru nær manni þrátt fyrir alla nútíma samskiptatækni. Við Evrópubúar sjáum til dæmis hið grimma hernámsveldi Ísrael í mun réttara ljósi en Bandaríkjamenn.

Hvað varðar þetta langa viðskiptabann á Kúbu þá hefur það meira að gera með þjóðnýtingu á eignum bandarískra auðkýfinga á Kúbu eftir byltinguna heldur en harðstjórn Kastrós. Enda er það svo að Bandaríkjamenn hafa haft ágætis samskipti við mun verri stjórnvöld en á Kúbu þar með talið í suður og mið Ameríku. Eða ætlar þú kanski að halda því fram að herforingjastjórnirnar i Chile eða Argentínu hafi verið eitthvað skárri en byltingastjórnin á Kúbu.

Sigurður M Grétarsson, 23.2.2009 kl. 09:23

2 Smámynd: Ólafur Als

Það sem virðist standa upp úr í mínum pistli í þínum augum er pillan gagnvart Evrópubúum, um að þeir sjái byltinguna á Kúbu í rósrauðu goðsagnaljósi. Jafnframt verður þú að hnýta í Bandaríkjamenn af því að þeir hafi ekki verið sjálfum sér samkvæmir í viðskiptum sínum við alls kyns grimmdarstjórnir - en minnist ekki einu orði á ógnarstjórnina á Kúbu!

Öll stjórnvöld, íslensk sem önnur, hafa samskipti við alls kyns stjórnarherra. Hve oft hafa ekki íslenskir stjórnmálamenn mært t.d. kínversk stjórnvöld, en ekki þarf að telja upp þau mannréttingdabrot og kúgun sem fer þar fram - að ekki sé nú talað um meðferðina á Tíbetbúum. Við ættum e.t.v. öll að fagna því að Obama stjórnin hefur lagt til hliðar þrýsting á kínversk stjórnvöld um aukin mannréttindi í Kína og segja sem svo að Bandaríkjamenn hafi lært af reynslunni - að þeir mættu t.d. skoða í eigin barm, blessaðir. Ætli mannréttindafrömuður þarlendir, flestir fangelsaðir, séu því sammála?

Það er gott að þú þekkir sögu viðskiptabannsins og því hve vel því hefur verið við haldið. Sem sagt, það hefur ekkert með hugmyndafræðilegan ágreining að gera eða því að á Kúbu hefur verið ógnarstjórn í hart nær hálfa öld.  Ef til vill væri nær lagi að greina betur frá fangabúðunum sem læknirinn Che skipulagði og því hvernig farið með þær þúsundir fanga sem þar lentu. Það væri líklegast ágætis lesning fyrir suma sem vilja nú á dögum kalla sig byltingarsinnaða eða kjósa að sjá heiminn með sínum rósrauðu gleraugum.

Munurinn á herforingjastjórnunum í S-Ameríku og byltingarstjórninni á Kúbu er vitanlega sá að þær eru ekki lengur við lýði. Á Kúbu eru enn við stjórnvölinn menn sem kalla eftir fórnum almennings á nær flestum sviðum mannlífsins til þess að fóðra hinn blóðþyrsta þurs byltingarinnar. Þar eru menn enn fangelsaðir og pyntaðir fyrir skoðanir sínar, jafnvel drepnir. Óþarfi er að fara í frekari upptalningu á því ógnarástandi, sem hin geðuga þjóð þarf að búa við og með heilaþvotti hefur tekist að halda á mottunni öll þessi ár.

Ólafur Als, 23.2.2009 kl. 10:55

3 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Ég er ekki að mæra stjórnvöld á Kúbu með þessum orðum mínum. Ég er hins vegar að segja að meðan Bandaríkjamenn hafa góð samskipti við aðila, sem eru síst skárri en stjórnvöld á Kúbu, til dæmis Kínverja eins og þú bendir réttilega á, þá getur hver, sem er sagt sér það að ástæða viðskiptabannsins er ekki ógnarstjórnin á Kúbu. Það er aðeins fyrisláttur.

Sigurður M Grétarsson, 23.2.2009 kl. 15:35

4 Smámynd: Ólafur Als

Ertu ósáttur, Sigurður, vegna þess að Bandaríkjamenn eru ekki eins við alla? Myndirðu t.d. finna að því ef ekkert væri aðhafst gagnvart stjórnvölum á Kúbu? Reyndar lít ég svo á að þú berir blak af stjórnvöldum á Kúbu með skrifum þínum. Vandlæting þín í garð Bandaríkjamanna og þarlendra stjórnvalda er ímugust þinni á stjórninni í Havana yfirsterkari - öðrum kosti hefðir þú vitanlega kallað eftir að Bandaríkjamenn og aðrar lýðræðisþjóðir héldu uppi þrýstingi á gerræðisstjórnir um heim allan í stað þess að finna að viðskiptaþvingununum vegna þess að þeim væri ekki beitt alls staðar.

Ólafur Als, 23.2.2009 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband