Brotalamir í sókninni

Eftir góðan fyrri hálfleik var íslenska liðið á hælunum í þeim síðari. Vörnin var sérstaklega sterk framan af og fjölmörg hraðaupphlaup skópu forystu sem hefði átt að duga liðinu til sigurs. Sóknarleikurinn var ekki hnitmiðaður og þó svo að Ólafur væri ógnandi og hefði matað samherja sína með fjölmörgum sendingum var hann sjálfur með arfaslaka nýtingu í sínum færum. Ef ekki hefði komið til góð innkoma Arnórs í síðari hálfleik hefðu Serbar landað sigri, eins og leikurinn þróaðist. Sóknin í síðari hálfleik var mistæk og síðustu 5 mínúturnar, gekk hvorki né rak. Snorri Steinn sá ekki til sólar í leiknum og raunalegt að sjá jafn reynt lið og það íslenska missa unna stöðu niður í jafntefli.

Það sem íslenska liðið getur tekið með sér úr þessum leik er á köflum afar sterkur varnarleikur. Hins vegar hlýtur það að vera áhyggjuefni hve sóknarleikurinn er brothættur. Frammistaða Arnórs í sókninni hélt liðinu á floti í síðari hálfleik en fleiri verða að taka af skarið þegar Ólafur er tekinn jafn mikið úr umferð og reyndin var í þessum leik - og við því er að búast í komandi leikjum. Það er og verulegt áhyggjuefni fyrir Guðmund og leikmennina hve illa gengur þegar liðið er einum leikmanni fleiri inni á vellinum - en það er eitt einkenna þess hve sóknarleikurinn er ekki nægilega beittur.

Serbneska liðið er skipað gríðarsterkum skyttum, þeir eru stórir og kraftmiklir og með góða markvörslu. Þeir gætu náð langt í þessari keppni, en það verður forvitnilegt að fylgjast með þeim á móti Dönum. Dómgæslan var e.t.v. ekki sannfærandi en erfitt að meta hvort annað hvort liðanna hafi hagnast á mistökum dómaranna. En fyrst og fremst geta íslensku leikmennirnir nagað sig í handarbökin yfir því að missa þennan leik niður í jafntefli. Þeir þurfa að sýna betri leik í framhaldinu ef þeir ætla sér frama á þessu móti.


mbl.is Jafntefli gegn Serbum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband