8.6.2010 | 19:02
Veruleikafyrring stjórnvalda
Tungutak stjórnmálamanna er stundum með þeim hætti að það lýsir óskýrri hugsun. Verra er þó þegar það er lýsandi fyrir djúpstæðan misskilning, jafnel meðvitaðar eða ómeðvitaðar blekkingar. Í svörum við gagnrýni á stjórnvöld um að þau hafi reynst veigalítil í bjargráðum fyrir heimili landsmanna tiltekur forsætisráðherra fimmtíu aðgerðir sem hafi átt að koma til móts við skuldavanda þeirra. Því til staðfestingar tiltekur hún að þessar aðgerðir samsvari 40-50 milljörðum. Það var og.
Séu þessir fjármunir skoðaðir nánar kemur í ljós að ríkissjóður hefur næsta lítið með þær að gera. Sem dæmi má nefna að skattauki af séreignasparnaði, sem þúsundir hafa norfært sér, vegur að mestu upp auknar húsaleigubætur. Aðrar aðgerðir varða ríkissjóð lítið sem ekkert. Hvers vegna forsætisráðherra tiltekur svo háar upphæðir, líkt og ríkissjóður hafi komið þar beint að málum, verður ekki skýrt með öðru en því að verkstjóri ríkisstjórnarinnar vill slá ryki í augu landsmanna.
Svo veikur málflutningur boðar ekki gott. Hann er merki um úrræðaleysi, sem margir vilja eigna stjórnvöldum nú. Forsætisráðherra er ekki sá eini sem hefur orðið uppvís að svo óskýrri hugsun, sem orðræðan á Alþingi leiddi í ljós, heldur eru aðrir forsvarsmenn stjórnvalda í svipaðri stöðu. Sérhver ábending stjórnarandstöðu, fjölmiðla, samtaka launafólks eða atvinnurekenda, alls kyns sérfræðinga og annarra um alvarlega stöðu þúsunda heimila er alla jafna mætt með undanslætti og hjáróma tali um fjölda aðgerða, sama hversu ómarkviss eða lítil þau kunna að hafa reynst.
Stjórnvöldum er vissulega vandi á höndum. Þetta hefur verið ítrekað um all langt skeið. Í mínum huga er það ljóst að draumurinn um vintri stjórn er að breytast í væga martröð. Samtakaleysi vinstri manna um hin stóru mál hafa ekki einasta eyðilagt drauminn um farsæla vinstri stjórn heldur beinlínis skaðað hagsmuni landsmanna. Lærdómurinn sem forsætisráðherra vildi draga af slæmu gengi síns fólks í sveitarstjórnarkosningunum átta að vera sá, að þétta fylkingarnar. Þétta þær um hvað?
Ekkert bendir til annars en að ófriðurinn og ósættið haldi áfram á stjórnarheimilinu. Að auki grunar mig að hinn "ópólitíski" ráðherra viðskipta- og efnahagsmála hafi misst tiltrú að undanförnu. Það hefur því fjarað undan þessari ríkisstjórn á fleiri sviðum en varðar hina pólitísku og snýr að flokkum hennar. Ætli dómsmálaráðherrann, e.t.v. ásamt með menntamálaráðherra, séu ekki einu fulltrúar yfirvalda sem nokkuð traust er á. Hvernig hægt er að byggja farsælt starf á slíku vantrausti er ofar mínum skilningi. Hvað sem segja má um önnur stjónmálaöfl en þau sem eru nú við völd, þá er ljóst að breytinga er þörf í stjórn landsmálanna.
Hafa komið til móts við skuldavandann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Fólk á einfaldlega ekki að borga ef það er svona ósátt við ástandið , hætta þessu væli og gera einhvað sjálft annars gerist ekkert hljótið að sjá það... Ég er allavega ekki að fara að borga eitt né neitt nema fasteignagjöld,hita og rafmaggn. og neyslu reikninga og hvet alla til þess að gera það sama! séu þeir í þeirri stöðu að eiga ekki fyrir nauðsynjum út mánuðinn.
Bankanum þínum er sama um þig . Og því miður Ríkisstjórninni líka.Valdi (IP-tala skráð) 8.6.2010 kl. 22:45
Það hefur allt hækkað nema launin og stefnan er í eina átt átt til gjaldþrots!
Sigurður Haraldsson, 9.6.2010 kl. 01:33
Hvort ætli það sé óskýrleiki í hugsun verkstjórans eða beinar blekkingar og lygar? Kannski allt saman?
Elle_, 9.6.2010 kl. 22:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.