Ábyrgðin liggur að mestu hjá viðskiptabönkunum

Það er all margir sem segja að stjórnvöld hafi átt að grípa til aðgerða í ljósi stöðu bankanna þegar inn á árið 2008 var komið. Frá því síðla árs 2007 var orðið nokkuð ljóst að það voru verulegir brestir komnir í uppbyggingu bankanna - fyrir þá sem voru innanborðs í bönkunum var ljóst að spilaborgin sem þeir höfðu sett upp var að hrynja. Þeir byggðu útþensluna á ódýru lánsfé og þegar sá brunnur var að þorna upp voru góð ráð dýr. Þessu gerði Seðlabankinn sér að nokkru grein fyrir - og eflaust fleiri - og reyndi af veikum mætti vara stjórnvöld við ástandinu.

Viðvaranir seðlabankans hefðu reyndar átt að ýta undir að hann gripi til aðgerða sem stóðu honum næst en einhverra hluta vegna hafði seðlabankann ekki viljað notfæra sér leyfi til aukinnar bindiskyldu á það gríðarlega innstreymi fjár í bankana erlendis frá, auk annarra aðgerða sem bankanum stóð og stendur til boða til þess að hægja á útþenslu viðskiptabankanna. Að auki stóð seðlabankinn í veg fyrir að viðskiptabankarnir gerðu sitt bókhald upp í erlendri mynt, sem hefði gert bönkunum auðveldara fyrir að koma böndum á sín mál en hefði aldrei komið í veg fyrir hrunið eins og málum var háttað.

Íslensk stjórnvöld virðast ekki hafa tekið mark á viðvörunarbjöllum seðlabankans, né annarra, sem glumdu allt í kringum þau. Þrátt fyrir aðvaranir sérfræðinga hér heima og erlendis fór ríkisstjórnin í áráðursferðir fyrir bankana á erlenda grund, til þess að sannfæra umheiminn um styrk og ágæti íslenska fjármálakerfisins. Þeim var að vísu nokkur vorkunn, því viðskiptabankarnir höfðu sannfært þau um að allt væri í himnalagi, en hví í ósköpunum Geir og Ingibjörg létu hafa sig í að mæta á blaðamannafundi fyrir viðskiptabankana er mér ráðgáta. Var ekki nóg að forsetinn léti hafa sig í kampavínsferðir með útrásarvíkingum, þurftu stjórnmálamennirnir einnig að baða sig í skini glópagullsins?

Helstu stjórnendum viðskiptabankanna var staðan ljós síðla árs 2007. Landsbankinn fór m.a. þá leið að lokka til sín sparifé Breta, Hollendinga og Þjóðverja og voru með plön um að fara víðar. Á annað ár reyndu viðskiptabankarnir með öllum ráðum að fela hve illa var fyrir komið hjá þeim. Með góðri hjálp seðlabankans, sem hafði með hávaxtastefnu sinni styrkt íslensku krónuna, gátu bankarnir bætt efnahagsreikninginn hjá sér tímabundið með því að nauðga krónunni og sjá til þess að hún rynni á hausinn með miklum hvelli. Þegar komið var fram á sumarmánuði síðasta árs var staðan orðin það slæm að fall Lehman bankans var nóg til þess að bankakerfið hrundi á skömmum tíma.

Ef ríkið hefði ekki tekið yfir bankana hefði farið enn verr en ella. Greiðslukerfi bankanna var hægt að halda til haga en menn geta rétt ímyndað sér hvernig hefði farið ef það hefði hrunið. Samfélagið hefði því sem næst lamast og stutt í almenna upplausn og jafnvel þaðan af verra. Lögin sem heimiluðu þessa yfirtöku voru því sannarlega neyðarlög. Þrátt fyrir mikla örðugleika í milliríkjaviðskiptum, að ekki sé nú talað um lögleysuna sem Bretar beyttu okkur, tókst að viðhalda eðlilegum bankaviðskiptum innanlands og seðlabankinn gerði hvað hann gat til þess að halda uppi fjárstreymi inn og útúr landinu. Þessar aðgerðir afstýrðu því að allt færi hér í kalda kol.

Hvað sem segja má um aðgerðaleysi yfirvalda og þeirra stofnana sem áttu að sinna eftirliti og hafa umsjón með peningamálastefnunni, þá má ljóst vera að viðskiptabankarnir fóru fram með algerlega óábyrgum hætti, allt fram að hruninu. Enn í dag eru stjórnendur bankanna að bera af sér blak og vilja ekkert kannast við sitt framferði, sitt vonda siðferði, hvað þá að biðjast velvirðingar á því að hafa svikið viðskiptavini sína, eigendur suma, yfirvöld og reyndar þjóðina alla. Svo kann að fara að þeir verði ekki sóttir til saka fyrir það hvernig fór en víst er að fall þessara manna og bankanna má ekki verða til þess að þjóðin missi móðinn og trúi ekki á að hægt verði að byggja upp glæsilega framtíð á ný.


mbl.is Stefndu fjármálalífinu í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Als

Steingrímur, ég lít svo á að ábyrgðin sé margra en að stjórnendur bankanna hafa brugðið svo á leik innan ramma þeirra leikreglna sem voru hér við lýði að það var erfitt að henda reiður á allan þann gjörning sem leiddi til hrunsins. Ég lít alls ekki svo á að sagt hafi verið við menn: gjörið svo vel og leikið ykkur ... og gerið það sem ykkur sýnist. Vitanlega hvílir á hverjum manni sú skylda að starfa innan ramma laga og siðferðis - og er ekki ljóst að sumir fóru út fyrir þann ramma? Við lokum ekki götunum þó svo að sumir keyri ólöglega - eða bönnum öllum að keyra til þess að forða slysum, svo ég fari nú út í samlíkingar. Er ekki ávallt hægt að finna einhverja sem hentar manns málstað?

Annars var stór hluti þjóðarinnar hluti af óráðsíunni og ég get ekki tekið undir með þér að stjórnvöld hafi beinlínis hvatt einstaklinga og fjölskyldur til ofurfjárfestinga í húsnæði og bílum. Ábyrgð einstaklinga verður að vera grunnhugsunin áður en lengra er haldið, þó svo að hér hafi verið haldið að fólki falskri kaupgetu m.a. í formi of hás gengis - en það forvitnilega er að við vissum öll að gengið var of hátt skráð - ég þekki alla vega tvo sem tóku lán og gerðu beinlínis ráð fyrir að gengið myndi falla og þeir voru tilbúnir til þess að fara þá leið, þó svo að ég benti þeim á að taka húsnæðislánin í íslenskum krónum.

Sökin liggur vitanlega víðar. Eitt af því sem lítið hefur verið rætt eru þær nýju bókhaldsreglur sem hafa tekið yfir eldri og varfærnari leiðir í bókhaldsskilum fyrirtækja. Þar munu menn þurfa að gera bragarbót á til framtíðar. Annað og afar stór þáttur tel ég vera fjölmiðlaeign Baugsveldisins, sem að mínu vita tókst að kaupa sig frá harðari dómi í hæstarétti Íslands. Ég hef það frá höfundinum, Óla Birni, að hann muni á næstunni gefa út bók sem sýni klárlega hvernig dómstólar hafa brugðist í veigamiklum málum, sem m.a. snúa að auðmönnunum - það gefur augaleið að ef auðmenn geta haft áhrif á dómstóla með beinum og óbeinum hætti - m.a. í skjóli auðs síns (hefur ekki m.a. verið gagnrýnt hér hvernig auðmenn, sérstaklega í USA, hafa getað í öðrum löndum komið sér undan sakfellingum í skjóli auðs) - þá er leiðin greiðari fyrir afbrot að öðru leyti. Ég þykist þess fullviss að hér hafi menn talið sig hafna yfir lög og rétt í sumum málum og með þeim hætti hafi slælegt viðskiptasiðferði fengið að grassera á mörkum laga og réttar um árabil.

Fleir mætti til telja en læt þetta duga í bili enda orðið nokkuð langt. En ég skil þitt sjónarmið, Steingrímur, þó svo að ég deili því ekki alfarið með þér. 

Ólafur Als, 23.3.2009 kl. 21:58

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Bendi á afar gott viðtal við Þór Saari í dag í Zetunni á mbl.is http://www.mbl.is/mm/frettir/kosningar/2009/03/23/thor_saari_i_zetunni

Þetta mál ber að rannsaka sem sakamál

Baldvin Jónsson, 24.3.2009 kl. 01:29

3 Smámynd: Ólafur Als

það eru til lög sem banna ýmislegt það sem t.d. fjallað var um í Baugsmálinu en vegna þess hve það er stundum almennt orðað - eins og til dæmis sú regla í umferðarlögum að menn skuli keyra eftir aðstæðum - var allur vafi dæmdur þeim ákærða í hlut og þar með skapað fordæmi til frambúðar. Það er grafalvarlegt mál að svona fór og mun til nokkurrar framtíðar binda hendur rannsóknaraðila OG eftirlitsaðila.

Ólafur Als, 24.3.2009 kl. 09:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband