Er pragmatisminn að gera okkur að hórum á sviði alþjóða stjórnmála?

Mér var bent á það í athugasemd í gær að væntanlega þyrftum við Íslendingar að vera pragmatískir í viðleitni okkar til þess að afla stuðnings við setu í öryggisráði S.Þ. Ef sú viðleitni felur í sér að horfa framhjá voðaverkum valdhafanna í Peking, því þeir hafi áhrif á svo mörg atkvæði, er allt eins hægt að auglýsa að við séum til sölu gegn hvaða gjaldi sem er. Ef það er lykillinn að setu í öryggisráðinu að enduróma ekki rödd lýðræðis og frelsis eigum við ekkert erindi inn á svið alþjóða stjórnmála. Utanríkisráðherra virðist á góðri leið með að kasta fyrir róða öllum þeim gildum sem við Íslendingar leggjum traust á með því að brosa svo breitt framan í valdsherrana í Kína.

Í hinu hersetna Tíbet hefur farið fram þjóðarmorð, skipuleg eyðilegging menningarverðmæta og kúgun í meira en hálfa öld. Svo leyfa sumir sér að líkja ástandinu í Tíbet við örlög Palestínuaraba, líkt og átökin fyrir botni Miðjarðarhafs hafi farið fram í kyrrþey. Hvenær hafa pólitískir samherjar utanríkisráðherra verið feimnir við að gagnrýna annað stórveldi, sýnu stærra, Bandaríkin? Hvar hafa sveitir vinstri manna verið síðastliðin 58 ár? Of upptekin við að gagnrýna Bandaríkin og Ísrael? Hvar eru mótmælin gegn alræðsöflunum í Kína, hvar eru friðarhreyfingarnar nú?

Alþingismenn hafa verið ófeimnir við að kalla eftir fordæmingum á framferði landa á borð við Ísraela og Bandaríkin. Hver vinstri þingmaðurinn á fætur öðrum hefur kallað eftir sterkum viðbrögðum stjórnvalda, viljað kalla sendiherra á teppið og jafnvel slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Í skjóli alls þessa hafa Kínverjar óáreittir getað stundað þjóðernishreinsanir og skipulega eyðileggingu menningarinnar í Tíbet. Í ofanálag hefur umheimurinn allur lagt blessun sína yfir þessum voðaverkum og öðrum sem Pekingstjórnin er í forsvari fyrir með því að leyfa þeim að halda Ólympíuleika, ekki ósvipað og þegar Hitler fékk að halda þá árið 1936.

Ef að líkum lætur mun umheimurinn leyfa Kínverjum að viðhalda ógnarstjórninni í Tíbet, hersetunni þar og áframhaldandi morðum. Almenningur á Vesturlöndum mun innan tíðar gleyma örlögum tíbetsku þjóðarinnar, halda áfram að versla ódýrar vörur frá Kína og undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana í Peking á sumri komanda. Víst er að margt verður þar um dýrðir. Kínverjar munu gefa umheiminum innsýn í glæsilega og litríka menningu, sem einkennir þessa stóru þjóð. Sú sýning mun eflaust fá okkur til þess að gleyma blóðugum örlögum friðsamrar þjóðar, hvers glæpur var að búa í næsta nágrenni við Kína. Við ættum öll að skammast okkar.


mbl.is Dalai Lama segir menningarlegt þjóðarmorð framið í Tíbet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Orð dagsins er "Falun Gong".  Manstu eftir þeim?  Manstu kannski líka hvað var gert við þá hér á landi?

Og auðvitað munu vinstri menn ekki gagnrýna vinstri stjórnina í Kína.  Þeir eru samherjar. 

Ásgrímur Hartmannsson, 16.3.2008 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband