F-16 herþotur og pönnukökur

Danir eru glaðir yfir árangri karlalandsliðsins í handknattleik, sem í fyrsta sinn sigrar á stórmóti. Tvær F-16 herþotur munu mæta flugvélinni, sem flytur meistarana til Kaupmannahafnar - en ekki Billund eins og upphaflega stóð til að gera - yfir Kattegat og fylgir þeim heim í hlað á Kastrup flugvelli. Annað eins hefur ekki gerst síðan Danir unnu Evrópumeistaratitilinn í knattspyrnu árið 1992. Síðdegis ætlar borgarstjóri stór-Kaupmannahafnar, Ritt Bjerregaard, að bjóða upp á pönnukökur í ráðhusinu áður en Dönum gefst tækifæri til þess að heilla gulldrengina, sem munu sýna sig á svölum hússins fyrir framan ráðhústorgið.

Þrátt fyrir gleði gærdagsins kvarta all margir leikmenn yfir miklu álagi og Boldsen gerir t.d. ekki ráð fyrir að spila handbolta í bráð. Nokkuð er um það rætt að Evrópumótið sé of strembið og að of margir leikir raðist á of fáa daga. Hins vegar er þjálfarinn, Wilbek, með mestar áhyggjur af fækkun iðkenda í Danmörku, sérstaklega á meðal drengja og kallar eftir aðgerðum af hálfu dönsku handknattleiksforystunnar. Hann bendir á að það sé lítill tilgangur með þessu öllu saman ef ungviðið fæst ekki til þess að iðka handbolta. Undir þessi orð tekur þjálfari kvennalandsliðsins, Jan Pytlick, sem hefur m.a. reifað hugmyndir að breyttu leikjafyrirkomulagi.

Danir eru að auki glaðir yfir farseðlinum til Beijing í sumar. Kvennalandsliðið, sem hefur þrjú Ólympíugull í röð upp á vasann, hefur ekki staðið undir væntingum upp á síðkastið og því mun karlaliðinu nú gefast færi á að halda uppi danskri hefð og e.t.v. bæta enn einum verðlaunapeningnum frá Ólympíuleikum í safnið.


mbl.is Fylgja gulldrengjunum heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband