Vinstri menn vita ekki hvað frjálshyggja er

Um samfélagið enduróma orð í þá veru að frjálshyggjan sé dauð, sérstaklega þessi nýja. Flestir sem þannig tala enduróma reiði og vonbrigði sína yfir ástandinu með keyptum frösum frá vinstri mönnum. Jafnvel frjálslyndir jafnaðarmenn tala á þessum nótum, og hefði maður e.t.v. haldið að þeir vissu betur. En verst er þó, þegar hægri menn gera sér dælt við þessar úthrópanir, sem er ávísun á að þeir þekkja ekki nægilega bakgrunn sinna hugmynda.

Til þess að forðast allan misskilning, þá er vert að geta þess að allir menn eru í senn frjálshyggjumenn og félagshyggjumenn - það er í raun einungis spurning um hlutfallslegan stuðning hvers og eins við þessar ólíkindasystur; félags og frelsis. Ef vel á að vera ætti að kalla þær stjúpsystur. Í hinu pólitíska litrófi takast þessi tvö öfl á innra með okkur og ef illa gengur að gera annarri hvorri betur skil, er líklegt að viðkomandi kalli sig jafnaðarmann.

Grunnurinn að baki stjórnarskrám vesturlanda er sóttur aðallega í frjálshyggju en eftir því sem árin hafa liðið hafa breytingar á þeim tekið meira mið af félagshyggju. Án frjálshyggju væri athafnafrelsi einstaklingsins einskis vert, eins er með eignaréttinn, mál- og fundafrelsi o.m.fl. Grunnréttindi okkar byggjast á þeirri hyggju, að vernda rétt einstaklingsins fyrir ofríki hins miðlæga valds. Ef nánar er skoðað er ljóst að frjálshyggja er svo inngreipt í vitund okkar og líf að mörg okkar átta sig ekki lengur á inntaki orðanna.

Á þetta spila margir vinstri menn en andúð sumra þeirra á frelsishugtakinu er slík að þeir telja ekki eftir sér að fara með blekkingar og lygar. Þeirra von er að þeir geti viðhaldið þessari lygi sem allra lengst, svo þeir geti sett sitt mark á samfélagið. 

Ein rökvilla vinstri manna er að benda í sífellu á að hér hafi í raun verið iðkaður ríkisstyrktur kapitalismi, einkavinavæðing o.s.frv. Hvort sem sú greining er að einhverju leyti rétt eða ekki, þá eiga þessi fyrirbæri lítið skylt við frjálshyggju, eins og geta má nærri. En það skiptir ekki nokkru máli í huga vinstri aflanna - frjálshyggja skal það samt heita! Þannig er blekkingin í raun fullkomin, hún hefur hringað sjálfa sig. Líkt og hundurinn sem eltir skottið á sjálfum sér, er íslensk þjóð áttavillt á meðan hún hlustar á blekkingarnar frá vinstri - en það kemur að því að hún áttar sig á að einungis með frelsishug mun henni takast að vinna sig út úr vanda liðandi stundar.


mbl.is Hér var ekki hörð frjálshyggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórarinn Sigurðsson

Vel mælt.

Þórarinn Sigurðsson, 3.3.2009 kl. 17:35

2 identicon

Það sem hér var gert, var alla vega gert í nafni frjálshyggju og af frjálshyggjumönnum. Hannes Hólmsteinn fagnaði þessu allan tímann og sagði okkur að þetta væri frjálshyggjan í framkvæmd.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 17:53

3 Smámynd: Ólafur Als

Sveinn, fjölmargt var hér gert í nafni frjálshyggju, s.s. einkavæðing bankanna. En hvernig var staðið að því var ekki í anda hennar. Svona getum við eflaust farið yfir sviðið og þá birtist okkur allt önnur mynd, en sú sem verið er að selja okkur þessa dagana.

Hvað Hannes varðar, þá verður nú að segjast eins og er, að þrátt fyrir margt gott sem hann hefur sagt þá sannaðist á hann hans eigin varnaðarorð um það að valdið spillir. Þannig verður þetta stundum þegar menn handleika valdið, að þeir telja sig vita betur en aðrir, treysta einungis sjálfum sér - og þá er voðinn vís og í skjóli slíks vill spilling ágerast. 

Ólafur Als, 3.3.2009 kl. 23:30

4 identicon

Úr því að Hannes sjálfur ruglaðist svona á því hvernig frjálshyggjan á að vera, hvernig á þá hinn almenni borgari að geta séð þetta? Hannes er jú aðal frjálshyggjugúrúinn.

Eða er þetta bara eftiráspeki, að tala núna um að hér hafi ekki verið frjálshyggja?

Af hverju hafði enginn frjálshyggjumaður sig í frami þegar þessi vitleysa var framkvæmd, og benti á að þetta væri ekki rétt frjálshyggja?

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 14:07

5 Smámynd: Ólafur Als

Ég lít miklu fremur á það sem eftiráspeki að vilja klína öllum mistökunum á frelsishyggju. Það hafa einmitt frjálshyggjumenn komið fram á síðustu misserum úti í hinum stóra heimi og bent á ýmislegt sem misfarist hefur við efnahagsstjórnina, á þá var ekki hlustað og jafnvel gert grín að þeim. Það hefur heldur betur breyst að undanförnu.

Ísland er dálítið sér á báti - sumar vitleysurnar, sumt bruðlið og mörg spillingin var mönnum ekki vel ljós. Án þess að fara ofan í saumana á því er ljóst að á Íslandi byggðist upp spilaborg sem þrátt fyrir ýmsar aðvaranir, enginn gerði sér grein fyrir að var jafn innihaldslaus og sýndi sig. Eini aðilinn sem mögulega hafði grun um slíkt var Seðlabankinn, auk hinna gerspilltu og siðlausu stjórnenda og eigenda bankanna vitanlega. Þeirra glæpur var vitanlega að reyna með öllum siðlausum og mögulega ólöglegum ráðum að breiða yfir vitleysuna, allt frá árinu 2006. Það tókst ekki betur en svo að nú þarf þjóðin að greiða fyrir verk þessara manna með skattfé sínu til margra ára, jafnvel áratuga.

Að öðru leyti verður maður þó að þakka fyrir að ríkissjóður stóð vel, ólíkt því sem er/var í flestum öðrum ríkjum, sem gerir það að verkum að þessi skellur ríður okkur ekki að fullu. Nú þarf þjóðin að lyfta grettistaka og víst er, að ef dugur og áræðni einstaklinga verður ekki virkjaður mun ríkisrekinn og verndaður kapítalismi auðlindanna ekki duga til þess að koma Íslandi í fremstu röð velmegunarþjóða.

Ólafur Als, 4.3.2009 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband