Jesús fer í bíó

Fæstar bíómynda um Jesú fjalla um upprisuna og endurlausn hennar, að sögn ungs guðfræðings Ida Auken, sem hefur fjallað um hlutverk Jesús í bíómyndum í nýútgefinni bók: Jesús fer á bíó, sem hún ritstýrði. Í þeim myndum sem best segja frá leyndardómum kristinnar er Jesús ekki einu sinni á leikendaskrá, segir hún.

Fyrr á tíð, þegar Kristin trú var fólki nærtækari, voru tilvísanir skáldanna ekki alltaf áberandi enda var almenn þekking manna á boðskap trúarinnar mun meiri en nú er. Í kvikmyndum nútímans eru þær meira áberandi, ef áhorfendur eiga að skilja boðskapinn. Í Matrix myndunum er nafn bjargvættarins sótt í biblíuna, draumarnir eiga sér hliðstæður og dauði og endurreisn hetjunnar er sterk skírskotun. Í danskri mynd "Adams æbler" er greinilega sótt í frásögnina um Adam og Evu.

Jafnvel í spaghettívestrum og öðrum hetjumyndum eru fyrirmyndir sóttar í hinn gamla texta. Hin ókunna hetja frelsar frá illu og hverfur á braut að afloknu góðu dagsverki. Ef takast á að bjarga okkur frá eigin veikleikum og vanmætti þarf hetjan að koma annars staðar frá, eins og guðspjöllin boða. Reyndar lifa hetjurnar yfirleitt af og eiginleg endurlausn fæst nú ekki, ekki nema menn vilji líta á "allt fór vel" Hollywood endi sem endurlausn.

ÞJÁNING RAMBÓS

Þrátt fyrir ad Rambó og Jesús eigi fátt sameiginlegt, er auðna þeirra samtvinnuð. Ofsóttir og píndir. Rambó bugast heldur ekki, hann styrkist í baráttu sinni gagnvart hinum illu kröftum. Í hundruðum bíómynda er píning hetjunnar mikilvægur liður í innihaldi sögunnar. Vert er að spyrja sig hvort hetjuímyndin sæki styrk sinn í persónu Jesú eða hvort hér sé um dýpri tilfinningu að ræða sem gæðir Biblíuna og aðrar frásagnir lífi. Reyndar er Ida Auken á því að svo sé: "Sagan um hina fullkomnu hetju, þrátt fyrir að hún sé gædd mannlegum eiginleikum eins og við hin, sem bjargar okkur frá þjáningu og gefur tvíræðni tilverunnar merkingu".

Guðfræðingar hafa alla jafna bent á að lífseigla kristinnar trúar búi í boðskap og innihald hennar. Sérhver kristinn maður túlkar Jesú og frásagnir af honum á eigin máta. Í kvikmyndum hafa menn notað sitt lítið af hverju, þó svo að fæstir hafi farið svo langt að nota að nota Jesú til marxískrar þjóðfélagsádeilu og Pier Paolo Pasolini gerði í mynd sinni Matteusarguðspjall (1964).

UMBREYTING

Mel Gibsons mynd, "The Passion Of The Christ", felur í sér sterkan boðskap. Píning og þjáning Jesú eru gerð svo góð skil að áhorfendur telja sig meðseka, fá samviskubit og iðrast, segir Ida Auken. Þjáningin stendur yfir í tvær klukkustundur á meðan endurlausnin, hinn fagnandi boðskapur páskanna, varir í tíu sekúndur. Upprisan er Gibson og öðrum leikstjórum erfið, því hvernig sýnir maður hið ósýnilega? Guðspjöllin draga upp afar skýra mynd af síðustu stundum Krists en upprisuna er erfitt að festa á filmu og prestinum nær ómögulegt að tengja við raunveruleikann.

Hjá prestum og í kvikmyndum hefur myndin af Jesú breyst með tíðarandanum. Á árum áður var hann upphafinn og fjarlægur, sbr. ýmsar Hollywood stórmyndir, sem okkur þykja fremur óspennandi nú. Á síðari árum er honum fremur lýst sem mannlegum og auðmjúkum líkt og í "Jesus Christ Superstar" eða "The Last Temptation of Christ", sem fær mann til þess að efast um að hægt sé að búa til Jesú mynd þar sem maðurinn og hið guðdómlega er sett saman í eitt. Í raun hallar sérhver leikstjóri sér yfir á aðra hvora hliðina í túlkun sinni á Guðspjöllunum.

Í tilraun leikstjóra til þess að tengja áhorfandann við persónur sögunnar er erfitt að færa Jesú í guðdómlegan búning og vonast eftir að áhorfendur samsamist söguhetjunni. Ef menn fara í hina áttina hverfur hið guðdómlega og leyndardómsfulla. Ef til vill er því betra að horfa til þess að gera góða bíómynd, í stað þess að fylgja heilagri ritningu staf fyrir staf, telur höfundurinn.

NÆSTBESTA KVIKMYNDIN

Vel heppnuð samlíking er frásögnin af bókhaldaranum Andy Dufresne í fangelsismyndinni "The Shawshank Redemption" frá 1994, gerð eftir sögu Stephen King. Andy er í senn mannlegur og leyndardómsfullur. Hann fær meðfanga sína til þess að öðlast trú á sjálfa sig og þar með trú á vonina. Hann frelsar þá undan viðjum umhverfisins. Myndin var s.s. ekki vel sótt í bíó en hefur síðan notið gríðarlegra vinsælda á myndböndum og DVD diskum og er iðulega valin á meðal bestu mynda, alla jafna á eftir Guðföðurnum.

Nú á dögum er vert að skoða hve mikilvægt það er að kristin trú er svo rík að myndrænu formi, ólíkt Islam sem bannar myndbirtingar. Ida Auken telur að myndgerðar biblíufrásagnir og ótal myndir af Jesú allt frá miðöldum hafi allt að því hjálpað lýðræðinu að þróast. Kristin trú vex upp af Gyðingdómi, sem einnig er ríkur að myndrænu efni. Með kristinni trú er Guð settur í búning manns, með mannlega eiginleika, sem hvert og eitt okkar getur samsamað sig við og uppgötvað persónulegan skilning sem losar kristna undan valdi lærðra fulltrúa kirkjunnar.

Vefsíða Berlinske Tidende segir frá


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband