Ég þakka guði fyrir þessa gjöf ...

Eftir að hafa fylgst með málum fyrir botni Miðjarðarhafs á fjórða áratug mætti ætla að maður væri orðinn ónæmur fyrir hörmungunum sem dynja yfir Palestínumenn og Ísraela. Frá Gaza skjóta Palestínumenn stöðugt eldflaugum yfir til Ísrael, stundum nokkrum á dag og stundum meira. Þessar eldflaugar eru flestar af Qassam gerð (einnig Quds og Nasser), fremur gróf vopn sem auðvelt er að framleiða. Þeim hefur þó tekist að drepa á annan tug Ísraela á nokkrum árum, þ.á.m. alla vega þrjú börn. Bærinn Sderot hefur mest orðið fyrir eldflaugaárusum undanfarin ár því bærinn er eini þéttbyliskjarninn með Gyðinga innanborðs sem framangreindar eldflaugar ná til.

Í seinni tíð hafa nýrri gerðir Qassam eldflauga náð allt upp í 10 km inn fyrir landamærin og einnig náð að ógna byggð í bænum Ashkelon. Yfirvöld í Ísrael hafa sett upp birgi og viðvörunarkerfi en þetta dugar skammt því íbúar hafa einungis nokkrar sekúndur frá því að viðvaranir taka að hljóma. Nýverið hafa Hamasliðar og aðrir herskáir Palestínumenn fengið í hendur þróaðri eldflaugar sem kenndar eru við Katyusha og sagðar eru ná allt að 22 km innfyrir landamærin. Þrátt fyrir þetta eru þessar Katyusha eldflaugar ekkert í líkingu við þær sem Hezbollah liðar notuðu í árásum sínum frá Líbanon á Ísrael - en þær eldflaugar náðu allt að 100 km.

Eftir hrinu eldflaugaárása hafa Ísrelsmenn svarað af alkunnri hörku og fjöldi Palestínumanna hefur fallið. Á meðal fallinna eru herskárir Hamasliðar úr hinum svo kölluðu Qassam-sveitum, sbr. eldflaugarnar, en einnig almennir borgarar og börn. Á öðrum degi árása ísraelska hersins á Gaza skutu Hamasmenn átta Katyusha eldflaugum á bæinn Ashkelon, mesti fjöldi slíkra eldflauga á einum degi til þessa. Til þessa hefur verið talið að eldflaugarnar væru gerðar í Iran og smyglað inn til Gaza í gegnum Egyptaland.

Eitt fórnarlambanna á Gaza var sonur herskás forystumanns innan Hamas, al-Hayya að nafni. Hamas staðfesti að sonurinn hefði verið í forsvari fyrir Qassam-sveit og hefði fallið fyrir hendi Ísraelsmanna. Faðirinn sagði við fréttir af fráfalli sonar síns: "Ég þakka guði fyrir þessa gjöf ... þetta er tíundi meðlimur fjölskyldunnar sem verður þess heiðurs aðnjótandi að deyja sem píslarvottur". Ísraelsher hefur áður reynt að fella herskáa Hamasmenn tengda al-Hayya á heimili hans, sem skýrir m.a. fjölda fallinna fjöslyldumeðlima.

Núverandi hrina átaka hófst á miðvikudag þegar Ísraelsmenn felldu 5 herskáa meðlimi Hamas í kjölfar síendurtekinn eldflaugaárása undanfarið. Í framhaldinu rigndi eldflaugaárásum í auknum mæli yfir m.a. bæinn Sderot og ísrelskur námsmaður féll eftir að eldflaug sprakk á skólalóð og hann fékk sprengjubrot í brjóstið. Að auki særðist annar námsmaður. Ísralesmenn hafa síðan hert sínar árásir og hafa fellt m.a. meðlimi úr hinu herskáa "Islamic Jihad".

Allt frá því að Bandaríkjamenn kynntu fyrirætlanir um að koma af stað friðarferlinu á ný hefur eldflauga-árásum frá Gaza fjölgað mjög. Á sama tíma hafa Ísraelsmenn svarað af auknum krafti og þrátt fyrir að þeir hafi beint afli sínu gegn herskáum Palestínumönnum, hafa fjölmargir borgarar fallið í þessum árásum. Á meðan hin herskáu öfl Palestínumanna gleðjast yfir föllnum félögum sínum og dauða venjulegra borgara er ekki von á góðu og því allt eins líklegt að blóðug átök haldi áfram að hrella íbúa Gaza og nærliggjandi svæða í Ísrael.


mbl.is Ísraelar halda árásum áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er alveg stórundarllegt að tala um herskáa Hamas liða í stað þess að kalla þá réttu nafni, eða frelsis hermenn Palestínu. Og að vera tala um eldflaugaárásir í stað þess að nefna þetta bara réttu nafni, eða rakettur. Þú minnist ekkert á að Ísraelar nota herþyrlur til að skjóta á saklausa borgara og að landnemar skjóta þegar kvölda tekur að handahófi á hús á Gasa svæðinu eða þegar heimili fólks eru lögð í rúst með jarðýtum kannski mörgum sinnum hjá sömu fjölskyldunni á nokkurra ára fresti. Nei það er undarlegt að verja Ísraelsmenn sem hafa hagað sér skelfilega frá upphafi með þjóðernioshreinsanir sem meginhugmynd aðgerða sinna. Sakmmastu þín!

Valsól (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 08:13

2 Smámynd: Ólafur Als

Þeir kalla sjálfa sig meira að segja herskáa og mörgum öðrum herskáum nöfnum. Heldur er nú hvimleitt þitt "herskáa" viðhorf í garð Ísraela og dettur mér ekki til hugar að skammast mín. Þann palladóm máttu eiga sjálfur, hr. nafnlaus og hugumstóri Valsól.

Ólafur Als, 29.2.2008 kl. 08:20

3 identicon

Þú þakkar guði litli maður!

Valsól (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 08:28

4 identicon

Hafðu þökk fyrir Ólafur, - og þeir eru fljótir að svara sem hata Ísrael. Að valsól skuli vilja kalla þetta "rakettur" þá er verið að vísa til flugelda á gamlárskvöldi eins og um skemmtun sé að ræða. Ef menn horfa aðeins nær þá sjá allir að herskáum múslimum fjölgar og illvirkin eiga sér stað um alla Evrópu. Þeir eru komnir til Danmerkur meira að segja.

Ísraelar hafa búið við þetta í yfir 100 ár (Tel-Aviv) verður 100 ára í ár. Rúturnar hjá gyðingunum sem fluttu farþega um landið fyrir 1939 urðu að vera klæddar með vírneti fyrir gluggum þar sem algengt var að handsprengjum var varpað á rúðurnar, þær brotnuðu, sprengjan lenti inni í rútunni og sprakk með þeim afleiðingum sem handsprengjur valda. Vestrænir menn mega aldrei styðja hryðjuverk Palestínumanna - þá fá þeir móralskan stuðning og þeim vex ásmegin.

kær kveðja

Snorri í Betel

Snorri (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 08:35

5 identicon

Ég ætla að draga fyrri ummæli til baka þar sem þau voru sögð í fljótfærni. Það er víst forsenda fyrir umræðum að vera ekki með lítillækkandi ummæli né dónaskap.

Ég var að horfa á mynd um daginn sem hét Ocipation 101 og ég get svarið það ég fór að gráta þegar ég sá lítil Palestínsk börn gráta á meðan Íraelískur hermaður var að berja föður þeirra. Ég get ekki séð neitt þakkarvert fyrir slíkt, þess vegna varð mér svo mikið um að þú skulir þakka guði. Er þetta bara venjuleg mannvonska eða hvaða hugsunargangur kemur svona pælingum af stað. Horðu á þessa mynd og svo skaltu þakka þessum miskunsama guði þínum sem nota bene er ekkert annað en kaldrifjaður morðingi sjálfur. (Sjá Gamla testamentið)

Valsól (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 08:40

6 identicon

Já Snorri ég er sammála því að við eigum ekki að lúffa fyrir trúmálum hvorki kristni né múslimum. Við eigum ekki að breyta þjóðfélögum okkar fyrir trúarbrögð. En þið hljótið að sjá að það sem er að gerast í Ísrael er ekkert annað en þjóðernishreinsanir svipaðar því sem gerðist í Þýskalandi Hitlers. Eini munurinn er sá að Ísraelar þora ekki vegna stórsamfélagsins að ganga harðar til verks en þeir gera. Svo er skrýtið að sjá kristlinga hér upp á Íslandi vera mæra gyðinga, vera mæra morð á hvorn vegin sem það er það skiptir engu máli, það er bara skrýtið að heyra ykkur tala í öðru orðinu um miskunsaman guð og í hinu orðinu þakkiði þessum sama guð fyrir morð á saklausum börnum sem hafa kastað grjóti í stríðstól. Ég hefði skilið það ef þið væruð krakkabjánar en ekki fullorðnir menn.

Valsól (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 08:46

7 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Þetta er engan veginn verjandi og með ólíkindum að menn leggi nafn sitt við þenna óþverraskap sem viðgengst í garð þessa sundurleita hóps sem kallast í dag palestínumenn.

Að sjálfsögðu er um að ræða skærur sem svarað er af hörku.  Svona unnu sveitir Þjóðverja líka á hernámssvæðum sínum og ætti að vera einvherjum búsettum í Ísrael í fersku minni.  En að occupatio sé enn í gangi 2008 með þessum hætti, ekki skrýtið að maðurinn reyni að halda reysn og segist gleðjast yfir píslardauða sonar síns.  Segir meira en 1000 orð um styrk hans, þó hugur hans sé sjálfsagt þungur.

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 29.2.2008 kl. 08:50

8 identicon

Vel sagt Bragi.

Valsól (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 09:00

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ástandið í Ísrael og Palestínu er algerlega sambærilegt við ástandið í hernumdum löndum Evrópu í seinna stríðinu. Eini munurinn er sá, að SÞ hafa lagt blessun sína yfir framferði Ísraelsmanna. En aðferðirnar eru þær sömu: Þið skjótið einn okkar, þá skjótum við börnin ykkar!

Þorsteinn Siglaugsson, 29.2.2008 kl. 09:10

10 identicon

Valsól,

 Af hverju ætti hann að skammast sín fyrir að segja sannleikann? Það ert þú sem ert að fara með rangt mál.

"Það er alveg stórundarllegt að tala um herskáa Hamas liða í stað þess að kalla þá réttu nafni, eða frelsis hermenn Palestínu."

Það er ekkert ríki sem heitir Palestína. Eftir fyrri heimsstyrjöld skiptu sigurvegararnir upp Miðausturlöndum og teiknuðu ný landamæri og skiptu svæðunum á milli sín. Eitt svæðið var kallað Palestína og fengu Bretar yfirráð yfir því. Það svæði náði yfir allt sem í dag heitir Ísrael, Vesturbakkinn og Jórdanía. Þjóðabandalagið, forveri Sameinuðu Þjóðanna, fékk Bretum það hlutverk að stofna ríki Gyðinga í Palestínu. Til að gera langa sögu stutta, þá hlaupum yfir nokkra áratugi. Að lokum voru stofnuð tvö ríki á þessu svæði, Trans-Jordan, sem náði yfir það sem í dag heitir Jórdanía og Vesturbakkinn, og Ísrael. Gasa tilheyrði á þeim tíma Egyptalandi. Í sex daga stríðinu árið 1967 náðu Ísraelsmen Vesturbakkanum og Gasa til sín. Þessi svæði eiga ekki að vera neitt palestínskt ríki. Ef þau eiga ekki að vera undir stjórn Ísraels, þá eiga þau að tilheyra Egyptalandi og Jórdaníu eins og þau gerðu fyrir 1967.

"Og að vera tala um eldflaugaárásir í stað þess að nefna þetta bara réttu nafni, eða rakettur." 

 Raketta er tökuorð. Rétta íslenska orðið er eldflaug.

"Þú minnist ekkert á að Ísraelar nota herþyrlur til að skjóta á saklausa borgara"

Þeir skjóta á "herskáa Palestínumenn" (sem kallast réttu nafni hryðjuverkamenn), en þegar þeir fela sig meðal almennra borgara er því miður óhjákvæmilegt að sumir þeirra falli líka.  

"landnemar skjóta þegar kvölda tekur að handahófi á hús á Gasa svæðinu"

Það eru engir "landnemar" lengur á Gasa. Þeir voru allir reknir þaðan fyrir tæpum  þremur árum.

"heimili fólks eru lögð í rúst með jarðýtum kannski mörgum sinnum hjá sömu fjölskyldunni á nokkurra ára fresti."

Fólkið ætti þá einfaldlega ekki að vera nota heimili sín sem vopnabyrgi eða til að fela göng sem notuð eru til að smygla vopnum frá Egyptalandi.

"Nei það er undarlegt að verja Ísraelsmenn sem hafa hagað sér skelfilega frá upphafi með þjóðernioshreinsanir sem meginhugmynd aðgerða sinna."

Þvert á móti. Það eru Arabarnir sem hafa lýst því yfir að þeir vilji útrýma Gyðingum. Gyðingarnir hafa alltaf viljað lifa í friði við nágranna sína.  Í Camp David var tillaga á borðinu um að stofna Palestínskt ríki á Vesturbakkanum og Gasa gegn því að þeir viðurkenndu tilvistarrét Ísraels. Það var Arafat sem hafnaði því. Ehud Barak, þáverandi forsætisráðherra Ísraels var tilbúinn til að samþykkja það.

"Sakmmastu þín!"

Hvert einasta orð sem þú sagðir er rangt. Það er frekar að þú ættir að skammast þín.

Kristinn (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 09:10

11 Smámynd: Ólafur Als

Einhvers misskilnings gætir hér vegna fyrirsagnarinnar. Hún er bein tilvitnun í al-Hayya, einn forsvarsmanna Hamas samtakanna. Ef menn vilja kalla það reisn að vilja fórna börnum sínum fyrir málstaðinn er ekk von á góðu - eða halda menn að friður náist með slíkum viðhorfum? Taka menn e.t.v. undir yfirlýst markmið Hamas um að eyða Ísraelsríki og drepa Gyðinga með öllum ráðum?

Samlíkingar við þóðernishreinsanir Hitlers, eða annarra hrotta, eru algerlega úr lausu lofti gripnar og sýna svo ekki verður um villst að hugur sumra er ekki til friðar, heldur að geta klekkt á Ísrael með öllum tiltækum ráðum. Hvenær munu menn átta sig á að friður fæst ekki með því að ala afkvæmi sín upp á hatri og sjálfsmorðsárásum, svo eitthvað sé nefnt ...

Ólafur Als, 29.2.2008 kl. 09:12

12 Smámynd: Ólafur Als

Kristinn Haukur:

Ísraelsríki hefur nú verið til í tæpa 22 þúsund daga. Varla hefur liðið dagur án þess að ríkinu eða borgurum þess hafi ekki verið ógnað með einhverjum hætti. Hver eru þín ráð til þeirra að verja sín landamæri og vernda borgarana? Hve langt má eitt ríki ganga í þá átt að verja tilverurétt sinn? Munum, að á þessu svæði er ekki tekið mark á kristnum orðum um að snúa hinni kinninni að óvini sínum.

Ólafur Als, 29.2.2008 kl. 09:57

13 identicon

Sín landamæri. Eimitt það já. Ég get aldrei stutt neina sem drepa saklaust fólk, hvort sem það eru arabar eða gyðingar, skiptir ekki máli, en ég er með réttlætiskennd sem er algjörlega misboðið. Ég skora á ykkur guðhrædda frjálshyggju brjálæðinga, að horfa á myndina Ocipation 101 og segja síðan skoðun ykkar. Ef þessi mynd snertir ekki taugar í hjarta ykkar þá eruð þið ekki mennskir.

Valsól (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 10:33

14 Smámynd: Ólafur Als

Og enn heldur maðurinn á bakvið grímuna. Valsól. áfram að slá um sig með gífuryrðum og sleggjudómum. Ekki slæmt að vera kominn í vinfengi við sjálft réttlætið. Veit Valsólin ekki að saklaust fólk er og verður fórnarlamb stríðsátaka? Hvar telur Valsólin að rót vandans liggi? Hvað er til ráða, svo Ísraelar og Palestínumenn geti lifað í sátt og friði? Hvar liggur mesta hatrið? Hvernig verður hatrinu eytt ... o.s.frv.?

Ólafur Als, 29.2.2008 kl. 11:03

15 identicon

Það sem er til ráða er flókið. En fyrir það fyrsta þyrfti að koma AIPAC fyri kattarnef. Þetta eru samtök lobbýista sem herja á þingmenn í Bandaríska þinginu. Þeir skekkja lýðræðið með peningum sem þeir hrúga í þingmenn til að þeir kjósi aldrei á móti neinum málum sem tengist Ísrael. Það skiptir engu máli þó Sameinuðu þjóðirnar komi með hverja ályktunina á fætur annarri sem hallar á ísrael þá notar USA neitunarvald sitt, og hverjir standa á bak við það? AIPCA. Þingið er lamað af peningum sem samtök ekki bara gyðinga heldur kristinna bókstafstrúarmanna troða ofan í þingmenn. Þessi samtök eru fjármögnuð að eins og ég segi gyðingum og svo kristnum bókstafstrúarrugludöllum sem trúa því að Jesús muni koma til Ísraels og drepa alla gyðingana og dæma síðan þá sem honum þóknast ekki að fyrirgefa. Pælið í tvískynungnum hjá kristlingunum. Þeir gefa fullt af peningum til AIPAC svo jarðvegurinn verði plægður fyrir Jesú, sem á svo að drepa alla gyingana sem þeir eru að verja. Þetta er sjúkt lið og ekkert annað. Skrýtið að hér upp á litla Íslandi skuli vera til fólk sem styður svona endemis vitleysu og skiptir þá ekki máli hvort þeir eru til hægri eða vinstri í pólitík.

Valsól (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 13:40

16 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Held þið stuðningsmenn Zionista ættuð að kynna ykkur þessa frétt:

http://mbl.is/mm/frettir/erlent/2008/02/29/israelar_hota_palestinumonnum_helfor/

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 29.2.2008 kl. 15:18

17 identicon

Pælið í því, síðasta flugskeyti frá Palestínumönnum hitti eitthvert hús og skemmdi það. Vá og þeir tala um að nú fái Palestínumenn sko að finna fyrir því, þeir skemmdu jú hús. Gyðingarnir sjálfir ætla að halda út í helför gegn saklausu fólki, því það er ekki hægt að kenna öllum Palestínumönnum fyrir að hafa skotið þessari heimatilbúnu rakettu. Svo eru menn hérna upp á Íslandi sem verja ósköpin, og það besta við það þetta eru menn sem kenna sig við kristni. Djöfulsins ógeð!

Valsól (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 15:47

18 Smámynd: Ólafur Als

Valsól:

Rót vandans liggur sem sagt í stuðningi Bandaríkjanna við Ísrael.

Sleppum því að Arabaþjóðir hafa ekki séð hag í því að leyfa Palestínumönnum að stofna eigið ríki, eins og S.Þ. lögðu til árið 1947, þar sem landsvæði Palestínu vestan Jórdanár átti að skipta á milli Gyðinga og Palestínumanna. Á þeim árum treystu Ísraelsmenn á stuðning Breta og Frakka um vopn, allt fram til sjöunda áratugarins. Það var ekki fyrr en seint á áttunda áratugnum sem vopn frá Bandaríkjunum urðu uppistaðan í vopnabúri Ísraela en þeir framleiða einnig sjálfir all nokkuð af sínum vopnum. Fjársterkir Gyðingar vestan hafs hafa og stutt Ísraelsríki um langt skeið, áður en Bandaríkjaþing hóf fjárstuðning sinn í einhverjum mæli. Eftir því sem stuðningur Bandaríkjanna hefur vaxið, svo og hefur andúð margra vinstri manna aukist á Ísraelsríki, ólíkt því sem var t.d. í upphafi. Margir hafa síðan smitast af andgyðinglegum áróðri heittrúaðra muslima og sósíalista.

Kristinn Haukur:

Vitanlega er öryggi Palestínumanna ógnað, hér er enginn að halda fram öðru. Eðli átakann hefur alltaf verið að Ísraelsmenn svari fyrir sig af hörku og það vita herská öfl á borð við Hamas og Islamic Jihad enda treysta þau á slíkt. Í þeirra hatri og hernaði er þeim ekkert heilagt, sbr. að fóstra börnin sín til sjálfsmorðsárása.

Landnemabyggðir eru vissulega hluti af útþenslustefnu heittrúaðra Gyðinga en svo vill nú til að Gaza var skilað til Palestínumanna án landnemabyggða og svo gæti að nokkru einnig farið um hinn s.k. Vesturbakka ef menn héldu sig að friðarferlinu. Stærstu mistökin á sínum tíma var að Trans-Jordan var stofnað án þátttöku Palestínuaraba en Gyðingum hafði verið lofað mun stærra landi en þeim á endanum bauðst úr hendi S.Þ. árið 1947. Að sama skapi vildu Arabar ekki að Gyðingar fengju nokkurt land.

Ég þykist viss um einlægan friðarvilja langflestra Ísraela og stjórnvöld hafa margoft lýst yfir að friðarferlið geti haldið áfram ef samtök á borð við Hamas láta af hryðjuverkum sínum. Á meðan geta draumóramenn á Íslandi kallað aðgerðir Ísraels hverju nafni sem þeir vilja en það kemur ekki í veg fyrir að þeir hafa rétt til þess að verja sitt land og sína borgara. Samlíkingar við Íran, N-Kóreu og Saudi Arabíu eru hálmstrá sem ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum.

- en hvernig væri nú að Valsól og Kristinn legðu eitthvað uppbyggilegt fram, sem gæti mögulega gagnast friðarferlinu.

Ólafur Als, 29.2.2008 kl. 15:55

19 identicon

Satt segirðu Kristinn Haukur. Ég veit eiginlega ekki hvað það er sem fær menn til þess að verja útþenslustefnu Ísraela. Það er ekkert skrýtið við það hvernig Palestínumenn berjast og ef sama staða væri uppi gagnvart okkur Íslendingum þá myndi ég kalla eiganda þessarar síðu heigul ef hann tæki ekki þátt í andspyrnunni með mér og við hlið mér.

Valsól (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 17:24

20 Smámynd: Ólafur Als

Mikið eigið mennirnir sameiginlegt, Valsól og Kristinn, í málefnaleysi sínu. Kristinn er þó sýnu meiri maður, hann skrifar þó undir nafni á meðan hinn hugumstóri Valsól felur sig á bak við gervinafn. Heigull má hann sjálfur því vera. Ef Valsólin vill ala afkvæmi sín til hryðjuverka og sjálfsmorðsárása, eins og hatursöflin gera fyrir botni Miðjarðarhafs, er manninum ekki við bjargandi.

Eitt er ljóst, mennirnir vilja ekki í umræðu af neinu viti og er það miður. Kristinn rembist eins og rjúpan að ræða um heittrúaða kristna, sem er ekki hér til umræðu af minni hálfu, og Valsólin breiðir út sinn banvæna faðm með gífuryrðum. Einhver mætti kenna manninum mannasiði.

Báðir þessir menn kunna annað hvort ekki að skammast sín, eða þá að þeir vita ekki betur. Fordómar þeirra eiga sér greinilega fá takmörk og víst er að þeir munu ekki stuðla að friði með orðræðu sinni.

Ólafur Als, 29.2.2008 kl. 18:14

21 identicon

Margur heldur mig sig og það eina sem ég get sagt við þig er að ég vorkenni þér fyrir fordóma þína gagnvart minnihlutahópi sem berst fyrir lífi sínu. Það er aumkunarvert að vera trúaður á 21. öldinni og að trúin skuli gefa þér slíkt hatur gagnvart einhverju fólki sem þú hefur aldrei séð.

Það er síðan sorglegt til þess að vita að fullorðið fólk sé það hrætt við dauðann að það þurfi að trúa á geymgaldrakarla til að auðvelda sér lífið fyrir dauðann. Þeir sem þurfa svona dellu sem meira að segja barn efast um eru í raun ótrúlega litlar manneskjur, sem fela sig á bak við samtakamátt trúarinnar. Þeir hafa ótrúlega mikla þörf fyrir að allir aðrir trúi líka því þá líður þeim ekki eins illa í efa sínum, því betra er ef margir trúa dellunni en fáir, það er auðveldara. Trú er af hinu illa hvernig sem á það er litið. Og maður þarf greinilega ekki að fara langt til að fá það staðfest. Varðandi nafnleynd mína þá er hún ekki meiri en svo að við tölvuna hjá mér hangir IP tala sem auðvelt er að finna og þar með eigandann ef einhverjum dytti það í hug að kæra mig fyrir eitthvað sem ég hef sett eða sagt hér á vefnum. Nafnleyndin er nú ekki meiri en svo. Annars passa ég mig frekar en ekki að vera kurteis við fólk jafnvel þó það sé trúað. En ég hika ekki við að fordæma svona skoðanir og gagnrýna trú hvar sem er og hvenær sem er. Ég nýti hvert tækifæri sem ég hef við það að hvetja fólk til að yfirgefa þessa kristni og bendi fólki á þversagnir biblíunnar og að það temji sér gagnrýna hugsun. Mér hefur orðið ágengt í sumum tilfellum og fólk sem var kristið hætti að trúa fyrir mínar sakir. Ég bennti einfaldlega á nokkur vel valin rök og fólk sagði sig úr þjóðkirkjunni í kjölfarið, og þá ekki í annan trúarsöfnuð (því ekki er vitið meira þar á bæ) heldur í stækkandi hóp trúlausra guðleysingja. Læt ég hér mínum orðum lokið hér á þessari síðu, enda ekki til neins að vera rökræða við blint fólk.

Valsól (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 20:47

22 Smámynd: Ólafur Als

- það fór eins og mig grunaði að grímuklæddi maðurinn kann sig ekki. Skilningi hans er og ábótavant, því ég hef hvergi borið við trúarbrögðum af minni hálfu. Vil halda hinu veraldlega og geistlega valdi aðskildu sem allra mest. Ég skil reyndar ekki að nokkrum heilvita manni detti í hug að breyta skoðunum sínum vegna orða Valsóls, nema hann sýni á sér aðra og betri hlið annars staðar - sem maður verður að vona, hans vegna, því málefnaskorturinn er jafn eftirtektarverður og palladómarnir eru áberandi.

Ef fólk á Íslandi getur ekki rætt stríðsátök í fjarlægum löndum eins og siðað fólk, hvers er þá að vænta á milli stríðandi aðila sem hafa eldað grátt silfur saman um aldir?

Ólafur Als, 29.2.2008 kl. 21:52

23 identicon

Það virðist líta út fyrir að þegar við leggjum orð í belg varðandi Ísrael og Araba þá köstum við perlum fyrir svín. En skoðum þetta. Alheimurinn fullyrti að ef Ísraelsmenn yfirgæfu landnemabyggðir á Gasa (sem þeir áttu ekki rétt á) þá stilltust Arabar og spenna minnkaði. Gyðingar fóru og ástandið varð margfallt verra. Það vantar friðarviljann hjá Hamas.

Af hverju skjóta Ísraelsmenn frá þyrlum? Jú, þeir ætla ekki að fórna sínum mönnum. Þeir hafa áður lent í svona kringumstæðum og það var í Líbanon.

Segir það ekki líka eitthvað um ástand og hugsunarhátt á Gasa þegar Egyptar vilja ekki sjálfir taka við landsvæðinu (þeir stjórnuðu því nánast alla síðustu öld)?

Þeir gyðingar sem svara Aröbum með vopnum lærðu sína sögu af gyðingum í Evrópu sem gripu ekki til vopna heldur treystu því að "kristnir" menn leggðu ekki í útrýmingarherferð gegn þeim en sáu of seint að kristnum Evrópubúum var ekki treystandi. Þeir sjá líka að friðarsamningum er ekki heldur treystandi. Abbas reynir að semja en Hamas vill stríð. Og við erum aðeins að rífast um málin á bloggsíðum út frá okkar siðferðisviðmiðum. En Arabar hafa ekki kristin siðferðisviðmið aftur á móti hafa kristnir sömu viðmið og samskonar skilning á réttinum til lífsins og gyðingar. Þess vegna erum við öruggari í faðmi gyðinga en múslima.

Eina lýðræðisríki fyrir botni Miðjarðarhafs er Ísrael og því ber okkur siðferðisleg skylda til að standa með Ísrael, þjóð sem stöðuglega má lifa við hótanir um útrýmingu frá 1947, 1956,1967,1973,1982,2006,2007 og 2008. Erum við hissa á því að gyðingar taka mark á hótunum um útrýmingu? Þeir búa við þessi kjör!

kveðja

Snorri í Betel

snorri (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 00:30

24 Smámynd: Ólafur Als

Þakka þér, Snorri, fyrir innlegg þín í umræðunni, sem skv. mínum skilningi hafa verið fræðandi. Þeir sem ekki eru sammála mér skulu einnig hafa þökk fyrir en mikið hefði ég óskað þess að sumt í orðræðu þeirra hefði verið á kurteisari og málefnalegri nótum. Eins og gefur að skilja er ekki hægt að sætta öll sjónarmið, en það er til nokkurs að vinna að minnka bilið á milli manna og leggja grunn að samræðum, málefnalegum fimleikum eða hvað menn vilja kalla það.

Nær allt siðað fólk óskar Palestínumönnum og Ísrael friðar og velfarnaðar og sá vilji er til staðar hjá báðum deiluaðilum. Hins vegar er all stór hluti Palestínumanna ekki reiðubúinn til þess að semja frið og hafa m.a. trúna sína sér til halds og trausts í þeim efnum. Það er beinlínis stefna Hamas hreyfingarinnar, Islamic Jihad o.fl. aðila að vinna gegn tilverurétti Ísraels. Hvernig hægt er að komast upp úr þeirri skotgröf veit ég ekki. Ísraelsmegin eru einnig til öfl sem sjá ekki hag í friði, en þau eru máttlítil samanborið við mótaðilann og hafa lítil sem engin áhrif á friðarvilja Ísraels.

Ólafur Als, 1.3.2008 kl. 00:58

25 identicon

Þú sérð aðeins aðra hlið málsins, svo einfalt er það. Vertu svo sæll að sinni og lifðu heill.

Valsól (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 01:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband