Farandsölumenn Evrópusambandsaðildar

Þjóðinni er nokkuð brugðið við tíðindum af versnandi efnahag og útrás í hættu. Slæleg fréttamennska og vond upplýsing gerir það að verkum að margir eru á báðum áttum, vita ekki alveg hvað framtíðin ber í skauti sér. Átta sig ekki á að ríkissjóður er vel í stakk búinn til tess að taka á tímabundnum vanda og fjármála- og útrásarfyrirtækin standa betur en sumir hafa haldið fram. Einkennilegt nokk heyrist lítið frá samstarfsflokki Sjálfstæðismanna í þessa áttina, þeir hafa verið of uppteknir af því að mæra Evrópusambandið.

Mitt í óvissuna nú stíga fram óvandaðir stjórnmálamenn, fréttamenn og erindrekar, aðallega úr ranni krata en einnig frá aðilum á borð við Samtök iðnaðarins, sem einhverra hluta vegna hefur haldið uppi áróðri fyrir ágæti Evrópusambandsins um árabil. Umræðan um gengi krónunnar hefur fallið vel að áróðri um upptöku annarra gjaldmiðla, aðallega evru, án þess að málið hafi verið borið fram af nokkurri ábyrgð eða þekkingu.

Margar halda eflaust að hægt sé að taka upp erlendan gjaldmiðil án þess að því fylgi nokkuð nema gott. Reyndar felst vanþekking margra evrusinna í því að þeir vita ekki hvað gjaldmiðill er eða hvað hann hefur að geyma. Þeir básúna einni hlið en gleyma að jafnvel evran hefur tvær hliðar. Gjaldmiðill er einungis ávísun á tiltekin verðmæti og samspil efnahagsþátta. Ef menn vilja ná fram breytingum á einu sviði er hætt við að það geti valdið óstöðugleika á öðru. Við gætum því t.d. horft framan í aukið atvinnuleysi, gengisaðlögun sem fæli í sér hækkun erlendra vara um tugi prósenta = launalækkun, viðvarandi tregðu á lánamörkuðum o.s.frv.

Ef til vill má kalla núverandi efnahagsástand ógnarjafnvægi en hagur launþega og annarra hefur m.a. fólgist í að launavísitalan hefur verið á enn meiri hraða en aðrar vísitölur. Íslendingar hafa því haft efni á að lánin hækkuðu sífellt og afborganirnar af þeim. Ofkeyrsla af þessu tagi hefur í okkar tilfelli stuðlað að allt of háu gengi og nú blasir við að leiðréttingar er þörf á genginu samhliða því að koma verðbólgunni í eðlilegt horf. Til þess að svo megi verða þurfum við að taka á okkur smá skell.

Í þessu andrómslofti spinna Evrópubandalagssinnar vef sinn og bregða sér í líki óvandaðra farandsölumanna sem vilja selja okkur evru og hlutdeild í Brussel í stað raunverulegra lausna.


mbl.is Ekki eftir neinu að bíða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er nú ekki alveg sammála...  En sé hins vegar strax að þú ert einn þeirra sem ert of tilfinningalega (eða pólitískt) bundinn skoðun þinni að sama hvað ég eða aðrir sem vilja skoða inngöngu í ESB segja - skoðun þinni mun ekki verða haggað.  Það er bara í góðu lagi :)

Einar (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 16:45

2 Smámynd: Ólafur Als

Einar,

umræðan sjálf felur í sér að skoða inngöngu. Eins og gefur að skilja myndi innganga fela í sér kosti og galla. Ég lít svo á að gallarnir séu of margir og tel það skyldu mína að benda á slíkt. Ásókn margra í skrifræðið í Brussel er mér illskiljanlegt, enda vil ég að við höldum áfram að gera góða hluti á Íslandi án þess að þurfa að spyrja Brussel um leyfi. Ég skil reyndar ekki einstaklinga sem vilja ekki fyrst horfa í eigin ranni eftir lausnum - ég mun ekki taka þátt í uppgjöf þeirra sem vilja binda sig á klafa sérfræðingaveldisins á meginlandi Evrópu, tilhugsunin um að bindast vina- og verslunarböndum við allan heiminn hugnast mér mun betur.

Ólafur Als, 6.3.2008 kl. 17:24

3 identicon

Finnst það alveg ótrúlegt hvernig fólk er tilbúið að fórna sjálfstæðinu vegna smá tímabundina vandamála, svo er ekkert víst að aðild lagi þau. Hefðum alveg eins bara getað sleppt sjálfstæðisbaráttunni og beðið eftir því að Danir gangi í ESB. Evrópusambandið er annað af þremur skrefum í að gera Evrópu að ríki sambærilegum Bandaríkjunum, eftir X mörg ár gætu þeir einfaldlega neitað okkur að ganga úr því og þá verður auðvitað komið Evrópsk alríkislögregla hér á land ásamt hermönnum. Tony Blair sem forseta? Nei takk.

Svo eru Evrópusinnar duglegir í að tala um hugsanlega plúsa en ekki mínusa.  Já það er kannski hlutfallslega ódýrara að kaupa mat á meginlandinu en hver ætli meðallaun séu innan ESB? Þau eru alveg örugglega talsvert lægri en á Íslandi. Við gleymum því oft að hluti af útskýringunni fyrir háu verðlagi eru þau miklu lífsgæði sem við búum við, rétt eins og t.d. í Japan. Svo er það víst þannig í ESB að ríkustu löndin lyfta upp hinum, enda eru austurlöndin með vatn í munninum að komast inn. Viljum við borga meira en við fáum til baka? Ásamt því að missa yfirráð yfir auðlindum á sama tima. Svo verðum við að horfa til framtíðar eða horfa til Kína og Indlands, já ESB auðveldar viðskipti á milli aðildaríkja en á sama tíma takmarkar það viðskipti utan þess. Viljum við festast í svoleiðis á meðan heimsveldi rísa á öðrum svæðum? Af hverju er Noregur ekki búinn að ganga í ESB? Kannski vegna þess að þar eru lífsgæði betri heldur en í ESB rétt eins og hérna.

Ef við neyðumst til þess að skipta um gjaldmiðil í framtíðinni þá skulum við fara aðrar leiðir, því miður tala pólitíkusar oft eins og það sé bara Evra í boði. Ég veit ekki betur en það sé hægt að taka upp t.d. dollarann án þess að ganga í Bandaríkin. 

Geiri (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 18:09

4 identicon

Mjög góð og þörf grein hjá þér Ólafur.

Í öllu þessu gjörningarveðri Evrópusambandssinna, þar sem tilgangurinn einn helagar meðalið og óvandaðir farandssölumenn ESB sinna, standa á hverju götuhorni og falbjóða sjálft sjálfstæði þjóðarinnar fyrir 30 Evru-silfurpeninga aðeins !

Til hvers var barist Jón Sigurðsson. "Vér mótmælum allr"

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 22:40

5 Smámynd: Ólafur Als

Ragnar, Einar, Geiri og Gunnlaugur:

Takk kærlega fyrir innlegg ykkar allra hér.

Ólafur Als, 6.3.2008 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband