Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
1.12.2009 | 13:42
Saklaust fórnarlamb?
Þetta kemur varla nokkrum manni á óvart. Fyrri störf Finns, sem gerðu honum kleift að taka við stóli bankastjóra Kaupþings áður en uppvíst varð um tiltekna starfsemi Icebank, hafa nú leitt enn betur í ljós að hann var verkfæri í höndum stóru bankanna í viðleitni þeirra til þess að verða sér úti um fé frá Seðlabankanum. Í raun hefði Finnur átt að vera búinn að segja af sér fyrir nokkru - en gott og vel. Um manninn hef ég lítið að segja, hann kemur ekki illa fyrir og ef til vill er hann haukur í horni og hvaðeina annað sem góðan bankastjórnanda á að prýða, nema þá helst að hann sá ekki fyrir að hann var leiksoppur stóru bankanna.
Það er erfitt að trúa á algert sakleysi manns sem var í svo stóru hlutverki í þeirri svikamyllu sem stýrt var af stjórnendum stóru bankanna - en þó ekki ómögulegt. Ýmisir háttsettir aðilar innan bankanna voru búnir að gera sér grein fyrir þeirri alls herjar svikamyllu sem fór af stað löngu, löngu fyrir hrun og var til þess gerð að hylma yfir glæfralega lánastefnu, alvarlega stöðu bankanna í ljósi minnkandi aðgengi að erlendu lánsfé og misheppnaða eignastýringu. Finnur virðist hafa verið ein af hlaupatíkunum í þeim lygavef sem spunninn var og varð til þess að Seðlabankinn tapaði hundruðum milljarða króna.
Finnur Sveinbjörnsson hættir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2009 | 12:45
Hvers virði er sannfæring sakamanns?
Nú segist forsætisráðherra sannfærður um að núverandi samningar séu þeir bestu sem hægt var að ná. Höfum við ekki heyrt þessi orð áður? Jú, og hvers vegna leyfist ráðamönnum að endurtaka sig með þessum hætti? Það má telja stórundarlegt ef ráðamenn trúa eigin yfirlýsingum. Nú liggur fyrir Alþingi Íslendinga í reynd þriðji samningurinn sem Steingrímur og Jóhanna telja þann besta. Þann fyrsta átti Alþingi að samþykkja óséðan, af því m.a. að ekki væri tilhlýðilegt að sýna alþingismönnum, hvað þá almenningi, hinn upprunalega samning. Hann var sagður svo hagstæður að til afreka teldi. Annað kom á daginn.
Við hinn frábæra samning, sem samninganefnd ríkisstjórnar Jóhönnu kom með heim, allt að því sigri hrósandi en þó ekki mikið þreytt - því eins og formaður samninganefndarinnar komst svo smekklega að orði, hann nennti ekki lengur að standi í einhverju samningþrefi - eyddi Alþingi Íslendinga dýrmætum tíma í allt sumar til þess að koma í veg fyrir að sá samningur yrði efnahag Íslands fjötur um fót um ókomin ár. Og ef við munum rétt, þá sögðu ráðamenn að nú værum við komin með frábæran samning í hendur. Stimplaðan og færðan í lagabúning, allt eins of strjórnarskráin sagði fyrir um.
Maður hefði haldið að ráðamenn gætu mætt á erlendan vettvang, nokkuð brattir og sagt gjörið svo vel - jafnvel eitthvað á þessa leið: Take it or leave it - neí, aldeilis ekki. Sem fyrr fór ríkisstjórnin fram með betlistaf í hendi og hugarfar hins seka manns. Aumkunarvert yfirklór í þá vega að réttlæta málstað Íslands á erlendum vettvangi var, eins og gefur að skilja, mætt með háði og allt að því fyrirlitningu. Enda ekki nema von, úti í heimi skynja menn hugarfar stjórnarherranna hér á landi og kumpána (sbr. Jón Baldvin og alla hina) þeirra og vita sem er að þeir eru að fást við sakamenn.
Fjármálaráðherra, þessi alræmdi ræðubósi úr sölum Alþingis á árum áður, finnur nú því flest til foráttu þegar alþingismenn nýta rétt sinn til umræðna, málþófs eða eitthvað annað. Það mátti jafnvel skilja af orðum hans í sjónvarpi í gærkvöldi að alþingismönnum væri ekki treystandi til þess að fjalla um svo stórt og alvarlegt mál. Þar glytti í hið sósíalíska eðli og yfirlæti manns sem á erfitt með að umbera aðrar skoðanir en þær réttu. Hann veit best og hann er alveg að missa þolinmæðina gagnvart skemmdarverkamönnum stjórnarandstöðunnar - þessa fólks sem skilur ekki alvöru málsins.
Svona geta menn orðið firrtir í huganum. Hið sósíalíska upplag Steingríms kvartar yfir lýðræðinu og þeim sem ekki hafa réttar skoðanir. Ætli Steingrímur hugsi með sjálfum sér að hann gæti þaggað niður í þessum vitleysingum sem andmæla honum? Hve oft ætli hann telji sig geta bent á sökudólga og að hann sé nú einungis að moka flórinn eftir aðra? Getur hann á það treyst að benda enn eina ferðinga á minnisblöð fyrri ríkisstjórnar og talið sig geta borið það saman við eiginlega milliríkjasamninga? Hve lengi getur hann haldið blekkingunni áfram? Hve lengi á að leyfa þessu pakki, sem tekur ekki undir orð hans, að andmæla?
Förum inn á indefence.is og tjáum hug okkar þar. Það þarf einungis að skrá nafn og kennitölu.
Komumst ekki lengra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.12.2009 kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.11.2009 | 15:46
Hið kratíska upplag lætur ekki að sér hæða
Má ekki ljóst vera að hin kratíska velferðarstjórn á eftir að leggja stein í götu fleiri fyrirtækja? Er það svo, að þegar rætt er um slæma stöðu margra fyrirtækja (NB. ekki allra) að þá haldi menn að hægt sé að leggja fleiri álögur á starfsemi þeirra? Fyrirtæki, sem starfa öðru hvoru megin við núllið þurfa ekki einasta að glíma við viðvarandi hávaxtastefnu, lækkað gengi og almennan samdrátt, heldur á að þoka fyrirtækjunum yfir í enn meiri samdrátt, frekari lækkun launa starfsmanna þeirra og auknar uppsagnir á starfsfólki. Það þarf ekki að búa yfir djúpum skilningi á efnahagsmálum til þess að átta sig á slæmum afleiðingum vanhugsaðra skattaálagna.
Hinn kratíski draumur um velferð og efnahag að norrænni fyrirmynd telja sumir að henti Íslendingum. Því er ég allsendis ósammála, svo því sé nú haldið til haga. Það er ekki þar með sagt að sumt gott megi ekki læra af grannþjóðum í norðri enda tel ég það ekki til eftirbreytni að fylgja málum eftir í blindni. Hvernig væri nú að íslenskir kratar kölluðu eftir velferðarríki sniðið að menningu og upplagi sjálfra Íslandinga. Þá væri nú gaman að eiga við þá spjall. En þeir sjá fyrirmyndarríkin í norðri og sæluríkið á meginlandi í hyllingum, og vilja að blýantsyddararnir í Brussel leiði íslenska þjóð til frambúðar.
Og VG er búið að kaupa til fylgilags við Evrópudrauminn með loforðum um kratíska velferðarlausn í skattamálum og fleiri málum, hvar öfundin leiðir menn áfram. Þeir vita ekki sem er að kratarnir í Skandinavíu hafa fyrir nokkru gert sér grein fyrir að efnahagslífið, í sinni markaðsvæddu mynd, þarf að blómstra til þess að borga hinn háleita draum um jöfnuð. Þeir fóru nefnilega illa að ráði sínu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar þegar vinstri sinnaður kratismi lagði því sem næst efnahagskerfi lands á borð við Svíþjóð í rúst. Í áttina að kratískri útopíu stefnir þessi ríkisstjórn án þess að hafa spurt þjóðina um leyfi.
Ein leið til þess að mótmæli þessari leið er að fara inn á indefence.is og skrá hug sinn.
Uppsagnir hjá Ölgerðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.11.2009 | 13:45
Fréttir af evrópskri velferð og atvinnuleysismenningu
Tölur af atvinnuleysi hérlendis eru orðnar samhljóma ástandinu á meginlandi Evrópu. Með örfáum undantekningum, upp eða niður, hefur atvinnuleysi í ESB löndum verið á því róli sem við þekkjum nú hér heima. Þetta er og hefur verið viðvarandi ástand á meginlandinu um langt árabil og ekki fráleitt að ætla annað en að þar telji menn slíkt "eðlilegt" ástand. Alla vega þótti það mikið afrek í Danmörku á árinu 2007 að atvinnuleysið væri komið niður fyrir 4% þar á bæ - en þess konar atvinnuleysi þótti til skamms tíma vera merki um miklar þrengingar á Íslandi. Mér er því spurn, hvort núverandi atvinnuleysi nálgist að vera "eðlilegt" ástand hér á landi? Reyndar virðast konurnar búa við illskárri kost; þeirra á meðal er atvinnuleysið nálægt 6% en hjá körlunum nálgast það 9%.
Eins og gefur að skilja er atvinnuleysi, sem nálgast 8%, óásættanlegt með öllu. Enn sem komið er eru Íslendingar ekki orðnir svo veraldarvanir og langt leiddir á kratískri þroskabraut að þeir sætti sig við slíkt ástand. Enn sem komið er, segi ég, því framundar er jú draumalandið og lægið í Brussel. Hin öldnu efnahagssamfélög í Evrópu eru mörg hver svo vön að greiða fyrir óhagræðið í efnahagsstjórninni með velferðaratvinnuleysi upp á 6,7 eða jafnvel 10%. Reyndar mættu menn skoða betur atvinnuleysistölur í löndum á borð við Danmörku og Svíþjóð, þar "fela" menn það með ýmsum ráðum en þó helst með því sem kallast förtidspensionister; sérlega velferðarvæn leið til þess að forða fólki á besta aldri frá því að vinna og leggja sitt af mörkum til samfélagsins.
Ég hvet alla til þess að leggja sitt af mörkum á http://www.indefence.is/
Tæplega 16 þúsund án atvinnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.11.2009 | 12:14
Skattakerfi öfundarinnar stutt með skætingi
Að því gefnu, að persónuafslátturinn hefði haldið í við vísitölu, þá eru skattabreytingarnar nú óhagstæðari fyrir fólk með undir 270 þ. kr. tekjur. Um það er ekki hægt að deila. Að vísu munar ekki miklu en sýnir glögglega þann blekkingarvef sem umlykur orðræðu stjórnvalda. Til þess að réttlæta skattkerfi byggt á öfund í anda norrænna krata þá var haldið að smælingjunum að þeirra hagur myndi batna. Eins og sumt annað, hafa fjölmiðlar kokgleypt þær fullyrðingar og verður forvitnilegt að sjá og heyra hvernig Stöð 2 og RUV matreiða þessa vitneskju þegar líður á daginn.
Einhver gæti sagt að með því að benda á þetta væri verið að sýna stjórnvöldum aðhald. En ráðherra fjármála kýs að gera tvennt; annars vegar að flækja málið og hins vegar að svara með skætingi. Þessir útúrsnúningar ráðamanna eru reyndar forvitnilegur, jafnvel rannsóknarefni. Tilvísanir í að menn séu fastir í árinu 2007, að núverandi stjórnvöld séu að moka flórinn eftir sjálfstæðisflokkinn og framsókn o.fl. í þeim dúr. Aumastur er þessi málflutningur þegar hann kemur úr munni samfylkingarfólks eða krata, því það er eins og það fólk átti sig ekki á því að hafa verið í ríkisstjórn vel á þriðja árið.
Hve lengi á valdhöfunum að leyfast að svara gagnrýni með þessum skætingi? Ég veit það vel að það hentar mörgu vinstri sinnuðu fólki að fara með möntruna um að þetta sé allt saman sjálfstæðisflokknum að kenna. Jón Baldvin var t.d. óþreytandi í alkunnri auðmýkt sinni að hamra á þessu í Silfri Egils í gærkvöldi. Sjálfhverfir menn á borð við Jón Baldvin fá að vaða uppi í fjölmiðlum og spúa eitri sínu yfir landsmenn. Sumum líkar það vel, virðist vera. En hvenær ætla menn að henda sér í það að huga að framtíðinni?
Munum svo að fara inn á indefence.is
Blekking að skattur lækki á tekjulága | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.11.2009 | 17:17
Vanhæf ríkisstjórn?
Nú, þegar mótmælaspjöldin rykfalla í geymslum og kjöllurum VG verður að segjast að nokkurn slagkraft vantar í mótmælin - enn sem komið er. Það var annars prýðisgóð mæting í dag en til þess að enn fleiri mæti að viku liðinni verður að sameina krafta ólíkra hópa. Þessa dagana er stjórnarmeirihlutinn að undirbúa undirskrift landráðasamninga. Þjóðin er að stórum hluta orðin þreytt á umræðunni um Icesave-samningana og á þau mið róa stjórnarliðar. Lítill en kröftugur hópur hefur haldið uppi vörnum í málinu en það eru fleiri sem gjarnan vildu láta til sín taka í því máli. Sumir þeirra eiga e.t.v. bágt með að taka undir sum slagorð þeirra sem boðuðu til fundarins í dag.
Sumar kröfur hagsmunasamtaka heimilanna þykja mér nefnilega ganga of langt. En hugurinn að baka þeirra baráttu er skiljanlegur og snertir lífsafkomu þúsunda Íslendinga. Stjórnvöld virðast ekki hafa nokkurn skilning á högum þúsunda fjölskyldna og loforðin um skjaldborg heimilanna er til marks um stjórnvöld telja sig geta komist upp með innantóm loforð. Þeirra hugur stendur til þess að vinna eftir forskrift tiltekinna stjórnmálaviðhorfa; annars vegar að koma okkur inn í sæluríkið á meginlandi Evrópu og hins vegar að festa í sessi skattakerfi öfundarinnar.
Vel mætt á útifund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.11.2009 | 21:17
Ísland verður einungis byggt upp á forsendum Íslendinga
Það er erfitt að átta sig á ýmsum rökum þeirra sem vilja skrifa upp á nýjasta Icesave-samninginn. Hið skáldlega svartsýnisraus forsætisráðherra hefur fyrir margt löngu misst sitt bit. Hver ógnin á fætur annarri, sem undirskrift Icesave-samninga átti að ryðja úr vegi, hefur alls ekki reynst sú ógn sem af var látið - einna helst að ESB umsókninni sé hætta búin. En það vilja menn ekki kannast við á stjórnarheimilinu - alltjent ekki hjá Samfylkingunni.
Í umræðunni á Alþingi hætti einn þingmaður Samfylkingarinnar sér í ræðustól í dag og flutti ræðu um nauðsyn þess að skrifa undir - slíkt væri forsenda efnahagslegrar uppbyggingar og endurheimt á trausti á meðal þjóða heims. Þessa möntru er búið að bera í þjóðina um skeið en hún stenst ekki nána skoðun - ekki frekar en loforð um að ESB umsókn átti að laga gengið og opna fyrir lánsfé eða að við fengjum ekki lánafyrirgreiðslu frá AGS eða Noregi án undirskriftar Icesave.
Stjórnarherrunum virðist standa á sama þó svo að í hverju stórmálinu á fætur öðru verði þeir berir að stórtækum mistökum, uppvísir að því að loforð þeirra standast ekki og jafnvel að því að hafa sagt ósatt við landsmenn. Stuðningsmenn stjórnarinnar svara með útúrsnúningum og skætingi ef þeim er bent á ótalin mistök og hve illa hefur tekist að standa við stóru orðin um heiðarleg vinnubrögð, opna stjórnsýslu og samráð. Og enn grasserar spillingin.
Nú á sem sagt að telja manni trú um að með því að stórauka skuldabyrði þjóðarbúsins (sem bókfærist með 40-50 milljarða skuld ár hvert næstu 7 árin af vöxtum Icesav-samningsins) og jafnframt styðjast við fyrirvara, sem vafi leikur á að standist stjórnarskrá, að þá fyrst geti uppbygging hafist á Íslandi. Svo virðist sem stjórnarliðar flestir trúi þessu (í blindni?) en þó læðist að manni sá grunur að samviska þeirra sé ekki hrein. Alltjent var vandræðalegt að hlusta á svör þingmanns Samfylkingarinnar, sem hætti sér í ræðustól Alþingis í dag. Ef hægt er að segja að vanþekking sé yfirgripsmikil, þá átti það vel við þennan þingmann og reyndar fleiri fulltrúa stjórnarflokkanna.
Fjöregg þjóðarinnar er í höndum fólks sem hvorki vill né getur fært haldbær rök fyrir máli sínu. Auðmýking forystumanna stjórnarinnar er einnig alger. Ráðamenn erlendra ríkja, sem við eigum í deilum við, nenna varla að svara erindum forsætisráðherra. Þeir vita líka sem er að ríkisstjórnin er með allt niðrum sig, hún telur sig seka, eins og fyrrum formaður Samfylkingarinnar benti svo réttilega á, og með þannig hugsanagang í farteskinu er ekki nema von að á erlendum vettvangi séum við virt að vettugi. Það vill enginn hlusta á sakamenn með bónstaf í hendi.
Það er til her manna, gerður út af stjórnarflokkunum, sem fer mikinn í bloggheimi og reynir hvað hægt er til þess að hafa áhrif á fjölmiðlafólk og umræðu í fjölmiðlum. Ein birtingarmynd þessa er að gagnrýna og sverta orð þeirra sem héldu uppi vörnum fyrir Ísland á þingi norrænna þjóða í Stokkhólmi fyrir skömmu. Með skætingi og útúrsnúningum vill þetta fólk færa stjórnmálaumræðu hér heima út fyrir landsteinana og skammast sín, að því er virðist, ef einhver dirfist að halda uppi vörnum fyrir hagsmunum Íslands og lýsir vanþóknun á þjónkun s.k. vinaþjóða við málstað breskra og hollenskra stjórnvalda.
Langlundargeð mitt gagnvart þessari stjórn er á enda runnið. Ég sé ekki fyrir mér það kraftaverk að stjórnarherrarnir nái að snúa vörn í sókn fyrir land og þjóð. Ekki kaus ég þetta fólk en hef þó óskað þess að þau myndu bretta upp ermar, koma fram hér heima og erlendis með röggsemi og áætlanir að vopni - jafnvel á kostnað þess að tryggja framgang þessara flokka til næstu framtíðar. En stjórnarflokkarnir eru of uppteknir af eigin ágæti til þess að geta með góðu móti tæklað það risaverk sem felst í að endurreisa Ísland. Þeir eru ekki reiðubúnir til nauðsynlegs samstarfs og þeir eru of uppteknir af því að benda á sökudólga.
Á meðan er okkur skattborgurum gert að greiða reikninginn. Eftir höggið frá hægri á endanlega að tryggja að við liggjum í því með höggi frá vinstri. Með því að rota okkur gerum við vart uppsteyt á ný. Alla vega munu mótmælaskiltin í kjöllurum VG ekki verða tekin fram á næstunni.
Frostavetur falli Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.10.2009 | 23:32
Hvers á þjóðin að gjalda?
Það var ekki hughreystandi að hlusta á fulltrúa stjórnarinnar í kvöld. Langlundargeð þjóðarinnar er senn á enda og brestirnir í stjórnarsamstarfinu eru flestum ljósir. Ræða forsætisráðherra var í senn innihaldslítil og kraftlaus. Aðspurð að lokinni umræðu á Alþingi svaraði forsætisráðherra fréttamanni að stjórnarandstaðan hefði ekkert haft til málanna að leggja. Getur verið að það hafi farið framhjá honum að umræðuefnið var stefnuræða hans og ríkisstjórnarinnar?
Hver er svo framtíðarsýn forsætisráðherra; jú, það er að ganga frá Icesave-málinu, svo ríkisstjórnin geti loks farið að koma sér að verki. Félagsmálaráðherra var á því að nú væri kominn tími til þess að framkvæma. Annars var ræða hans ruglingsleg og uppfull af mótsögnum, sem blasa við landsmönnum öllum nema alhörðustu fylgjendum ríkisstjórnarinnar. Ráðstafanir til þess að takast á við skuldavandann á nú m.a. að styrkja með stórauknum skattaálögum. Hvernig þetta tvennt á að fara saman fæ ég engan botn í. Annað hvort er félagsmálaráðherra að tala gegn eigin samvisku eða að maðurinn er ekki nógu vel gefinn. Við skulum vona, hans vegna, að skerpuna vanti.
Ofan á þann vandræðagang að hvorki Ögmundur né Guðfríður Lilja fluttu ræður í kvöld, sem eitt og sér sýnir að ríkisstjórnin stendur á brauðfótum, þá er ljóst að samhljómur í boðskap fulltrúa stjórnvalda var lítill. Það eina sem stóð upp úr er sannfæring samfylkingarinnar um að Icesave-samningarnir muni koma þjóðinni til bjargar en það hefur reyndar legið fyrir lengi. Ætli félagsmálaráðherra geti nú loks farið að koma hlutum í framkvæmd, nú þegar hann sér fram á endalok þess máls eða á enn að bíða um stund?
Það er sorglegt til þess að vita að þessi stjórn geti ekki leitt af sér fleira gott en raun ber vitni. Langt út fyrir raðir stuðningsmanna stjórnarflokkanna bíður fólk þess að hendur verði látnar standa fram úr ermum. Að stjórnvöld taki á sig rögg og blási í glæður framfaravona. Almenningur er þess meðvitaður er erfiðleikarnir eru ekki að baki en til þess að hann sætti sig við ástandið þarf að sjá til lands. Skipstjórinn í brúnni rúinn trausti, eina stefna er til Brussel að færa valdsherrunum þar fjöregg þjóðarinnar. Og verðmiðinn er Icesave-samningurinn - 30 siflurpeningar sem næstu kynslóð er gert að greiða.
Hétu öll stuðningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.10.2009 kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.10.2009 | 14:30
Ákall þingkonunnar ...
Auk hinnar forvitnilegu lýsingar þingkonunnar á aðdraganda Icesave-samningsins, sem ríkisstjórnin á sínum tíma neitaði að hefði orðið með þeim hætti sem hún lýsti, er ljóst að stjórnvöld standa ráðalaus frammi fyrir aðsteðjandi efnahagsvanda þjóðarinnar. Það er ískyggilegt að verða vitni að því að ríkisstjórn Íslands stendur á brauðfótum. Samviska hennar, uppreisnararmur VG undir forystu Ögmundar, er kominn í eyðimerkurgöngu og kallar hvað hann getur til félaga sinna í ríkisstjórnarflokkunum. Guðfríði Lilju er tamt að minna þjóðina á pólitísk hjartans mál; um heiðarleg og þingræðisleg vinnubrögð, svo nokkuð sé upp talið.
Það hvílir þó nokkur skuggi á endurtekna kviðlinga Guðfríðar Lilju um gagnsæi, fagmennsku og heiðarlega aðkomu síns fólks og þau veigamiklu mál sem þingmenn uppreisnararmsins standa fyrir og þeir voru kosnir til að framfylgja á Alþingi Íslendinga. Í jafn veigamiklu máli og ESB málið er var VG sett í pólitíska bóndabeygju og eftir dýr orð varð þingkonan uppvís að því að ganga á bak orða sinna og gegn sannfæringu sinni í einu stærsta pólitíska máli sem hefur borið á fjörur Alþingis.
Það má kannski segja að Ögmundur hafi, með afstöðu sinni í Icesave-málinu, komið samvisku Guðfríðar Lilju nokkuð til hjálpar. Þar vann uppreisnararmurinn innan VG þarft verk í samstarfi með stjórnarandstöðunni. Þar fundu menn sameiginlega snertiflleti en jafnframt sást glöggt hve ríkisstjórnin stendur veikt. Í viðleitni sinni til þess að sverfa til stáls í annarri lotu endavitleysunnar, sem Icesave málið er orðið, er ekki víst að ríkisstjórninni takist að fá fram sinn vilja. Píslarvætti Ögumundar kann að verða hennar banabiti.
Hvað sem líður tilfinningalegum áköllum þingkonunnar er ljóst að ríkisstjórnin er komin í hugmyndafræðilegt þrot. Ráðherra félagsmála er allt að því aumkunarverður þegar hann grípur til slagorða á borð við hrunflokkana og á þá við framsóknarflokkinn og sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingin kannast ekki við að hafa verið í þremur síðustu ríkisstjórnum. Sjálfbyrgingsháttur þeirra er slíkur að jaðrar við sjúkleika.
Þjóðin þarf ekki á því að halda nú að Guðfríður Lilja geti friðþægst við sína samvisku og félaga sinna í ríkisstjórnarflokkunum. Landsmenn þurfa ekki á því að halda að samfylkingin svari gagnrýni með skætingi og hroka. Umfang þeirra vandamála sem blasa við kalla eftir því að stjórnmálastéttin taki höndum saman á þeim flötum sem samvinna leyfir. Ef ekki vill betur verður þessi ríkisstjórn einfaldlega að biðla til stjórnarandstöðunnar um úrlausn vandans. Nú, einu ári eftir hrunið, standa íslensk yfirvöld á pólitískum nærklæðum einum en merkilegt nokk, þá er það íslenskur almenningur sem sýpur hveljur. Honum er ætlað að borga fyrir mistök stjórnvalda, fyrir og eftir hrun.
Samþykktu Icesave blindandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2009 | 16:14
Þjóðin á þetta skilið, ekki satt?
Það er hnútur í maganum á mér. Hann er af tvennu tagi. Annars vegar yfir úrslitum þessa máls og hins vegar yfir örlögum þessa lands að búa við núverandi stjórnvöld. Núverandi stjórnarherrar og -frúr hrósuðu sér af því að Icesave málið væri komið í mun betri farveg eftir að ríkisstjórn Geirs H. Haarde var bolað frá. Hvernig þetta mál hefði átt að fara verr, átta ég mig ekki á. Hver gerir það, annars?
Ég tek eftir því að sumir dindlar ríkisstjórnarinnar verja sig með því að þetta hafi allt saman verið Sjálfstæðisflokknum og frjálshyggjunni að kenna. Þeir hafa sumpart rétt fyrir sér en gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur notið stuðnings Framsóknar, Samfylkingar og Alþýðuflokks. Að afgreiða hrunið með þessari einföldu sýn tekur ekki á þeirri flóknu atburðarás, innlendri og erlendri, sem kom efnahag þjóðarinnar á kné.
Það hefur verið látið að því liggja að ein ástæða þess að stjórnvöld hafi ekki beitt sér sem skyldi, til þess að verja hagsmuni almennings á Íslandi, sé undirlægjuháttur krata gagnvart Evrópusambandinu. Í mínum huga leikur ekki vafi á því. Ósk jafnaðarmanna um að gangast Brussel á vald er svo sterk að þeir blindast í hagsmunagæslu sinni fyrir land og þjóð. Ekki svo að skilja að þeir vilji selja landið fyrir slikk - en næstum því! Og undir þetta skrifar VG af ástæðum sem erfitt er að henda reiður á.
Hvað er til ráða fyrir land þetta og þjóð? Núverandi stjórnvöldum var komið á, fyrst með valdi, síðan í lýðræðiskosninu. Samkvæmt því höfum við fengið það sem við verðskuldum, ekki satt? Við hljótum að verðskulda að vera komin á sveitina í alþjóðlegu tilliti - ætli leiðin til Brussel verði með því auðveldari? Bugaðri þjóð er því sem næst ætlað að kokgleypa rök taglhnýtinga Brusselvaldsins.
Bretar fagna Icesave-samningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)