Kosningasjóðirnir digrir hjá sumum, öðrum alls ekki

Í dag stendur yfir forval í Michigan hjá flokkunum tveimur, vestur í henni Ameríku. Hjá Demókrökum hefur valið einungis táknrænt gildi en mikilvægt engu að síður. Hjá Repúblikönum skiptir valið meira máli, enda gefur ríkið nokkra fulltrúa til landsþings, og svo er það vitanlega hin táknrænu úrslit.

Forvitnilegt er að fylgjast með hve miklum fjármunum hinir ólíku frambjóðendur hafa safnað í kosningasjóði. Hillary Clinton leiðir listann (>90m $) og í öðru sæti er Barack Obama (>80m $) - en báðir þessir aðilar hafa eytt um helmingi síns fjár, Obama þó aðeins meira. Romney er í þriðja sæti en hann hefur til þessa eytt mestum fjármunum í baráttu sína, vel yfir fimmtíu milljónum dala. Hins vegar vekur athygli að Huckabee hefur einungis safnað tæplega 2,4 milljónum dollara og enn sem komið er ekki eytt nema innan við 1,7 m $. Sé tekið mið af fólksfjölda og það allt saman gætum við líkt kosningasjóði Huckabees við þokkalega stöðu stjórnmálaafls í sæmilegu kauptúni á Íslandi, upphæðirnar dygðu fyrir fullsæmdri herferð í dagblaði staðarins og útgáfu bæklings.

Frambjóðendur mega ekki þiggja meira en sem nemur 3.200 $ frá einstökum stuðningsmönnum, en hvaða lagalegu girðingar varna því að menn fari út fyrir þann ramma þekki ég ekki. Eflaust hægt að föndra með slíkt, eins og gengur. Vitanlega er mönnum síðan heimilt að eyða umfram það sem safnast, sbr. fjárráð Romneys, en aðrir verða að halda sig innan ramma kosningasjóðsins. Ef afgangur verður geta frambjóðendur ekki sótt í sjóðina sér til einkanota en ekki þekki ég hvað verður um féð ef ekki er þörf fyrir það síðar; e.t.v. rennur það til velgjörðarmála. Að þessu undanskildu geta vitanlega ýmsir aðilar sýnt stuðning sinn með ýmsum hætti, hvort heldur fyrirtæki eða félagasamtök, en um þetta gilda einnig opinberar reglur.

Hvað sem Michigan líður er afar spennandi kosning framundan í S-Karolínu, þar sem slegist verður m.a. um atkvæði þeldökkra á meðal Demókrara. Frú Clinton reynir nú hvað hún getur að höfða til þeldökkra kvenna á meðan Obama hefur vaxið ásmegin. Edwards, sem maður alla jafna hefði haldið að gæti unnið hér, virðist ekki á þeim buxunum nú. Ef honum tekst illa upp í S-Karolínu er flest von úti fyrir karlinn. Ef Clinton sigrar, verður á brattann að sækja fyrir Obama, og allt eins líklegt að kosningamaskína Demokrataflokksins og Clintons landi þessari útnefningu.

Hvað Repúblikana áhrærir verður enn mjótt á mununum spái ég. Giuliani, sem hefur eytt mun meiri fjármunum en ég hafði nokkurn tíma gert mér grein fyrir (yfir 30 m $), verður brátt að ná til sín fulltrúum, annars mun barátta hans fara fyrir ofan garð og neðan hjá stuðningsfólki og hann ekki einu sinni eiga sér uppreisnar von þegar stóri dagurinn kemur 5. febrúar næstkomandi. Romney er í mun að standa sig vel í Michigan og það skýrir eflaust hve rausnarlega hann hefur sótt í kosningasjóðinn sinn að undanförnu.

Á meðan er uppáhaldið mitt, Ron Paul, í aftursætinu hjá Repúblikönum og á sér ekki aðra von en að gott fólk velji hann og minni þar með á þau viðhorf sem hann berst fyrir. Að Paul slepptum líst mér einna best á málefnastöðu McCain en hvað framkomu, útgeislun og viðveru varðar eru Obama, og e.t.v. Romney, fremstir í flokki í mínum huga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband