Íslendingar allir þurfa að taka sér tak

Bætt menntun kennara gæti orðið framfaraskref en ekki er ég viss um að einungis lenging námsins sé það framfaraskref sem foreldrar og námsmenn horfi til. Kennarar eru í þjónustuhlutverki við umönnun og menntun ungviðisins. Yfirvöld og foreldrar hafa falið kennurum mikla ábyrgð sem þeir margir hverjir reyna að standa undir af heilhug og dugnaði. Kennarastarfið er stöðugt undir smásjá borgaranna og mörgum kennurum finnst sem starf sitt sé ekki verðskuldað. Sumpart vegna ófullnægjandi launakjara, að hluta vegna óvæginnar umfjöllunar en einnig vegna þess að það getur verið afar slítandi að halda ungviðinu að skyldum sínum í skótastarfinu. Frítími kennara hefur og löngum verið til umræðu og hefur almenningur á köflum gert of mikið úr honum og kennarar að sama skapi of lítið.

Vera má að meistaragráða færi kennurum hluta þeirrar virðingar sem svo margir þeirra þrá. Ég fæ hins vegar ekki séð að leikskólinn muni batna við slíkt, ég myndi t.d. ekki vilja senda barnið mitt á stofnun með hámenntað fólk, sem ég hefði alla jafna talið að leituðust eftir annars konar örvun en frá börnum. Ég fæ ekki séð að afar langt háskólanám kveiki þann eld sem þarf til þess að vilja og geta umgengist yngstu börnin. Kröfur um meistaragráður gæti jafnvel fælt afar hæfa einstaklinga frá.

Nú er ljóst að Ísland er ekki framarlega á lista yfir árangur námsmanna á neðri skólastigum, allt upp í menntaskóla. Mér þætti mest um vert að með eflingu kennaranámsins væri horft til árangurs kennara í starfi og reynt að læra af þeim sem standa sig best. Siðareglur kennara mætti stórbæta og vera kennurum leiðsögn í starfi. Jafnframt hverri umræðu um kennara, menntun þeirra, kjör og aðstæður verða foreldrar þessa lands einnig að taka sér tak. Skólarnir eru ekki "geymslustaður" á meðan foreldrar vinna. Börn þurfa hvatningu, athygli og aga heima fyrir, án samvinnu frá heimilum er lítil von til þess að kennarar einir geri ungviðið að sómasamlegu fullorðnu fólki.


mbl.is Kennarar fagna frumvarpi um kennaramenntun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband