Húrra fyrir heita vatninu, Íslendingar!

Eftir að hafa búið í Danmörku í tæp tvö ár er ég farinn að sakna heita vatnsins. Kannski ekki lyktarinnar - og þó! Það er mikil blessun fyrir okkar harða land að hafa heitt vatn til þess að hita hýbýli fólks - á kjörum sem Evrópubúar kannast varla við. Hér í Danmörku hefur maður vart efni á að halda heimkynnum sínum hlýjum, rafmagnið er dýrt og notkun vatns kostar ófáar krónurnar. Ég myndi skjóta á að hiti, vatn og rafmagn sé alla vega þrisvar sinnum dýrara hér í Danmörku en á Íslandi. Það hefur bjargað nokkru að þessi vetur og sá síðasti hefur verið mildur, ólíkt því sem var fyrir tveimur árum þegar veturinn náði fram í april.

Að geta farið í sundlaugar utandyra er enn einn yndisaukinn sem heita vatnið færir Íslendingum, að ekki sé nú talað um að sleppa við að reiða sig á aðra orkugjafa. Bláa lónið er enn ein perlan - og gleymum ekki Perlunni sjálfri - auk fjölda heitra potta sem náttúran sjálf hefur gefið okkur, vítt og breitt um landið. Saga húsahitunar með heitu vatni er reyndar ekki svo gömul á Íslandi en samt erum við í fremstu röð í heiminum á því sviði. Hvernig væri að halda árlegan heitavatnsdag til heiðurs þeirri ánægju sem það veitir okkur dag hvern og gerir lífið á Íslandi bærilegt.


mbl.is Mikil notkun á heitu vatni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Óli , mér sýnist það á síðuztu færslum hjá þér að þú sért komin með alvarlega heimþrá.  Eins og ofangreind færzla sýnir, einnig þessi hér.  En það er rétt að það er fínt að getað skrúfað upp heita vatnið í ofnunum, fyrir skid og ingenting þegar 15 stiga frost er úti , og skella sér á skíði uppí Bláfjöllum.  Ertu búinn að fara eitthvað á skíði í vetur annarz.  En ætli ég láti það ekki duga skella mér í ræktina í dag til þess að rýma fyrir bollunum á morgunn og svo í laugar. Nýta heita heita vatnið.

Kv.St.

Þorsteinn Ingimarsson (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 11:52

2 Smámynd: Ólafur Als

Hún verður alvarlegri með degi hverjum, Steini.

Sjáumst e.t.v. um og eftir 15.feb.

Kveðja,

Ólafur Als, 2.2.2008 kl. 12:52

3 identicon

Sæll Ólafur Als

Rétt er það að rafmagnið er rétt tæplega þrisvar sinnum dýrara hér í Danmörku en á Íslandi (að minnsta kosti hér á Norðurjótlandi). Hitun húsa er einnig mun dýrari en með hitaveitum á Íslandi. Hafa ber þó í huga í þessu sambandi að minna þarf að hita hús hér í Danmörku en á Íslandi vegna hagstæðara loftslags flesta mánuði ársins. Sjálfur vildi ég ekki skipta á hitanum á sumrin hér í Danmörku og hitanum á Íslandi á sama tíma. Hins vegar vildi ég gjarnan fá hinar björtu sumarnætur en það er önnur saga.

Eitt þýðingarmikið atriði er vert að nefna varðandi hitun húsa hér í Danmörku. Mörg eldri hús eru afar illa einangruð og kosta því meira en þrisvar sinnum meira í hitunarkostnað en íslensk hús við sambærilegt hitastig. þessu er hins vegar tiltölulega auðvelt að kippa í liðinn í flestum tilvikum. Sjálfur bý ég í húsi frá 1960 og ég lét einangra aukalega á loftinu hjá mér þannig að nú er 350 millimetra einangrun minnst og allt upp í 500 millimetra þar sem mest er! Áður var 100 millimetra einangrun þar sem minnst var og 200 millimetrar þar sem mest var. Hitareikningurinn snarlækkaði og nú er húsið funheitt óháð hitastigi úti fyrir. Á ársgrundvelli eyði ég hins vegar ekki þrisvar sinnum meira í hitun hússins en fyrir sambærilegt hús í Reykjavík. Loftslagið skiptir þar mestu máli og síðan er það góð einangrun sem sér um afganginn. Kostnaðurinn við aukaeinangrunina sparast á örfáum árum og eftir það er þetta gullnáma við danskt verðlag.

15 stiga frostið sem Þorsteinn talar um er ekki "hverdagskost" hér þar sem ég bý og sem dæmi má nefna að nú er tveggja stiga hiti úti og 22 stiga hiti á skrifstofunni hjá mér og því lítil þörf fyrir íslenska hitaveitu þó ódýr sé.

Kær kveðja

Magnús á Norðurjótlandi

Magnús Guðnason (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 14:13

4 Smámynd: Ólafur Als

Sæll Magnús,

gaman að fá innlegg þitt hér - ég vil bæta við þetta að ég bý í nýlegu raðhúsi (ca. 10 ára) og hér mætti þéttileiki og einangrun vera betri. Veit ekki hver millimetramælingin er á einangruninni hér - en hún er alla vega ekki jafn góð og hjá þér. Nú um jólin kólnaði lítillega og blés samhliða, sem varð til þess að ég þurfti að setja ofnana á verulegt blúss. Kosturinn við ódýra vatnið er jú að mann munar lítið um að auka hitann, reikningurinn hækkar ekki nema um íslenska hundraðkarla eða vel innan við danskan hund. Frostið er jú heldur ekki hversdags viðburður í Reykjavík eða sunnan heiða í þeim mæli sem félagi minn minntist á. Vert er að geta þess sem gott er heima, líkt og að geta þess að sumrin hér í Danmörku eru alla jafna indæl.

Bestu kveðjur upp á Norðurjótland héðan frá Fjóni,

Ólafur Als, 2.2.2008 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband