Kasper Hvidt færir Dönum Evrópumeistaratitilinn

Besti markvörður keppninnar sá til þess að Króatar næðu ekki titlinum að þessu sinni. Leikurinn einkenndist af taugaveiklun og fjölda mistaka, sérstaklega af hálfu Dana, sem virtust ætla að gera sjálfum sér lífið leitt með hverjum mistökunum á fætur öðrum í sókninni. Króatarnir voru í raun að niðurlotum komnir og ekki hjálpaði að dómararnir voru Dönum hagstæðir. Í hverju dauðafærinu á fætur öðru varði Hvidt frá Balic og öðrum hetjum Króata og færði sínum mönnum auðveld hraðaupphlaupsmörk. Ekki veitti af, því sókn Dana var hlaðin mistökum manna á borð við Spellerberg, sem ekki sá til sólar í leiknum.

Undir lokin gerðu Króatar allt hvað í þeirra valdi stóð til þess að komast aftur inn í leikinn en þeim var það um megn, enda tankurinn tæmdur. Hetjuleg barátta þeirra var samt til fyrirmyndar en í þessum leik mættu þeir einfaldlega ofjarli sínum, Kasper Hvidt. Danirnir voru í mun betra líkamlegu ástandi í þessum leik, frískir fætur báru þá hratt fram í hraðaupphlaupum, sem færði þeim sigur í þessum leik. Ef Króatarnir hefðu haft ekki nema örfáa dropa af eldsneyti til viðbótar er ekki víst að Hvidt hefði getað landað sigrinum fyrir Danina og þeirra fyrsta titli í handknattleik karla.

Ljóst er að álagið á leikmenn er of mikið í móti sem þessu. Átta leikir á 11 dögum er einfaldlega flestum liðum ofraun og hættur á meiðslum eru meiri en eðlilegt má teljast fyrir þau lið sem berjast um toppsætin. Balic, besti sóknarmaður heims, bar þess glögglega merki auk fjölda annarra leikmanna í fleiri liðum. En Danir eru vel að sigrinum komnir, leið þeirra í gegnum keppnina hefur verið bein og slysalaus. Þeir eru með gott lið og fjölda ágætra einstaklinga án þess að nokkur þeirra beinlínis komist í heimsklassa - þ.e. að Hvidt undanskildum. Danir geta þakkað honum titilinn, öðrum leikmönnum fremur, auk góðrar verkstjórnar Wilbek.


mbl.is Danir Evrópumeistarar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Danir hafa fleiri góða leikmenn en Kasper Hvidt? eins og t.d Lars Christiansen,Joachim Boldsen,Bo Spellerberg,Lars Jörgensen og fleiri annars væru þeir nu ekki evróumeistarar med einn goðan leikmann!!!

dalmar (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband